15. apríl 2025 kl. 23:57
Innlendar fréttir
Viðskipti

GlacierShares skráð á Nasdaq-markaðinn í Bandaríkjunum

Kauphallarsjóðurinn GlacierShares Nasdaq Iceland ETF hefur verið skráður á bandaríska Nasdaq-markaðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum. Þar segir að þetta sé fyrsti kauphallarsjóðurinn sem sé skráður erlendis, sem fjárfesti í íslenskum hlutabréfum.

Helgi Frímannsson, fjárfestingaráðgjafi hjá GlacierShares, segir að með skráningu sjóðsins sé verið að koma íslenskum félögum á framfæri á stærsta og virkasta hlutabréfamarkaði heims.

„Það er virkilega spennandi að fjárfestar á bandaríska markaðnum geti nú í fyrsta sinn fjárfest í kauphallarsjóði sem fjárfestir á íslenska markaðnum,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

Skráningu GlacierShares fagnað á bandarískum hlutabréfamarkaði.
Aðsent / GlacierShares