Lagið Gaggó Vest innblástur að söngleik í Hagaskóla

Erla María Davíðsdóttir

140 nemendur í efstu bekkjum Hagaskóla koma að söngleiknum Gaggó ve(r)st, en þetta er í fyrsta skipti sem unglingarnir sjá um allt frá grunni, allt frá leikmynd og ljósum til handritaskrifa og tónsmíða.

„Það er um vinahóp í 10. bekk í Hagaskóla sem er að rannsaka mál sem gerðist fyrir rúmum 30 árum og á meðan við erum að horfa á þennan hóp af fólki reyna að leysa málið sjáum við í rauninni hvað gerðist í fortíðinni. Þannig að við erum alltaf að flakka milli nútíðar og fortíðar,“ segir Brynhildur Anna Sigurðardóttir, ein handritshöfunda verksins.

Fimmtíu krakkar eru í leikhópnum, sem bæði syngja og dansa, og telur hljómsveitin á þriðja tug. Settar voru upp alls átta sýningar og var uppselt á þær allar. Frumsýning var á mánudag og í dag var sú síðasta.