29. mars 2025 kl. 0:11
Innlendar fréttir
Reykjavíkurborg
Þúsund lítrar af sýruhreinsi láku við Sundahöfn
Engin slys urðu né tjón þegar sýruhreinsiefni lak við Sundahöfn í Reykjavík fyrir hádegi í dag, að sögn Gunnars Agnars Vilhjálmssonar, aðstoðarvarðstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Hann sagði þúsund lítra hafa lekið úr tveimur ílátum sem voru í gámum við höfnina.
Ekkert lak þó í sjó og hreinsunarstarf gekk vel. Gunnar Agnar sagði að slökkviliðsmenn hefðu sett sand yfir efnið sem fór niður, sem var svo fært í viðeigandi eiturefnaförgun. Aðgerðum hefði lokið um klukkan sjö í kvöld. Heilbrigðiseftirlitið hefði verið upplýst um lekann.
Gunnar Agnar sagði að í svona verkum væri mikilvægt að flýta sér ekki heldur vanda til verka.