Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ætlar að fela Loftslags- og orkusjóði að veita styrki til kaupa á svokölluðum nytjahjólum. Þau eru sérstaklega hönnuð til að flytja ýmist farm eða farþega.
Í færslu Jóhanns Páls á Facebook segir að nytjahjól séu dýr í innkaupum en geti nýst með sams konar hætti og einkabílar. Þannig geti þau dregið úr akstri bíla og brennslu jarðefnaeldsneytis.
Styrkirnir verða allt að 200.000 krónur eða að hámarki þriðjungur af kaupverði hvers hjóls. Jóhann Páll sagði styrkinn vera lið í stefnu stjórnvalda um að ná árangri í loftslagsmálum, með því að ýta undir vistvænan og fjölbreyttan ferðamáta.
Svokölluð nytjahjól af ýmsum gerðum eru algeng víða um heim.EPA-EFE / Alexander Becher