Aðfaranótt 25. apríl 1915 gjörbreyttist byggingarsaga Reykjavíkur. Þessa nótt brann Hótel Reykjavík til kaldra kola og fjöldi bygginga í næsta nágrenni á svipstundu. Eldsupptök voru aldrei kunn, en tveir menn fórust í brunanum.

Hótel Reykjavík var byggt 1905-1906, reist af tengdaforeldrum Einars Benediktssonar, Einari og Margréti Zoëga. Þetta var stórt og glæsilegt timburhús, skrautlegt með miklum útbyggingum og kvistum sem vísuðu út að Austurvelli. Húsið var byggt úr timbri og varð alelda á nokkrum mínútum þessa örlagaríku nótt.

Kvöldið áður en bruninn varð, hafði farið fram brúðkaupsveisla á hótelinu. Til er ljósmynd sem tekin var í veislunni, einungis nokkrum klukkutímum áður en húsið hvarf.

„Þetta finnst mér vera ein magnaðasta ljósmynd í sögu Reykjavíkur,“ segir Pétur Ármannsson arkitekt. „Menn vita ekki nákvæmlega hvernig eldurinn kom upp, en tilgátan er sú að það hafi borist neisti út frá skorsteininum inn á spæni á milli þilja í húsinu og þar hafi hann mallað í marga klukkutíma áður en hann braust niður í sjálft herbergið. Við getum ímyndað okkur að Reykjavíkurbruninn mikli hafi verið byrjaður á efri hæð hússins þegar þessi ljósmynd var tekin.“

Fáum vikum eftir brunann var byggingarreglugerðum Reykjavíkur breytt og í raun lagt bann við byggingum stórra timburhúsa. Þá hófst tími steinsteypuhúsanna. Fjallað var um Reykjavíkurbrunann í nýrri þáttaröð í umsjón Egils Helgasonar og Péturs H. Ármannssonar, Steinsteypuöldin. Þar er rakin saga byggingarlistar og borgarskipulags í Reykjavík á tuttugustu öld.