Engin matvörubúð í miðbænum
Þrátt fyrir mikinn fjölda ferðamanna og stöðuga umferð um miðbæ Akureyrar hefur lítið farið fyrir matvörubúðum þar síðan 10-11 í göngugötunni lagði upp laupana fyrir rúmum áratug. Starfsmenn miðbæjarins fá nær daglega spurningar um hvar næstu matvöruverslun sé að finna.
Flestir sem fréttastofa ræddi við sögðust beina gestum bæjarins í átt að Glerártorgi eða Krónunni og töldu gönguna þangað taka um tíu mínútur. Það er nokkuð nærri lagi en samkvæmt Google er 17 mínútna ganga frá Hótel KEA að Krónunni við Tryggvabraut.
Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður menningar- og markaðsmála hjá Akureyrarbæ, segir ekki úr vegi að horfa á Akureyri sem svokallaða tuttugu mínútna borg, sem er hugtak sem þekkist erlendis. Samkvæmt því viðmiði er gangan í næstu kjörbúð vel innan marka.