Hættulegar sekúndur með símann við stýrið

Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir og Garðar Þór Þorkelsson

,

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að farsímanotkun bílstjóra sé einn stærsti áhættuþáttur umferðarslysa í heiminum. Rannsóknir sýna að truflun af völdum farsíma skerðir frammistöðu bílstjóra á ýmsa vegu og alvarleg slys hafa orðið vegna þessa. Ein skilaboð geta reynst banvæn.

Viðbragðstími ökumanna sem nota farsíma undir stýri verður lengri, einkum við hemlun. Viðbrögð við umferðamerkjum og ljósum verða líka hægari. Ökumenn í síma halda síður viðeigandi fjarlægð á milli bíla og halda sig síður á réttri akrein.

Nær allir telja farsímanotkun undir stýri hættulega

Við könnumst eflaust mörg við að eiga erfitt með að líta af símanum, jafnvel eftir að við setjumst í bílstjórasætið. Kveikur hefur undanfarið fylgst grannt með umferðinni og bílstjórum. Tilfinningin eftir þá eftirgrennslan er að notkun farsíma undir stýri sé nánast orðin reglan, frekar en undantekningin. Þetta er alvarleg þróun.

Ef miðað er við niðurstöður könnunar Samgöngustofu frá í fyrra telja nær allir Íslendingar að það sé hættulegt að nota samfélagsmiðla undir stýri en rúmur fimmtungur segist gera það samt.

Nærri allir töldu líka hættulegt að skoða skilaboð undir stýri, en 36 prósent sögðust samt gera það.

„Notkun farsíma án handfrjáls búnaðar er nokkuð mikið vandamál í umferðinni,“ segir Árni Friðleifsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Við sjáum þetta töluvert.“ Árni segir að fólk sé jafnvel að horfa á þætti í símanum á meðan það ekur. „Hámhorfið er tekið alla leið.“

Samkvæmt lögum er stjórnanda ökutækis óheimilt að nota farsíma, snjalltæki eða önnur raftæki sem truflað geta aksturinn án handfrjáls búnaðar.

Árni segir afsakanir ökumanna fyrir símanotkun oft á þá leið að hringt hafi verið í þá.

„Það er engin lagaskylda á fólki að svara í símann þegar einhver hringir.“

Rúmlega þúsund kærðir fyrir símanotkun í fyrra

Í fyrra voru rúmlega þúsund manns stoppaðir og kærðir fyrir notkun farsíma undir stýri, þar af 653 á höfuðborgarsvæðinu og 368 annars staðar á landinu.

Fyrstu tvo mánuði þessa árs kærði lögregla 169 einstaklinga fyrir notkun farsíma og annars fjarskiptabúnaðar undir stýri, 110 á höfuðborgarsvæðinu og 59 á landsbyggðinni.

„Það eru fæstir sem lenda í umferðaróhöppum sem viðurkenna að þeir hafi verið í síma,“ segir Árni.

Telja mjög algengt að símanotkun tengist árekstrum

Fyrirtækið Árekstur.is er með samning við tryggingafélögin og kemur því að mörgum árekstrum þar sem ekki hefur orðið alvarlegt slys.

„Í fyrra, 2024, þá fórum við í rétt yfir sex þúsund árekstra,“ segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Árekstur.is. Hann segir að það séu að meðaltali 28 árekstrar á dag, þá daga sem fyrirtækið sé með opið.

Er algengt að þið komið að árekstrum þar sem þið teljið að símanotkun hafi komið við sögu?

„Það er mjög algengt já, því miður. Það er erfitt að halda tölfræði eða mæla þetta vegna þess að vanalega þá játar fólk ekki að hafa verið í símanum.“

Hann segir að það virðist algengt að rekja megi aftanákeyrslur í morgun- eða síðdegisumferðinni til símanotkunar.

„Þegar við spyrjum fólk hvað það var að gera og hver ástæða árekstursins var, þá fáum við oft loðin svör um hvað gerðist.“

Kasta símanum í börnin

Lögregla verður margs vísari þegar hún fylgist með umferðinni og þegar lögregla sinnir eftirliti á mótorhjólum þá kemst hún eðli málsins samkvæmt nær ökumönnum en ella.

