Katrín játar ósigur
Katrín Jakobsdóttir óskaði Höllu Tómasdóttur til hamingju þegar hún ræddi við Benedikt Sigurðsson fréttamann á kosningavöku sinni skömmu fyrir eitt í nótt.
„Það falla öll vötn til Dýrafjarðar hér, þannig að mér sýnist Halla Tómasdóttir stefna hraðbyri í að verða næsti forseti Íslands,“ sagði Katrín.
„Ég óska henni bara til hamingju með það og veit að hún verður góður forseti.“
Katrín segir að nú taki við nýtt líf á nýjum vettvangi og segist ekki hafa áhyggjur af öðru en að það verði skemmtilegt. Hún segist ekki vita hvað taki við. Hún hafi lagt allt undir í þessari baráttu og baráttan hafi verið skemmtileg. Katrín segist engu að síður ekki muni bjóða sig aftur fram til forseta. „Nei, þetta geri ég ekki aftur.“