Samantekt

Veiðigjöld gætu tvöfaldast með nýjum útreikningum á aflaverðmæti

Brynjólfur Þór Guðmundsson

,
25. mars 2025 kl. 15:16

Helstu atriði í lokin

Við ljúkum hér fréttavakt af kynningu tveggja ráðherra ríkisstjórnarinnar á breytingum við ákvörðun veiðigjalds en höldum áfram að segja frá þessu í stökum fréttum.

Með því helsta sem kom fram má nefna:

  • Veiðigjald verður reiknað út frá meðalverði á fiskmörkuðum. Þetta segja ráðherrarnir gert til að tryggja að miðað sé við raunverulegt aflaverðmæti.
  • Aflaverðmæti þorsks og ýsu miðast við innlenda fiskmarkaði. Þar sem síld, kolmunni og makríll fara ekki á innlenda fiskmarkaði er miðað við meðalverð í Noregi.
  • Hefðu þessar reglur gilt í fyrra hefðu veiðigjöld verið á bilinu átján til tuttugu milljarðar króna í stað tíu milljarða.
  • Afkoma útgerðanna er það góð að þær standa undir hærri veiðigjöldum sögðu ráðherrarnir.
  • Atvinnuvegaráðherra segir að tekjurnar verði meðal annars notaðar til að byggja upp vegi á landsbyggðinni.
  • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja þetta skaðlegri hugmyndir en áður hafi komið fram og segja að þær geti orðið til að störfum fækki og skatttekjur dragist saman.

Takk fyrir samfylgdina.

25. mars 2025 kl. 14:20

Mikið í húfi og mikilvægt að vanda til verka

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi fyrirhugaðar breytingar á veiðigjaldi við upphaf þingfundar. Hún sagði að það ætti að vera ríkisstjórninni kappsmál að styðja við samkeppnishæfi útflutningsgreina og styðja þannig við lífskjör.

„Stundum þýðir það einfaldlega að ríkið þurfi að gera minna. Ríkisstjórnin ætlar hins vegar að gera meira, að minnsta kosti hvað varðar ferðaþjónustuna og sjávarútveg.“

Hildur sagði að atvinnuvegur væri burðarás í atvinnulífi um land allt og að óvíða væri hann rekinn á jafn hagkvæman hátt og hér. Hún sagði mikið í húfi og mikilvægt að vanda til verka.

Hildur Sverrisdóttir
RÚV / Arnór Fannar Rúnarsson

25. mars 2025 kl. 14:19

Brugðist við ákalli þjóðarinnar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fagnaði því við upphaf þingfundar á Alþingi að tekjur af veiðigjöldum yrðu loks meiri en kostnaður ríkisins af þjónustu við sjávarútveg.

„Þar er verið að bregðast við ákalli þjóðarinnar um sanngjarnari skiptingu á arðseminni sem sprettur af nýtingu þjóðarauðlindar, ákalli sem enginn getur efast um að er raunveruleg enda hefur það komið fram í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri árum og áratugum saman.“

Sigmundur Ernir sagði að sérhagsmunaöflin myndu berjast af hörku gegn breytingum á veiðigjaldinu, bæði innan þingsalar og utan hans. Hann sagði sanngjarnt og eðlilegt að þeir sem fái að nýta sjávarauðlindina borgi sanngjarnt gjald fyrir slíkt.

Sigmundur Ernir Rúnarsson
RÚV / Ragnar Visage

25. mars 2025 kl. 13:35

Frumvarpið er komið í samráðsgáttina

Frumvarpið sem Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra kynntu á fundinum hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Frumvarpið má sjá hér.

Frumvarpið er kynnt með þessum orðum:

„Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingu á skráðu aflaverðmæti í tilteknum nytjastofnum við útreikning veiðigjalds, þannig að það endurspegli betur raunverulegt aflaverðmæti og þar með réttlát auðlindagjöld fyrir aðgang að auðlindinni. Samhliða því eru lagðar til breytingar á frítekjumarki vegna m.a. áhrifa á litlar- og meðalstórar útgerðir.“

Sama reikniregla verður notuð við útreikning á veiðigjaldi og áður. Það verður 33 prósent af reiknistofni hvers nytjastofns.

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
RÚV / Ragnar Visage

25. mars 2025 kl. 13:26 – uppfært

Helstu breytingarnar sem ráðherrarnir boðuðu

Blaðamannafundi fjármálaráðherra og atvinnuvegaráðherra er lokið. Fréttaflutningi okkar er þó hvergi nærri lokið.

Meðal þess sem kom fram:

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði þetta mikilvæga leiðréttingu á veiðigjaldi sem ætti að skila réttlátara og eðlilegra gjald til þjóðarinnar fyrir nýtingu á sameiginlegri auðlind.

