Bílarnir fjarlægðir á síðasta degi viðvörunar og færðir á nýjan stað
Bílar á vegum bílapartasalans Auto ehf. eru enn á víð og dreif um Akureyri og nágrenni, þrátt fyrir háar dagsektir og lof um betrun. Nær daglega berast ábendingar til Heilbrigðiseftirlitsins um bíla sem lagt hefur verið í óþökk lóðareiganda.
Bílar á vegum partasalans Auto ehf. hafa lengi verið til trafala á og við Akureyri. Í fyrra fékk fyrirtækið úthlutaða lóð við Krossanes tímabundið, gegn því að bílunum yrði safnað saman þar. Þrátt fyrir það eru enn að finnast bílar hér og þar í bæjarlandinu, lóðareigendum til lítillar skemmtunar.
Leifur Þorkelsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins á Norðurlandi eystra, segir að ábendingar berist nær daglega um bíla sem lagt hefur verið í óþökk lóðareiganda.
Leifur segir ákveðna rútínu hafa myndast í verklagi; eftirlitið lími miða á bílana og á síðasta degi viðvörunar séu þeir fjarlægðir. Þeir dúkki svo upp á næstu vikum einhvers staðar annars staðar í bænum og ferlið endurtaki sig.