„Þá höfum við séð að fólk er kannski að tala í símann og svo kemur lögreglan upp að hliðinni á því, og þá er verið að kasta símanum aftur í. Og jafnvel börn þar aftur í, sem eru í stórhættu því síminn fer í aftursætið,“ segir Árni.

Ef þú talar í símann undir stýri dregur þú úr viðbragðshraða þínum um 18%. Það að skrifa skilaboð dregur hins vegar úr viðbragðshraða um 35%.

Rannsóknir benda til þess að ökumaður sem tali í símann undir stýri fjórfaldi líkur á að lenda í slysi en fólk sem skrifar og/eða sendir skilaboð á meðan það keyrir bíl er aftur á móti 23 sinnum líklegra til að lenda í slysi.

Stórkostlegt gáleysi að vera í símanum og skertar bætur

En hvers vegna ætli fólki viðurkenni svona sjaldan að hafa verið í símanum, jafnvel þegar það er ef til vill augljóst? Kristján er ekki í vafa um það.

„Ég held fyrst og fremst að skömm komi þar við sögu, að fólk skammist sín. Það veit að það á ekki að vera í símanum.“

Heldurðu að fólk sé kannski hrætt varðandi tryggingarnar líka?

„Eflaust.“

Enda kannski ástæða til. Í dómi sem féll 2017 var ökumaður sagður hafa gerst sekur um stórkostlegt gáleysi vegna símanotkunar undir stýri. Ökumaðurinn hafði þremur árum fyrr ekið yfir á rangan vegarhelming og framan á bíl sem ók úr gagnstæðri átt á Reykjanesbraut. Hann viðurkenndi á slysstað að hafa verið að senda skilaboð úr farsíma sínum og því ekki fylgst nógu vel með veginum.

Ökumaðurinn stefndi tryggingafélagi sínu fyrir að greiða sér aðeins einn þriðja af þeim bótum sem hann taldi sig eiga rétt á vegna slyssins. Hann tapaði málinu.

Í dómnum segir að ökumaðurinn hafi við varasamar aðstæður á Reykjanesbraut ákveðið að senda sms á 80 kílómetra hraða og það hafi orsakað tjón hans, og hann sannarlega gerst sekur um stórkostlegt gáleysi.

Missti símann og lenti út af veginum

Árni Friðleifsson þarf ekki að hugsa sig lengi um þegar hann er spurður um nýleg dæmi um umferðarslys þar sem símanotkun kom við sögu.

„Við fengum tilvik fyrir nokkru þar sem ökumaður viðurkenndi það að hann var í símanum. Hann er að nota hann, missir hann og er að beygja sig eftir honum og við það missir hann stjórn á ökutækinu og endar utan vegar. Það verður slys bæði á fólki og svo náttúrlega mikið eignatjón.“

Banaslys á Hnífsdalsvegi

Við fórum til Ísafjarðar og hittum Þóri Guðmundsson, rannsóknarlögreglumann á Vestfjörðum. Hann þekkir af eigin reynslu hversu afdrifaríkt það getur reynst að missa athyglina við aksturinn í örskamma stund. Systir hans, Þórey Guðmundsdóttir, lést í bílslysi árið 2006, aðeins 17 ára gömul.

„Við erum fimm systkini, ég yngstur og fjórar systur. Ég og Þórey vorum tvíburar.“

Þórir og systur hans ólust upp í Hnífsdal, sem er um fimm kílómetra frá Ísafirði. Þórir segir systkinin hafa fengið ástríkt uppeldi og að þau Þórey hafi gert mikið saman, í raun verið nær óaðskiljanleg.

„Ég fór ekki í afmæli eða í skólann ef hún fór ekki fyrstu árin. Ég var það háður henni.“

Þórir tekur að rifja upp daginn örlagaríka, þegar hann missti tvíburasystur sína.

„Þetta gerist allt bara á þremur mínútum. Þá fæ ég símtal frá vinkonu Þóreyjar sem spyr mig hvar hún sé vegna þess að hún hafi ekki mætt í vinnu, sem var mjög ólíkt henni. Ég sagðist ekkert vita um hana en ætlaði að kíkja hvort hún væri heima.“

Örskömmu síðar hringdi presturinn á Ísafirði í Þóri, í leit að móður hans. Þá fóru að renna á Þóri tvær grímur og hann varð órólegur.

