Knapi á baki kjúklings veldur usla í bíósölum
Vaktstjóri Sambíóanna segir að efla hafi þurft öryggisgæslu í bíósölum á sýningum Minecraft-bíómyndarinnar vegna Tik-Tok æðis sem hefur náð fótfestu hér á landi. Æðið snýst meðal annars um að kasta poppi yfir aðra bíógesti.
Þau eru ófá myndböndin á samskiptamiðlinum TikTok - þar sem allt ætlar um koll að keyra í bíósölum víða um heim við tiltekið atriði kvikmyndarinnar Minecraft. Uppvakningur stekkur á bak kjúklings og áhorfendur fagna ákaft og kasta poppi og gosi upp í loft.
Myndin var frumsýnd hér á landi í byrjun mánaðar og segir Rósalind Óskarsdóttir, vaktstjóri Sambíóanna í Kringlunni, þetta æði þegar komið til landsins.
„Það eru krakkar að koma bara inn til þess að hella poppi yfir alla og hafa stemningu og fara síðan bara út. Þannig að það hefur verið mikið af því núna undanfarið.“