6. apríl 2025 kl. 11:49
Innlendar fréttir
Jarðhræringar á Reykjanesskaga

Áfram jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga - fjórir skjálftar um 3 að stærð

Landris og jarðskjálftavirkni heldur áfram á Reykjanesskaga, en síðasta sólahring hafa um 550 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg. Fjórir stærstu skjálftarnir voru við Kleifarvatn og á Reykjanestá og voru um 3 að stærð.

GPS-mælingar sýna nokkuð greinileg merki um að landris sé hafið undir Svartsengi. Að sögn Veðurstofu Íslands er erfitt að meta hraða kvikusöfnunar að svo stöddu og mögulega þarf að bíða í nokkra daga til að meta frekari þróun kvikusöfnunar.


Á myndinni eru yfirfarnir jarðskjálftar frá því að eldgosið hófst 1. apríl til dagsins í dag. Á þeim tíma hafa yfir sjö þúsund skjálftar mælst á Reykjanesskaga.

Kortið sýnir yfirfarna jarðskjálfta á Reykjanesskaga frá því að eldgosið hófst 1. apríl til 6. apríl (kl. 11).
RÚV / Veðurstofa Íslands