Snertiskjáir í nýjum bílum geta verið varasamir
Margir bílar í dag eru komnir með ýmis stjórntæki á snertiskjá. Það getur verið truflandi við akstur. Í Kveik í gær var fjallað um farsímanotkun undir stýri. Þar kom fram að notkun farsíma í akstri sé nokkuð mikið vandamál í umferðinni. Rúmlega þúsund manns voru kærð fyrir símanotkun undir stýri í fyrra.
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir ökumenn verða að vera meðvitaðir um hvernig þeir geti tryggt öryggi sitt og farþega undir stýri. „Það að stilla af það sem hægt er áður en lagt er af stað, fá farþega í framsæti jafnvel til að aðstoða ef mögulegt er. Það gæti hjálpað. En um leið er þetta öryggisbrestur ef illa er haldið á spilunum. Allt sem truflar athygli ökumannsins er ógn við öryggi.“