Nemendur hins gjaldþrota Kvikmyndaskóla Íslands ætla ekki að þiggja boð um að halda námi sínu áfram við Tækniskólann, líkt og menntamálaráðherra hafði boðið þeim að gera. Fulltrúar nemenda sátu fund með stjórnendum Tækniskólans í dag þar sem tillögur um framhald námsins voru kynntar.
Að mati nemenda voru tillögurnar óljósar, illa ígrundaðar og uppfylltu ekki eðlilegar kröfur nemenda. Af þeim sökum hafna nemendur Kvikmyndaskólans tillögunum og fara þeir fram á viðræður við menntamálaráðherra um lausn þeirra mála.