12. apríl 2025 kl. 7:49
Innlendar fréttir
Veður

Rigning og slydda sunnan til en bjartara fyrir norðan

Í dag gengur í austan kalda eða strekking á sunnanverðu landinu með úrkomu, sem verður yfirleitt rigning nærri sjávarmáli, en slydda eða snjókoma í uppsveitum og á heiðum. Á norðurhelmingi landsins verður hægari vindur í dag og bjart veður.

Veðurspá klukkan 14.
Veðurstofa Íslands

Á morgun, sunnudag, gengur í allhvassa eða hvassa norðanátt. Með henni fylgir snjókoma, fyrst á austanverðu landinu, en einnig norðanlands síðar um daginn. Yfirleitt þurrt suðvestantil. Spár gera síðan ráð fyrir að við verðum í kaldri norðanátt áfram fram eftir næstu viku. Ofankoma af og til á norðurhelmingi landsins, en yfirleitt þurrt sunnanlands.