Hafa keypt á annað hundrað flugferða án leyfa

Jóhann Bjarni Kolbeinsson og Ingvar Haukur Guðmundsson

,

Á Íslandi er óheimilt að selja flugferðir án þess að vera með svokallað flugrekstrarleyfi. Alls eru 13 slík leyfi í gildi á Íslandi, og meðal fyrirtækja og stofnana sem hafa slíkt leyfi má nefna Icelandair, Play, Landhelgisgæsluna, Isavia og Norlandair.

Flugrekstrarleyfi hljómar kannski eins og tæknilegt reglugerðaratriði sem skipti litlu fyrir þá sem fljúga. En svo er ekki. Til að fá flugrekstrarleyfi þarf að uppfylla meiri kröfur til bæði flugmanna og flugvéla. Og án leyfisins eru farþegar ekki slysatryggðir ef eitthvað kemur upp á.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu.RÚV / Árni Þór Theodórsson


„Það er alveg klárt að þú ert að uppfylla strangari skilyrði, bæði varðandi þjálfun, varðandi heilbrigðisvottorð, varðandi ástand loftfarsins, varðandi handbækur, verklag og svo framvegis,“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu. „Þannig að það eru meiri kröfur og ríkari kröfur sem hljóta að stuðla að meira öryggi.“

Heilbrigðis- og hæfnipróf

Listinn yfir muninn á kröfum til fyrirtækja með flugrekstrarleyfi og þeirra sem eru í einkaflugi er ansi langur. Lykilatriðin eru þessi:

  • Flugmenn hjá fyrirtækjum með flugrekstrarleyfi þurfa viðameiri þjálfun og hæfnipróf á sex mánaða fresti, en ekki einkaflugmenn.
  • Flugmenn fyrirtækja með flugrekstrarleyfi gangast undir ítarleg heilbrigðispróf á árs fresti, en mun sjaldnar í einkaflugi.
  • Flugvélarnar sjálfar sæta bæði meiri kröfum um eftirlit og viðhald. Kröfur til einkavéla eru mun minni.

.
RÚV

En það eru ekki aðeins öryggisatriðin sem skipta máli í flugrekstrarleyfum, heldur einnig tryggingar. Kveikur óskaði eftir upplýsingum frá VÍS, um hvaða áhrif það hefur á tryggingar ef ekkert flugrekstrarleyfi er til staðar þegar óhapp verður.

Þegar farþegar kaupa flug hjá fyrirtæki sem ekki er með rekstrarleyfi þá hefur það áhrif á rétt þeirra til bóta úr slysatryggingu. Í skilmálum allra slysatrygginga VÍS, m.a. frítímaslysatryggingar og almennrar slysatryggingar, kemur fram að ekki séu greiddar bætur vegna slysa sem verða í flugi, nema tryggður sé farþegi í áætlunar- eða leiguflugi á vegum aðila sem hefur tilskilin leyfi hlutaðeigandi flugmálayfirvalda. Hins vegar myndi skortur á slíku leyfi ekki hafa áhrif á rétt til bóta úr líftryggingu,

segir í skriflegu svari VÍS til Kveiks.

Engar sannanir

Þegar Kveikur spurði Samgöngustofu hvað flugrekstrarleyfi gæti kostað lítið fyrirtæki nefndi stofnunin dæmi um fyrirtæki með tvær litlar flugvélar í útsýnisflugi sem greiddi ríflega eina og hálfa milljón króna í eftirlitsgjöld í fyrra.

Í þætti Kveiks sem sendur var út 4. mars var fjallað um flugslysið í Þingvallavatni í febrúar 2022. Foreldrar eins þeirra sem fórust í slysinu lýstu því í þættinum hvernig þau telja að íslensk stjórnvöld hefðu getað komið í veg fyrir slysið. Bæði Samgöngustofa og lögreglan höfðu haft fyrirtækið og flugmanninn sem flaug vélinni til skoðunar, en gripu ekki til aðgerða. Ástæða þess að fyrirtækið var til skoðunar var sú að það var ekki með flugrekstrarleyfi.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
Frá Þingvöllum.RÚV / Árni Þór Theodórsson

Hvers vegna var ekki gripið til harðari aðgerða þar?

