Bíræfinn hrútur sá bændum fyrir snemmbúnum vorboða
Það er enn mánuður í að sauðburður hefjist á Mófellsstaðakoti í Skorradal. Þó eru tvö lömb þegar komin í heiminn og nokkur fleiri á leiðinni næstu daga.
Ævintýragjarn hrútur af næsta bæ sá sér leik á borði þegar bóndahjónin brugðu sér af bæ og komst í féð í október í fyrra. Afraksturinn er sá að fjórar ær á bænum bera snemma.
Sauðburður er vorverk og Jón Eiríkur Einarsson, bóndi á Mófellsstaðakoti, segir lömbin kærkomna vorboða. Hann á von á 400 lömbum í maí svo þá verður nóg að gera.