Stóra plasttappamálið orðið að lögum
100 dagar, fjármálaáætlun og sitthvað annað
Það hefur eitt og annað gerst í dag.
Formenn stjórnarflokkanna þriggja fóru yfir verk sín á fyrstu hundrað dögum í lífi stjórnarinnar og áherslurnar sem birtast í nýrri fjármálastefnu, þeirri sömu og fjármálaráðherra kynnti í morgun.
Ráðherrar voru spurðir út í hækkun veiðigjalda og viðbrögð við yfirvofandi tollastríði auk þess sem plasttappamálið sem þingmenn deildu svo eftirminnilega um í febrúar var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða og er því orðið að lögum.
Meðal nýrra þingmála sem voru lögð fram í dag má nefna að Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, lagði fram lagabreytingu til að fækka kjörnum fulltrúum í borginni, og Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, lagði fram frumvarp um fjölmiðlastyrki.
Við látum þetta gott heita í fréttavakt okkar um stjórnmál. Takk fyrir samfylgdina.
Og til gamans látum við fylgja myndir af nokkrum málverkum í þinghúsinu.
Sammála um mikilvægi kirkjunnar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra sagði aðkomu stjórnvalda að þjóðkirkjunni með lagasetningu á undanförnum árum. Frá 1987 væri litið á þjóðkirkjuna sem sjálfstætt trúfélag.
Þorbjörg sagði þjóðkirkjuna sinna mikilvægu starfi á mörgum sviðum og mikilvægri sálgæslu.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði kristna trú og kirkjuna mikilvæga. Hún rifjaði upp frumvarp Sjálfstæðismanna um að auka kristinfræðslu í skólum. Diljá sagði að meirihlutinn í borgarstjórn hefði staðið fyrir aðför og sýnt neikvætt viðhorf gagnvart kristni með reglum um kirkjuheimsóknir.
Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með fyrri ræðumönnum um mikilvægi þjóðkirkjunnar. Hún sagði að tryggja yrði að hún gæti sinnt hlutverki sínu.
Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins, sagði samfélagið síbreytilegt. Sjálf hefði hún sagt sig úr þjóðkirkjunni þegar henni fannst hún ekki taka á móti öllum. Síðan þá hefði kirkjan breyst og þroskast og lært að vera opin. Sjálf hefði hún endurmetið hlutverk þjóðkirkjunnar í samfélagi.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, sagði mikilvægt að fræða börn um trúarbrögð í skólum. Hún sagði gríðarmikilvægt að standa vörð um trúar- og menningarþátt íslenskrar þjóðar og um leið efla þekkingu á öðrum trúarbrögðum.
Ræða stöðu þjóðkirkjunnar
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, hóf sérstaka umræðu um stöðu þjóðkirkjunnar.
Áður en hann tók til máls bað þingforseti þingmenn um að sýna honum þá virðingu að vera ekki með of mikinn hávaða á leið út úr salnum. Næsti dagskrárliður á undan var atkvæðagreiðsla og virðast nokkrir þingmenn hafa flýtt sér út frekar en að taka þátt í umræðunni um stöðu þjóðkirkjunnar.
Þórarinn Ingi sagði að sums staðar úti á landi væri presturinn eini embættismaðurinn á stóru landsvæði. Hann sagði suma unga presta að vera að kikna undan álaginu. Hann sagði mikilvægt að prestar gætu sinnt köllun sinni og starfi. Starfsemi kirkjunnar væri mikilvæg, ekki aðeins þegar kæmi að formlegum prestsverkum heldur líka í barnastarfi og við að viðhalda kirkjum.
Þórarinn hefur innsýn í prestsstörfin. Hann er sonur Péturs Þórarinssonar sem var prestur og bóndi.
Plasttappamálið samþykkt með miklum yfirburðum
Frumvarp um áfasta plasttappa á drykkjarmálum var samþykkt með 37 atkvæðum gegn sjö. Nítján þingmenn voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.
Þrátt fyrir miklar umræður um frumvarpið í fyrstu umræðu, þar sem ýmsir þingmenn fundu því flest til foráttu, voru það aðeins þingmenn Miðflokksins sem greiddu atkvæði gegn því. Þingmenn úr öllum öðrum flokkum greiddu atkvæði með frumvarpinu. Þó voru fleiri Sjálfstæðismenn fjarverandi við atkvæðagreiðsluna en nam fjölda þingmanna flokksins sem greiddu atkvæði með frumvarpinu.
Ólafur Adolfsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók til máls um atkvæðagreiðsluna og fór yfir gang málsins. Hann sagði að allar umsagnir um frumvarpið hefðu verið jákvæðar og að atvinnulífið væri þegar búið að innleiða efni frumvarpsins í raun.