„Mig fór að gruna að það væri eitthvað sem hefði gerst mögulega. Þannig að ég ákvað að keyra heim út í Hnífsdal.“

Þegar Þórir keyrði fyrir horn á leið út á Hnífsdalsveg sá hann hvar heillöng bílaröð hafði myndast eftir veginum. Hann keyrði aftast í röðina, drap á bílnum og hljóp af stað.

Hafði móttekið og sent skilaboð augnablikum áður en slysið varð

Þórir hljóp á endanum fram á slysstað og sá hvar bíll foreldra hans marraði í hálfu kafi á hvolfi í sjónum neðan við veginn. Þegar hann spurði um systur sína sagði lögreglumaður á vettvangi honum að búið væri að flytja þann sem var í bílnum á sjúkrahús.

Nágranni Þóris keyrði hann á sjúkrahúsið, en Þórir segir að allt sé í dálítilli móðu eftir það.

Þórey var þegar látin þegar tvíburabróðir hennar kom á sjúkrahúsið. Hún hafði látist á slysstað.

„Það er talið að hún hafi gert það. Að hún hafi rotast og drukknað í kjölfarið.“

Í ljós kom að skömmu áður en Þórey keyrði út af veginum hafði hún móttekið og sent skilaboð úr farsíma sínum.

„Það er sem sagt talið að hún hafi misst bílinn í einhver hjólför, misst stjórn á bílnum og endað úti í sjó,“ segir Þórir.

Þórir segir að myndin af bílnum slást um milli grjóthnullunga í briminu, og sérstaklega myndin af númeraplötu bílsins á hvolfi, hafi ásótt hann lengi.

„Ég sá alltaf bílnúmerið á hvolfi. Og ég sé alveg ennþá þessa mynd.“

Hann segist vilja reyna að vekja fólk til umhugsunar. Hann vilji að fólki þyki vænt um líf sitt og sé ekki að bæta inn enn einum áhættuþætti í umferðina með því að nota símann undir stýri.

„Og ég vona að þetta hjálpi.“

Þegar slysið varð á Hnífsdalsvegi var komið fram yfir miðjan janúar. Það var kalt og blautt og hálka á veginum. En jafnvel þótt skilyrðin hefðu verið fullkomin þá breytir það því ekki að Þórey bæði tók á móti og sendi skilaboð skömmu áður en bíllinn sem hún keyrði kastaðist út af og hafnaði í sjónum.

Hefur fylgst með miklum breytingum á bæði tækni og akstursmenningu

Þórður Bogason er ökukennari, sjúkraflutningamaður og slökkviliðsmaður til margra ára. Við fengum hann til að aðstoða okkur á akstursbraut Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar, til að sýna fram á hvaða áhrif farsímanotkun getur haft á aksturinn.

„Ég byrja að kenna '98.“

Síðan þá hefur tækniþróun verið hröð. Snjalltækin hafa tekið yfir og hegðun okkar breyst með.

„Maður sér þetta svo vel, af því að maður er náttúrlega mikið að keyra í umferðinni að kenna, þegar fólk er að horfa svona niður. Kannski er það af því að maður er að leita að því. Maður er kannski meðvitaður, hugsi um þetta; af hverju er þessi bíll ekki rétt staðsettur á götunni? Af hverju er hann að hægja á sér?“

Sama megi segja um það þegar hann keyrir úti á landi, til dæmis við akstur sjúkraflutningabíls.

„Þegar maður sér bíla fara yfir miðlínu vegarins og eru svona eitthvað reikandi, þá sér maður þetta nákvæmlega sama; fólk er eitthvað að rýna niður.“

Skiptir máli hvað foreldrarnir hafa fyrir börnunum

Þórður segir snjallúrin ef til vill nýjasta vandamálið sem hann merki í umferðinni.

„Krakkarnir halda um stýrið, en svo koma skilaboð og þá er alltaf verið að kíkja á klukkuna. Þá er maður að stríða þeim: Ertu eitthvað tímabundinn, af hverju ertu alltaf að kíkja á klukkuna? Ég var að fá sms sko.“

Hann segist taka eftir því hjá ökunemum að þeir virðist ekki skynja að farsímanotkun undir stýri sé í raun eitthvað tiltökumál.

