Hiti náði 17 stigum á Egilsstaðaflugvelli í gær.RÚV
Það er útlit fyrir að áfram verði fremur hlýtt á hluta landsins. Hiti á Norðurlandi getur farið í 16 stig í dag þegar best lætur. Hiti annars staðar verður víða á bilinu 6 til 13 stig. Áttin verður suðvestlæg í dag og víða gola eða kaldi. Spáin gerir ráð fyrir bjartviðri austanlands, en skýjuðu veðri eða dálítilli súld af og til um landið sunnan- og vestanvert.
Á morgun nálgast skil landið frá lægð í suðri. Þá gengur í sunnanstrekking eða allhvassan vind og fer að rigna, fyrst vestanlands. Annað kvöld dregur svo úr vindi og vætu á suðvesturhluta landsins. Hiti breytist lítið.