„Ég mun greiða þessu frumvarpi atkvæði mitt og ég vonast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði á sömu línu.“
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, sagði sinn þingflokk að sjálfsögðu myndu greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Þetta væri óþarfamál sem væri komið beina leið frá Brussel.
Spurði hvort þing og þjóð ættu að sitja undir því að stjórnin léti undan hótunum
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, spurði forsætisráðherra hvers vegna Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefði sagt af sér sem mennta- og barnamálaráðherra og hver aðkoma hennar hefði verið.
Kristrún Frostadóttir sagðist hafa svarað sömu spurningu fyrir viku og að síðan þá hefði ekkert breyst. Hún sagði það ekki sitt að svara fyrir persónulegar aðstæður annarra. Sjálf hefði hún áður sagt að þau viðbrögð Ásthildar Lóu að hafa samband við konuna hefðu ekki verið við hæfi.
Sigríður sagði blasa við að ríkisstjórninni hefði borist hótun utan úr bæ og verið settir afarkostir. Hún spurði hvernig slíkt mætti verða til þess að forystumenn ríkisstjórnarinnar sætu á margra klukkutíma fundi og að ráðherra segði af sér. Hún spurði hvort þingið og þjóðin ættu að sitja undir því að ríkisstjórnin láti undan hótunum utan úr bæ og fyrirskipunum um hver sæti sem ráðherra.
Kristrún sagðist ekki kunna að meta tóninn hjá Sigríði. Hún sagði hvergi hafa komið fram merki um að Ásthildur Lóa hefði verið tilneydd til að segja af sér. Hennar mat hefði verið að segja af sér til að standa vörð um málaflokka sína.
„Ég er að svara spurningunni, háttvirtur þingmaður, og segja að ég kann ekki að meta þennan málflutning. Það er einfaldlega ekkert til í honum, eins og ég hef ítrekað svarað.“
Rætt um stöðu ungmenna hjá Janusi
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði sárt að horfa upp á ungmenni með alvarlegan og flókinn geðrænan vanda vera skilin eftir í óvissu við það að meðferðarúrræðinu Janusi sé lokað. Hún vísaði til áskorana félagasamtaka til stjórnvalda um að hætta við lokun Janusar.
Alma Möller heilbrigðisráðherra sagði að málið væri flókið þar sem heilbrigðisráðuneytið hefði áður verið með samning við Janus en VIRK endurhæfing frá 2011. Það væri VIRK sem hefði sagt upp samningnum áður en hún kom í ráðuneytið. Hún sagði reynt að finna úrræði fyrir hvern og einn, meðal annars með því að semja um geðheilbrigðisþjónustu.
Ingibjörg sagði ekkert annað úrræði tilbúið. Sú vinna væri að fara í gang en það hefði tekið mörg ár að þróa úrræðið sem Janus bauð upp á. Hún spurði hvort Alma ætlaði að tryggja öllum sömu þjónustu og áður.
Alma sagði úrræði yrðu tryggt fyrir hvern og einn. Hún sagðist gjarnan vilja sjá úrræðið hjá Reykjalundi þar sem fólkið hjá Janusi vildi fara að bregða búi.
Reyna að komast hjá tollahækkunum
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði út í viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna áforma Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um tollahækkanir.
Hann spurði forsætisráðherra hvað hefði verið gert til að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn legðu hugsanlega tolla á Ísland.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði það áhyggjuefni að stefndi í tollahækkanir vestanhafs. Hún sagði að hagsmunum Íslands hefði verið haldið á lofti bæði af hálfu forystumanna ríkisstjórnarinnar og af sendiráðinu í Washington. Hún sagði að Ísland og Noregur freistuðu þess nú að lenda ekki á milli í tollastríði Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.
Sigmundur Davíð spurði hvort Kristrún hefði reynt að ná sambandi við forseta Bandaríkjanna. Hún sagði að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefði verið í samskiptum við kollega sinn í Bandaríkjunum. Hún sagðist ekki hafa rætt við Trump en myndi gera það í framtíðinni.
Hönnu Katrínu fannst Guðrún full svartsýn
Óundirbúnar fyrirspurnir á þingi hófust á umræðu um hækkun veiðigjalda.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að breytingarnar virtust hafa verið unnar í flýti og án samráðs við fólkið sem hefði viðurværi sitt af sjávarútvegi. Hún sagði að stíga þyrfti varlega til jarðar og sagði vekja undrun að ekkert mat hafði verið lagt fram um afleiðingar frumvarpsins sem gæti jafnvel leitt til minni atvinnu og lægri skatta.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði að ekki hefði ríkt sátt um stjórn fiskveiða og innheimtu veiðigjalda. Hún sagði að nú væri verið að leiðrétta veiðigjöld svo að staðið væri við lagaákvæði um að einn þriðji hagnaðar rynni til þjóðarinnar og tveir þriðju til útgerðanna. Hún sagði að það væri galið ef útgerðir myndu loka vinnslu og sagði áhrif breytinganna ráðast af viðbrögðum útgerðanna við eðlilegri leiðréttingu.