„Þá komum við líka að uppeldinu. Ef foreldrarnir eru í símanum þegar þeir eru að keyra með krökkunum í 16 ár og svo fara krakkarnir að læra á bíl, þá er þetta jafn eðlilegt; að keyra bíl og að vera að gera eitthvað í símanum.“

Ungir ökumenn eru líklegri til að nota síma við akstur en þeir sem eldri eru. Ungt fólk er sérstaklega viðkvæmt fyrir truflunum í akstri.

Viðhorfskannanir Samgöngustofu sýna fram á að það séu ökumenn á aldrinum 18 til 34 ára sem truflist mest við notkun annarra á farsímum í umferðinni.

Verður margs vísari í sjúkraflutningum

Í störfum sínum sem sjúkraflutningamaður sér Þórður líka mjög greinilega slysahættuna sem fylgir farsímanotkun ökumanna. Það gerist stundum að fólk segir honum hvernig slysið bar að, á leiðinni af slysstað í sjúkrabílnum.

„Ef maður er að spjalla við fólk á leiðinni, sem er kannski ekki alvarlega slasað, og það er að segja manni hvað gerðist, þá er þetta oft: Ég var að kíkja í símann eða teygja mig eftir símanum. Eitt nýlegt tilfelli sem ég fór í, þá einmitt dettur síminn og það verið að teygja sig eftir honum og þá beygir hann í leiðinni og lendir á ljósastaur.“

Aksturshæfni skertist mikið við notkun síma

Þórður gerði ýmsar tilraunir með okkur til þess að sýna fram á hvaða áhrif skjánotkun getur haft við akstur. Hann blindaði fréttamann Kveiks við akstur og svo gerðum við tilraunir með notkun síma undir stýri. Þórður stillti keilum upp sem þurfti að keyra eftir – ef keyrt var á keilurnar jafngilti það því að fara út af veginum.

Fréttamaður Kveiks keyrði niður nokkrar keilur, þótt aðeins væri litið á símann örskamma stund og á litlum hraða. Hraðinn var á bilinu 40 til 50 kílómetrar á klukkustund.

„Og fólk er að gera þetta á 90. 25 metrar á sekúndu,“ bendir Þórður á.

Við ferðuðumst um 20 til 30 metra blindandi.

„Á 90 og 25 metrar á einni sekúndu,- þú ert kominn svo langt. Og stundum er fólk búið að skrifa og það tekur eina, tvær, þrjár sekúndur og þá ertu bara kominn 50 metra, 60 metra.“

Fólk sem skrifar skilaboð undir stýri lítur af veginum í fimm sekúndur að meðaltali í hvert sinn. Á 70 kílómetra hraða keyrir þú því tæpa 100 metra blindandi, á meðan þú skrifar skilaboð í fimm sekúndur.

Á 90 kílómetra hraða eru metrarnir sem þú ferðast blindandi orðnir rúmlega 125 - á við rúman fótboltavöll.

Láta farsímanotkun annarra trufla sig mikið en nota símann samt sjálf

Samkvæmt könnun sem Samgöngustofa lét gera hér á landi í fyrra lætur rúmlega fjórðungur Íslendinga símanotkun annarra í umferðinni trufla sig mikið en þau nota þrátt fyrir það sjálf símann undir stýri.

Samkvæmt könnuninni á rúmlega helmingur ökumanna það til að nota farsíma undir stýri. 54 prósent eiga það til að nota farsímann á ferð og 55 prósent eiga það til að nota hann á rauðu ljósi, sem bendir til að nánast allir sem eiga það til að nota símann á rauðu ljósi gera það líka á ferð.

Athygli vekur að mjög fáir virðast með harða afstöðu um að nota símann aðeins á rauðu ljósi en aldrei á ferð. En það er líka hættulegt að nota símann á rauðu ljósi. Líkurnar á aftanákeyrslum aukast, bæði þegar ökumaðurinn fer ekki af stað á réttum tíma og fær bíl aftan á sig, en einnig þegar hann fer af stað án þess að líta upp.

Dæmi eru um að fólk sem er stopp á rauðu ljósi lyfti bremsunni af því því finnst umferðin vera farin af stað en rennur þess í stað beint á annan bíl. Bæði skynjun og athygli brenglast.