„Við höfðum ekki neinar sannanir fyrir því að þarna væri verið að fljúga í atvinnuskyni,“ segir Jón Gunnar. „Við höfðum ekki gögn um það. En vegna þeirrar umræðu sem var þá, eins og hefur komið fram í fjölmiðlum, vísum við því máli til lögreglu og litum svo á að þau hefðu tækifæri og meiri heimildir til að rannsaka málið. Það leiddi ekki til niðurstöðu. Þannig að ég get eiginlega ekki tjáð mig meira um það.“

En þið kærðuð þá niðurstöðu áfram. Voru það vonbrigði að það mál skyldi ekki fara lengra?

„Já en við náttúrlega erum ekki að segja lögreglunni fyrir verkum og ef lögreglan metur það svo að þar séu ekki forsendur til að rannsaka mál, þá hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir því sem við getum ekki farið að gagnrýna. Að mínu mati gerðum við það sem við gátum.“

Ellefu stofnanir og ríkisfyrirtæki

Í kjölfar umfjöllunar Kveiks um flugslysið í Þingvallavatni barst fjöldi ábendinga sem bentu til þess að pottur væri víða brotinn - ekki síst hjá hinu opinbera.

Kveikur sendi því erindi á rúmlega tuttugu stofnanir og opinber hlutafélög, og óskaði eftir yfirliti yfir allar flugferðir innanlands sem keyptar höfðu verið síðasta áratuginn, að hefðbundnu áætlunarflugi undanskildu.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV

Nokkrar stofnanir sögðust ekki hafa keypt neinar ferðir af því tagi sem Kveikur spurði um. Þar á meðal voru nánast öll lögregluembætti landsins. Í svörum annarra stofnana var aðeins um að ræða flug með félögum sem voru með flugrekstrarleyfi þegar ferðirnar voru farnar.

En í svörum ellefu stofnana og ríkisfyrirtækja mátti finna kaup á flugferðum með félögum sem ekki voru með flugrekstrarleyfi. Samtals eru þetta á annað hundrað flugferðir.

„Þetta kemur á óvart“

Kveikur tók saman lista yfir þessar ferðir og afhenti Jóni Gunnari, forstjóra Samgöngustofu, um leið og tekið var viðtal við hann 31. mars síðastliðinn.

Hvernig líst þér á þetta?

„Í raun og veru er það þannig að til að vera að sinna flugi í ábataskyni þarftu flugrekstrarleyfi,“ sagði Jón Gunnar á meðan hann skoðaði listana. „Og á heimasíðu okkar er listi yfir þau fyrirtæki sem eru með slík leyfi. Og ef aðili er að fljúga í ábataskyni og er ekki á þeim lista, þá er það eitthvað sem er full ástæða til að skoða. Það að vera síðan í að taka þátt í einhverjum kostnaði getur verið heimilt, þannig að ég ætla ekki að fullyrða að eitthvað ólöglegt sé í þessu, ég get ekki sagt það hér og nú.“

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, skoðar lista yfir flugferðir opinberra stofnana og ríkisfyrirtækja sem Kveikur afhenti honum.RÚV / Árni Þór Theodórsson

Á listunum sem Kveikur afhenti Samgöngustofu má sjá kaup á vel á annað hundrað flugferðum sem opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki hafa keypt undanfarinn áratug, flugferðir með aðilum sem ekki voru með flugrekstrarleyfi þegar ferðirnar voru farnar. Samgöngustofa var ekki meðvituð um þennan fjölda.