Guðrún sagði svar Hönnu Katrínar ekki draga úr áhyggjum sínum og sagði óljóst hvort hækkun veiðigjalda leiddi til tekjuauka ríkissjóðs eða yrði til að aðrar tekjur þess af sjávarútvegi minnkuðu á móti.
Hönnu Katrínu fannst Guðrún full svartsýn í spurningu sinni og framsögu.
Fundi lokið og þingið fram undan
Blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna þriggja er lokið. Þær fara nú á þingflokksfundi.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, fóru yfir áherslur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem var kynnt í morgun og ræddu ýmis stefnumál.
Þingfundur hefst á Alþingi klukkan þrjú með óundirbúnum fyrirspurnum og sérstakri umræðu um stöðu og framtíð þjóðkirkjunnar.
Ekkert um Grænland án Grænlands
Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn frá 1951 eru lykilstoðir í varnarmálum Íslendinga, sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Hún sagði ekkert hafa komið fram sem gefi til kynna að dregið hafi úr gildi varnarsamningsins.
Hún sagði lykilatriði að ekkert yrði ákveðið um Grænland án Grænlendinga og svaraði þar spurningu um hvaða áhrif ásælni Bandaríkjastjórnar í Grænland hefði á Ísland. Hún sagði íslensk stjórnvöld ætla að auka samtal sitt við Kanada og gera svipað og Norðmenn sem hafa fengið öryggis- og samstarfsyfirlýsingu frá Evrópusambandinu.
Hvorki lykilatriði að fækka störfum né verja
Formennirnir voru spurðir hvaða stofnanir ætti að sameina og hvernig ætti að ná 105 milljarða sparnaði á næstu árum.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði að það væri ekki lykilatriði að fækka störfum til að spara fé eða verja störf vegna þess að þeim mætti ekki fækka. Hún sagði lykilatriði að fara betur með fé og virkja betur þá sem starfa í kerfinu.
Styrkja varnir gegn njósnum
„Við erum einfaldlega að styrkja okkar innviði, við erum að styrkja okkar varnir í víðum skilningi,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og lýsti vonum um að betur tæki að verjast njósnum erlendra ríkja á Íslandi.
Spurði hvers vegna enginn fékkst í Spursmál
Það var algengt í tíð fyrri ríkisstjórnar að mál komu seint inn í þingið og voru afgreidd með afbrigðum sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra þegar blaðamaður Morgunblaðsins spurði um veiðigjöld og fyrirsjánleika í stjórnmálum vegna fjölda mála sem kæmu inn í þingið á skömmum tíma. Hún sagði að núverandi stjórn hefði haft skamman tíma frá kosningum í desember til að koma málum inn í þingið.
Hún sagði breytingar á veiðigjöldum risastórt jafnréttismál. Hún sagðist telja alla formennina þrjá hafa rætt um hækkun veiðigjalda fyrir kosningar. Svo hefði komið í ljós eftir útreikninga að kosningum loknum að forsendur væru til að hækka veiðigjöld í samræmi við markaðsverð. Að auki hefði verið lengi rætt um gjaldtöku í ferðamálum.
Andrés Magnússon, blaðamaður Morgunblaðsins, spurði formennina þrjá hvers vegna enginn stjórnarliði hefði viljað koma í viðtalsþáttinn Spursmál á Mbl.is á mánudag til að ræða veiðigjaldahækkun, sem hann sagði hafa fengið lítið samráð.
Kristrún sagði að málið færi inn í þingið og þar yrði boðið upp á samráð þar sem hægt væri að gera athugasemdir og bregðast við þeim. Kristrún sagði ekki þekkja til hvers vegna Morgunblaðsmenn hefðu ekki fengið viðmælendur í Spursmál.
Gáfu lítið fyrir tal um reynsluleysi
„Reynsluleysi er ekki að gera neitt sem hefur áhrif á okkar frábæra samstarf heldur þvert á móti er sú ágjöf sem þú nefnir sem tengist Flokki fólksins, hún hefur þjappað okkur bara enn betur saman,“ svaraði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spurningu fréttamanns Stöðvar 2 um hvort reynsluleysi flokksins hefði haft áhrif á stjórnina.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði að sú fjármálaáætlun sem var kynnt í dag hefði ekki orðið með sama hætti nema vegna þess að Flokkur fólksins er í stjórninni. Hún sagði að flokkarnir væru samhentir og sagðist þakklát fyrir að vera í stjórn með Flokki fólksins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagðist ekki vita hvort tal um reynsluleysi væri hroki eða annað. Bæði Flokkur fólksins og Viðreisn hefðu verið stofnaðir sama ár, 2016. Hún sagði að þær stórpólitísku áherslur sem kæmu fram í fjármálaáætlun hefðu ekki komist fram nema með þátttöku allra þriggja flokkanna í stjórn.
