Framtíð Garðyrkjuskólans að Reykjum í óvissu: „Við getum sagt að drög að upphafi dauðateygja séu að eiga sér stað“

Erla María Davíðsdóttir

,

Forsvarsfólk Garðyrkjuskólans að Reykjum hefur áhyggjur af framtíð skólans. Húsakynni skólans eru í niðurníðslu og segir skólameistari fjármagnið rétt duga til að halda skólanum á floti. Hún segir brýnt að stjórnvöld bregðist við með auknu fjármagni svo hægt sé að viðhalda eðlilegri starfsemi.

Guðríður Helgadóttir, sviðsstjóri garðyrkjubrautar, segir óvíst hvað taki við eftir útskrift næsta vor.

„Okkur líður svolítið eins og við séum núna bara komin á endasprett garðyrkjunámsins. Og tilfinningin okkar hér í Garðyrkjuskólanum er eiginlega sú að við klárum þennan árgang sem útskrifast næsta vor og svo vitum við ekkert hvað tekur við.“

Þannig að það gæti verið að endalokin séu í nánd ef ekki verður gripið í taumana?

„Við getum sagt að drög að upphafi dauðateygja séu að eiga sér stað.“