„Já, þetta kemur á óvart, umfangið kemur á óvart. En ég er náttúrlega bara rétt að sjá þetta núna og ekki búinn að glöggva mig á því, þannig að ég held að það sé alveg tilefni til að skoða það ef þetta er reyndin já,“ sagði Jón Gunnar í viðtali við Kveik í lok mars.

Ýmsar skýringar

Af þeim ellefu stofnunum og ríkisfyrirtækjum sem höfðu keypt flugþjónustu án þess að flugrekstrarleyfi væri fyrir hendi voru nokkrar með fáar slíkar flugferðir skráðar, eða á bilinu eina til þrjár á tímabilinu. Þar á meðal eru Náttúruverndarstofnun, Minjastofnun og Veðurstofan. Þessar stofnanir svöruðu því meðal annars til að kaupin hefðu verið í góðri trú, að ekki hefði verið gengið úr skugga um að öll leyfi væru til staðar og að passað verði upp á að þessir hlutir séu í lagi í framtíðinni.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV

Samkvæmt svörum frá ríkislögreglustjóra voru keyptar 38 flugferðir á tímabilinu. Langflestar þeirra voru með aðilum sem voru með leyfi, en tvö þeirra voru það þó ekki.

Í svörum ríkislögreglustjóra kemur fram að ekki hafi legið fyrir vitneskja um það í öðru tilfellinu, að flugrekstrarleyfi hafi ekki verið í gildi. Embættið telji ekki rétt að svara fyrir hitt tilvikið, sem hafi verið bókun á vegum Náttúrufræðistofnunar.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV

Náttúrufræðistofnun keypti 63 flugferðir af því tagi sem Kveikur spurði um síðasta áratuginn. Þar af voru 36 ferðir með aðilum sem ekki voru með flugrekstrarleyfi.

Í svari stofnunarinnar segir að flugferðirnar hafi ekki verið í ábataskyni og að aðeins hafi verið greidd hlutdeild í eldsneytiskostnaði.

Haustið 2023 var vinnuaðferðum varðandi flug starfsmanna stofnunarinnar breytt og er nú skýr áhersla á að rannsóknar og vöktunarflug skulu fara fram með aðilum sem hafa rekstrarleyfi, fari okkar starfsfólk með í slíkar ferðir á vinnutíma,

segir í svari Náttúrufræðistofnunar.

Það er engin tilviljun að vinnuaðferðum varðandi flug hjá Náttúrufræðistofnun var breytt haustið 2023. Nokkrum mánuðum fyrr, nánar tiltekið 9. júlí, varð hörmulegt flugslys á Austurlandi þar sem þrír fórust; flugmaður og tveir farþegar. Farþegarnir tveir voru við hreindýratalningar fyrir Náttúrustofu Austurlands þegar slysið varð.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
Frá aðgerðum vegna flugslyssins á Austurlandi 9. júlí 2023.RÚV / Hjalti Stefánsson

Flugvélin, sem bar einkennisstafina TF-KLO, hafði verið rekin á flugrekstrarleyfi Flugfélags Austurlands árin á undan. Samgöngustofa hefur hins vegar staðfest við Kveik að ekkert flugrekstrarleyfi var að baki vélinni þegar slysið varð. Flugrekstrarleyfi Flugfélags Austurlands var skilað inn 30. desember 2022, hálfu ári fyrir slysið.

Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, sagði í samtali við Kveik, að slysið fyrir austan hefði haft áhrif á að ferlar voru endurskoðaðir varðandi vöktunar- og rannsóknarflug.

Kveikur óskaði einnig eftir upplýsingum frá Náttúrustofu Austurlands, en farþegarnir sem létust í slysinu voru starfsmenn stofnunarinnar.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV

Stofnunin sendi Kveik lista yfir mikinn fjölda flugferða á síðustu árum, en þær voru allar farnar vegna hreindýratalningar. Flestar ferðirnar voru á vegum Flugfélags Austurlands á þeim árum þegar félagið var með flugrekstrarleyfi. Sjö ferðir eru hins vegar skráðar árið 2023, eftir að félagið skilaði leyfinu inn. Síðasta ferðin er flugferðin örlagaríka í júlí það ár.

Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands, sagði í samtali við Kveik að um áramótin 2022/2023 hefði Flugfélag Austurlands tilkynnt að félagið gæti ekki lengur veitt stofnuninni þjónustu. Þau skilaboð hafi verið ítrekuð til stofnunarinnar í febrúar 2023.

Þrátt fyrir þetta segir Kristín að allar flugferðirnar árið 2023 hafi verið með TF-KLO, sem var þá ekki með leyfi.

Þegar ekki var lengur flugfélag með rekstrarleyfi starfandi á Austurlandi fékk deildarstjóri hreindýrarannsókna aftur í lið með sér aðstoðarmenn við talningar og vöktun sem höfðu yfir að ráða flugvél sem áður hafði verið notuð,

segir Kristín.

Deildarstjórinn var annar farþeganna sem létust í slysinu.

Skýrsla Rannsóknarnefndar samgönguslysa er ekki enn komin út og því liggur ekkert fyrir um orsakir slyssins.

Heimilt að deila kostnaði upp að vissu marki

Landsvirkjun sendi Kveik lista yfir 10 flugferðir á umræddu tímabili. Helmingur þeirra var með aðilum sem ekki voru með flugrekstrarleyfi - þar á meðal eftirlitsflug og flug með starfsmenn Landsvirkjunar.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV

Í svörum Landsvirkjunar er fullyrt að ákvæði laga um flugrekstrarleyfi hafi ekki átt við í þessum flugferðum. Ferðirnar hafi ekki verið farnar í atvinnu- eða ágóðaskyni, flugvélin sem notuð hafi verið í ferðunum sé í einkaeigu og flugmaðurinn sé starfsmaður Landsvirkjunar. Landsvirkjun hafi í þessum tilvikum aðeins tekið þátt í eldsneytiskostnaði.

Á Íslandi er heimilt að deila kostnaði við einkaflug upp að vissu marki. Kostnaðurinn þarf þá að deilast niður á alla sem eru um borð, þar á meðal flugmanninn, og má þá aðeins deila beinum kostnaði, svo sem vegna eldsneytis eða lendingargjalda. Enginn hagnaður má þá vera af fluginu. Jón Gunnar segir að þessar reglur séu óskýrar og að þær hafi verið til vandræða.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV / Einar Rafnsson

„Við höfum rætt þetta innan Evrópu og innan Flugöryggisstofnunar Evrópu, að þetta er ekki nógu skýrt þetta svokallaða „cost sharing“. Og við viljum endilega að það sé kveðið skýrar á um það þannig að það fari ekkert á milli mála þegar þú ert að kaupa þér flug með aðila sem er í atvinnurekstri, eða þú ert að taka þátt í útlögðum kostnaði með einhverjum sem er í einkaflugi.“

En þurfa reglurnar að breytast í Evrópu til þess að við getum breytt þeim hér?

„Ja, við vinnum mjög þétt með Evrópu og við förum og framfylgjum þeim reglum sem gilda í Evrópu,“ segir Jón Gunnar.

„Var ekki meðvituð“

Hafrannsóknastofnun sendi lista yfir 25 flug. Af þeim voru öll nema eitt með aðilum sem ekki voru með leyfi.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV

Í svörum frá stofnuninni segir að í sumum tilvikum hafi starfsmenn ekki verið meðvitaðir um reglurnar og að þeir hafi aldrei spurt. Í öðrum tilvikum hafi verið samið við fyrirtæki um að tryggja að vélarnar sem flogið var með væru með öll tilskilin leyfi. Eftir því sem stofnunin best viti hafi það verið gert í þeim tilfellum.

