Greinilega stærsta gosið í þessari hrinu
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, var að koma úr þyrluflugi yfir gosstöðvarnar. Þyrlan var komin á staðinn um 20 mínútum eftir að gos hófst.
„Við horfðum á sprunguna lengjast jafnt og þétt og hún er svona 3,2-3,4 km á lengd. Gosið var í rauninni að færast í aukana mest af þessum tíma.“
Magnús segir mestan kraft vera syðst í gosinu núna, þar sem gígurinn var í síðasta gosi og suður fyrir það. Hann metur það sem svo að eftir einn og hálfan tíma gæti umfang hraunsins verið orðið um 5 til 5,5 ferkílómetrar.
Hann væntir þess að fljótlega fari að draga úr gosinu aftur. „Því það er farið nú þegar meira en helmingurinn af þeirri kviku sem var búið að safnast upp þarna undir, meira en 20 milljón rúmmetrar.“
Hann segir gosið greinilega stærst gosanna í þessari hrinu.