Horfur eru á snjókomu í nótt og framan af morgundeginum á Suðausturlandi.
„Talsvert mikið mun snjóa staðbundið á þjóðveginum sunnan Öræfajökuls og austur yfir Breiðamerkursand og í Suðursveit.“ segir í ábendingu frá Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi Vegagerðarinnar.
Sums staðar er búist við allt að 50-70 sentímetra snjódýpt. Á köflum verður þetta blautur snjór og hann því þungur og erfiður viðureignar.
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna austan hríðar í landshlutanum.
Von er á mikilli snjókomu í grennd við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi í nótt og á morgun.RÚV / Samúel Örn Erlingsson