Háskóli Íslands sendi yfirlit yfir flug sem keypt hafa verið af sex mismunandi aðilum á undanförnum árum. Þar af voru tveir ekki með leyfi.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV

Í svari Háskólans segir að flugferðirnar hafi verið fjármagnaðar af ytri aðila og sömuleiðis sú rannsóknarvinna sem fylgdi í kjölfarið. Vísindamaðurinn sem því tengdist hafi nú látið af störfum.

Háskólinn í Reykjavík sendi upplýsingar um reikninga sem voru sendir vegna rannsóknar á gerð flugvallar í Hvassahrauni, sem var unnin í samráði við samgönguráðuneytið. Í því verkefni var samið við aðila sem voru ekki með flugrekstrarleyfi.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV

Í svari Háskólans kemur fram að flugmennirnir hafi ekki fengið neina greiðslu, heldur hafi Háskólinn greitt eldnseytiskostnað og gjöld vegna þeirrar aðstöðu sem verkefnið naut á vegum Fisfélagsins. Starfsemin hafi ekki verið í ábataskyni.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV

Loks sendi Fiskistofa yfirlit yfir rúmlega 33 flugferðir. Engin þeirra var með aðila með flugrekstrarleyfi. Í svari stofnunarinnar segir einfaldlega:

Fiskistofa var ekki meðvituð um að þessir aðilar voru ekki með flugrekstrarleyfi.

Ætla að senda stofnunum upplýsingar

Nokkrum dögum eftir að Kveikur hafði afhent Samgöngustofu lista yfir þessar flugferðir sendi stofnunin Kveik erindi og sagðist hafa farið yfir listana. Þar sagðist stofnunin hafa skoðað listann og að gera megi ráð fyrir að hluti flugferðanna geti fallið undir heimildir til kostnaðarskiptingar. Einhverjar undantekningar virðist þó vera til staðar.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV / Einar Rafnsson

Viðmælendur Kveiks, sem eru sérfróðir á þessu sviði, segja útskýringar stofnananna hins vegar ekki halda vatni.

Samgöngustofa ætlar að grípa til aðgerða eftir að hafa fengið listana afhenta, en í svari stofnunarinnar til Kveiks sagði:

Að gefnu tilefni hefur  Samgöngustofa í undirbúningi útsendingu á upplýsingum til ríkisstofnana um hvaða reglur helstar gilda um sölu á flugi.

Samgöngustofa hefur heimildir til þess að beita þvingunarúrræðum ef hún telur að verið sé að brjóta reglur. Stofnunin getur þannig afturkallað eða fellt úr gildi leyfi, heimildir og skírteini. Stofnunin hefur farið í eftirlitsferðir eftir ábendingar um sölu á flugferðum án leyfis, en hefur aldrei getað sýnt fram á greiðslur í ábataskyni með þeim rannsóknarheimildum sem stofnunin telur sig hafa.

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV / Árni Þór Theodórsson

„Ef viðkomandi er með flugmannspróf, þá spyr ég á móti; á hvaða forsendum eigi að svipta hann ef við höfum ekki neinar sannanir fyrir því að viðkomandi hafi verið að gera eitthvað sem er ekki leyfilegt,“ segir Jón Gunnar. „Og aftur getum við sagt að þetta gráa svæði með „cost sharing“ gerir okkur ekki lífið auðveldara.“

Finnst þér þið þurfa einhverjar frekari heimildir en þið hafið nú?

„Ég held að það sé kannski erfitt og flókið að ætla okkur að fara og fá heimildir til einhverra rannsókna og við höfum í raun og veru litið svo á að ef það þurfi að rannsaka hluti betur, þá sé hægt að vísa slíkum málum til lögreglu.“

En heilt yfir, finnst þér að það þurfi að taka til eitthvað í þessum málum?

„Ég held að regluverkið sé til staðar. En það er náttúrlega, ef við horfum á þennan lista sem þú ert að nefna hér, þá er alveg klárt í mínum huga að það er tilefni til samtals. Við getum sagt það þannig.“

Úr þætti Kveiks um flugrekstrarleyfi.
RÚV / Einar Rafnsson