„Ef þeir útrýma öllum Palestínumönnum þá eru þeir búnir að útrýma Hamas en maður hafði ekki ímyndunarafl í þannig hörmungar“

Arnhildur Hálfdánardóttir

,

Samfélagið á Rás 1 ræddi hugtakanotkun í hernaði við Erling Erlingsson, hernaðarsagnfræðing. Hvernig passar orðið stríð, sem flestir fjölmiðlar velja að nota, yfir það sem gengur á á Gaza? Og hvernig falla hugtök eins og þjóðarmorð og stríðsglæpir að aðstæðum?

Erlingur segir að eftir árásir Hamas á Ísrael, þann 7. október 2023, hafi Ísraelsher breytt reglum um hversu margir almennir borgarar mættu deyja í árásum þeirra. „Þeir hentu hreinlega bara reglubókinni,“ segir hann.

Erlingur sló því föstu við upphaf yfirstandandi átakahrinu að markmið Ísraelshers um að útrýma Hamas-samtökunum myndi aldrei nást. „Ef þeir útrýma öllum Palestínumönnum eða reka þá frá Gaza þá eru þeir búnir að útrýma Hamas, maður hafði hreinlega ekki ímyndunarafl í þannig hörmungar.“