Ísland er land elds og íss. Sum eldgos hafa gjörbreytt landinu, myndað fjöll, vötn, gíga og hraunbreiður. Einn er sá staður sem betur sýnir en nokkur annar hvernig Ísland er að rifna í tvennt, hvernig eldur myndar land og hvernig meginlandsflekarnir færast sífellt fjær hvor öðrum. Sá staður er afar fáséður og langt í frá á allra vitorði. Hann leynist í hrauninu sem rann í Kröflueldum, nánar tiltekið í Gjástykki.

Þar er landslagið tröllslegt, hrátt og gróft. Skuggalegar myndir í úfnu hrauninu og svartir hraunveggir, meira en mannhæðaháir grúfa sumstaðar yfir. Gjástykki er á heimsmælikvarða enda einstakt til fræðslu um landrek og eldgos, um megineldstöð og rekbelti og að ganga þarna er algerlega einstök náttúruupplifun.

Kröflueldar, sem svo eru nefndir, voru hrina eldgosa og kvikuhlaupa við Kröflu sem hófust þann 20. desember 1975 og stóðu til 18. september 1984. Fyrsta eldgosið hófst við Leirhnjúk, með litlu hraungosi en á þessu níu ára tímabili streymdi kvika inn í kvikuhólf undir Kröflu og þegar þrýstingurinn varð nógu mikill hljóp kvika í sprungureinar sem opnuðust. Á þessum árum gerðist þetta tuttugu og fjórum sinnum og níu sinnum náði kvikan upp á yfirborðið með tilheyrandi hraunrennsli og eldglærum.

Lára Ómarsdóttir fer ásamt föður sínum, Ómari Ragnarssyni, á þrjá staði sem allir eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir miklum áhrifum af jarðhræringum. Þetta eru Kelduhverfi, Gjástykki og Veiðivötn. Ferðastiklur eru á dagskrá RÚV fimmtudagskvöld kl. 20.05 en hægt er að horfa á eldri þætti í spilaranum