„Það er engin ávísun á gæði ríkisstjórna að hafa eldgömlu flokkana í ríkisstjórn,“ sagði Þorgerður Katrín.
Kristrún sagði að Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefði meðal annars sagt af sér til að skapa fjarlægð frá sínum málum og ríkisstjórnarinnar. Hún sagði það mál ekki hafa áhrif á störf ríkisstjórnarinnar þó það væri erfitt að sjá á eftir henni úr ríkisstjórn.
Borð fyrir báru
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði að fjármálaáætlunin væri raunhæf. Passa ætti upp á að ríkið eyddi ekki um efni fram heldur hefði borð fyrir báru. Hún sagði að hugsanlega yrði meira svigrúm í ríkisrekstri en það ætti eftir að koma í ljós.
Innviðafélag um vegaframkvæmdir
Hjúkrunarheimili, geðheilbrigðismál, málefni barna og Landspítalinn eru meðal verkefna sem stjórnin ræðst í í heilbrigðismálum, sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Hún sagði að stjórnvöldum hefði ekki auðnast að fjárfesta eins og þörf sé í vegamálum. Bætt yrði úr þessu með auknum fjárframlögum sem fáist með því að breyta viðmiðum við útreikning á veiðigjaldi. Þegar á þessu ári á að stofna innviðafélag með lífeyrissjóðum og stórum fjárfestum sem á að halda utan um stórar framkvæmdir, svo sem brúar- og gangnagerð.
Kristrún sagði að ríkisstjórnin tæki stórar en nauðsynlegar ákvarðanir í auðlindamálum.
Ekki áður verið í svo verksamri stjórn
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra rifjaði upp að hún hefði áður verið í ríkisstjórnum en sagðist aldrei hafa upplifað svo verksama ríkisstjórn.
Þorgerður Katrín fjallaði um varnarmálin og utanríkismálin. Hún sagði að framlög til varnarmála og viðbúnaðar yrðu aukin. Vernda eigi innviði og fjölga lögreglumönnum um 50. „Sú fjölgun mun halda áfram, bæði til að vernda innviðina og ekki síður til að styrkja löggæsluna.“
Styrkja á Landhelgisgæsluna, verkefni sem Þorgerður Katrín sagði að hefði of lengi verið sett til hliðar.
Hún nefndi einnig breytingar á löggjöf sem gerði KS kleift að kaupa kjötvinnslustöðvar og boðaði aðgerðir vegna Air BnB gistingar.
Enginn falli milli skips og bryggju
Strax á fyrstu 100 dögum stjórnarinnar hefur verið gripið til fjölda aðgerða sem hafa jákvæð áhrif á efnahag heimilanna, sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar hún fór yfir verkefni fyrstu 100 daganna. Hún tiltók sérstaklega kjarabætur lífeyrisþega og að vextir hefðu lækkað.
Frítekjumark lífeyristekna á eftir að skila ellilífeyrisþegum verulegum ávinningi auk annarra aðgerða. Inga sagði að nýtt örorkukerfi myndi tryggja að enginn yrði skilinn eftir. Hún sagði að tryggt yrði að enginn myndi falla milli skips og bryggju.
70 mál komin og fleiri stór mál á leiðinni
Eftir daginn í dag verða 70 mál komin inn í þingið og í vikunni bætast fleiri við, þar á meðal stór mál, sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í upphafi blaðamannafundar flokksformannanna þriggja.
Ekki á að fara í flatt aðhald heldur sér hvert og eitt ráðuneyti um að stýra aðhaldi í sínum málaflokkum.
Velkomin á fréttavakt á mánudegi
Það er ýmislegt að gerast í stjórnmálum í dag. Fjármálaráðherra kynnti í morgun fjármálaáætlun, formenn stjórnarflokkanna fara í dag yfir fyrstu hundrað dagana í ríkisstjórnarsamstarfinu og áherslur í fjármálaáætlun og seinna í dag er þingfundur.
Velkomin á fréttavakt um stjórnmálin í dag. Ég heiti Brynjólfur Þór Guðmundsson og flyt ykkur helstu fréttir dagsins.
Að neðan má sjá umfjöllun um nýju fjármálaáætlunina.