Líka varasamt að nota handfrjálsan búnað

Lögum samkvæmt er í lagi að svara símtali í gegnum handfrjálsan búnað. En rannsóknir sýna reyndar fram á að það sé nánast jafn hættulegt að nota handfrjálsan búnað eins og að tala í síma án hans.

„Rannsóknir sýna að það er símtalið sem hefur þessi truflandi áhrif. Og þess vegna væri langbest í stöðunni að menn væru ekkert að svara. Það er hægt að setja síma í akstursmót, drive mode, og þá gerist það sama eins og í fluginu, að þeir detta út þann tíma sem þú ert að keyra,“ segir Árni.

Tvær kannanir Samgöngustofu sem voru gerðar með nokkurra mánaða millibili í fyrra sýna að um 80 til 85 prósent svarenda vissu ekki af tilvist akstursstillingar á símum eða þekktu til stillingarinnar en notuðu hana aldrei.

„Akstur ökutækis krefst einbeitingar. Maður sér aldrei neinn á skíðum í símanum. Þú þarft bara einbeitingu til að fylgjast með og þetta er bara ósköp svipað í umferðinni,“ segir Árni.

Hugsanlegt að einn á ári láti lífið vegna farsímanotkunar

Það eru næstum því tveir áratugir síðan Þórey týndi lífinu á leið sinni milli Hnífsdals og Ísafjarðar.

Síðan þá erum við flest orðin algjörlega háð símunum okkar. Í þeim sækjum við í skilaboð, símtöl, netmiðla, tónlistarveitur og samfélagsmiðla. Allt á einum stað. Við eigum orðið erfitt með að slíta okkur frá símanum og þess vegna er áhættan orðin mun meiri en áður fyrr.

Ef við miðum við tölur frá Bandaríkjunum og reiknum það inn í myndina að þar látast heilt yfir fleiri en á Íslandi miðað við höfðatölu, þá má ætla að að jafnaði látist einn á ári vegna skertrar athygli við akstur í umferðinni á Íslandi.

Þarna er til dæmis átt við notkun farsíma, annarrar afþreyingar, stillingar leiðsögukerfis eða tónlistar, og þegar fólk borðar við akstur.

Undanfarin tíu ár hafa að meðaltali rúmlega 12 látist á ári í umferðinni á Íslandi. Úr hópi þeirra 12 mætti því ef til vill rekja dauða eins þeirra til skertrar athygli við akstur, sem getur haft með notkun farsíma að gera.

Það skal þó tekið fram að þetta getur reynst erfitt að sanna og hlutfallið gæti vel verið hærra.

Árni segir mikilvægt að hafa eitt atriði í huga umfram annað. Að temja sér ákveðið hugarfar.

„Númer eitt, tvö og þrjú er að við sem samfélag, við verðum að taka tillit til hver annars í umferðinni.“

Nýtir sorgina í forvarnir fyrir unga ökumenn

Þórir hefur nýtt sína erfiðu reynslu til góðs og sinnt forvarnafræðslu fyrir unga og nýja ökumenn í Menntaskólanum á Ísafirði um árabil. Fræðslan snýr að hættum í umferðinni, meðal annars símanotkun.

„Það er eitthvað sem ég nýti líka bara til að vinna í sjálfum mér alltaf, því maður þarf stöðugt að vera að vinna í sjálfum sér eftir svona áfall.“

Og finnst þér þú ná til krakkanna?

„Ég hef alveg hitt krakka sem fengu þessar fræðslu kannski fyrir fimm, sex árum, sem hafa sagt mér að þau hugsi alltaf til mín ef að síminn hringir eða eitthvað þannig, þegar þau eru að keyra. Svo þá er bara markmiðinu náð.“

Þórir hefur áhyggjur af því að fólki upp til hópa þyki orðið eðlilegt að vera í símanum undir stýri.

„Það er bara ekkert eðlilegt.“

„Ég á þrjú börn og eitt á leiðinni og þau fá aldrei að kynnast henni, tvíburasystur minni. Fyrir þá sem horfa á þetta þá ráðlegg ég ykkur að hugsa til mín og minnar fjölskyldu þegar síminn gellur á ykkur.“