Viðvörunarbjöllur glumdu þegar seðlabankastjóri byrjaði að svara
Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig að fá svar frá Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra þegar Erna Björg Sverrisdóttir hjá Arion banka spurði hann hversu lengi íslenskt hagkerfi gæti þolað hátt raunvaxtastig í ljósi óvissu í alþjóðamálum.
Ásgeir hafði varla sleppt orðunum um að þessari spurningu væri tiltölulega auðvelt að svara þegar hann var truflaður. Brunavarnakerfið í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík fór í gang.
„Því miður muntu ekki fá svar við þessu,“ sagði Ásgeir þá og uppskar hlátur. Bjallan þagnaði en gall svo aftur þegar Ásgeir byrjaði að svara á ný. Þegar færi gafst sagði hann þó meðal annars að dregið hefði úr verðbólgu og áhersla væri lögð á að efla viðnámsþrótt þjóðarbúsins.
Fundarmenn létu sér ekki bregða og fengu þá skýringu skömmu síðar að þetta mætti rekja til bilunar.