Reikna á aflaverðmæti með öðrum hætti en áður, sem ráðherrarnir segja að endurspegli raunverulegt verðmæti aflans betur en verið hefur.

Atvinnuvegaráðherra sagði skoðun stjórnvalda staðfesta að verð fyrir sjávarafla væri lægra í viðskiptum milli útgerða og vinnslu í sömu aðila en það væri á fiskmörkuðum.

Miða á aflaverðmæti þorsks og ýsu við fiskmarkaðsverð en aflaverðmæti uppsjávarafla við fiskmarkaði í Noregi.

Breytt verðmat kemur að mestu niður á stærstu útgerðunum en frítekjumark verður hækkað til að hlífa litlum og meðalstórum útgerðum.

Veiðigjöld voru tíu milljarðar á síðasta ári en hefðu verið átján til tuttugu milljarðar miðað við nýjan útreikning á aflaverðmæti.

Nota á auknar tekjur meðal annars til uppbyggingar á landsbyggðinni.

25. mars 2025 kl. 13:17 – uppfært

Norðmenn skilja á milli veiða og vinnslu

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra sagði að búið væri að skoða virði landaðs afla og útflutningsafla. Hann sagði ekkert hafa komið fram sem sýndi fram á að vinnsla í Noregi væri öðruvísi.

Hann sagði að veiðar og vinnsla hefðu verið aðskildar frá 1956. Þetta gæti leitt til meiri kostnaðar í Noregi en hér.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði stjórnkerfið að miklu leyti hafa lagað sig að því að auka samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs.

25. mars 2025 kl. 13:14 – uppfært

Segja útgerðina standa undir hærri veiðigjöldum

Bæði atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra sögðu að sjávarútvegurinn væri vel rekinn og afkoma hans sýndi að útgerðin gæti staðið undir hærra veiðigjaldi.

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra sagði að verðlagsnefnd hefði orðið til í kjarasamningum útgerða og sjómanna. Það hefði verið hugsað til að reikna út laun en ekki veiðigjald.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði að stóra málið væri að nú ætti að leiðrétta veiðigjöldin til framtíðar.

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra ásamt Daða Má Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.
RÚV / Ragnar Visage

25. mars 2025 kl. 13:12 – uppfært

Mikið réttlætismál

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði að breytingin væri mikið réttlætismál.

„Það er réttlætismál að þjóðin fái þann hlut í arði af auðlindinni sem henni var ætlað þegar lögin voru sett á sínum tíma. Það er ljóst að útreikningur á aflaverðmæti undanfarin ár hefur verið umtalsvert lægri en markaðsverð á sambærilegum tegundum á þessum tíma. Þetta verður leiðrétt.“

Hanna Katrín sagði ríkisstjórnina algjörlega samstíga í vinnu sinni í þágu almannahagsmuna og væri þetta frumvarp til vitnis um það.

25. mars 2025 kl. 13:09 – uppfært

„Rétt skal vera rétt“

Áherslan er að veiðigjaldið endurspegli raunverulegt aflaverðmæti, sagði Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra. Aflaverðmæti hafi verið vanmetið í veiðigjaldinu.

Hann sagði að í ljós hefði komið að verð í beinni sölu væri 22 prósentum lægra en verð á afla sem fór í gegnum fiskmarkaði.

Greining á uppsjávarfiski leiddi í ljós að verð á afla sem fer gegnum fiskmarkaði í Noregi er í öllum tilfellum hærra en verð í beinum viðskiptum hér á Íslandi.

Hann sagði að brugðist væri við þessu til að fá fram raunverulegt verðmæti.

„Markmiðið er: Rétt skal vera rétt.“

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
RÚV / Ragnar Visage

25. mars 2025 kl. 13:06 – uppfært

Veiðigjöld hefðu verið tíu milljörðum hærri en þau voru

Hanna Katrín Friðriksson segir að breytingarnar sem ríkisstjórnin stefnir á snúist eingöngu um mat á aflaverðmæti, reiknireglan verði áfram sú sama.

„Af hagnaði útgerða af veiðum fær þjóðin einn þriðja, útgerðin tvo þriðju.“

Hún sagði að lengi hefði verið rætt um að aflaverðmæti hefði verið vanmetið, meðal annars vegna innri verðlagningar fyrirtækja. Þetta sagði hún vinnu stjórnvalda hafa sýnt.

„Miðað við raunverulegt aflaverð hefðu veiðigjöld verið sex milljörðum hærri fyrir þorsk og ýsu og fjórum milljörðum hærri fyrir uppsjávartegundir, sagði Hanna Katrín.“

25. mars 2025 kl. 13:02 – uppfært

Hanna Katrín: SFS gat ekki hamið sig

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hóf kynninguna á að segja að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hefðu ekki alveg getað hamið sig og þegar kynnt viðbrögð sín. Hún sagði að það væri í góðu lagi.

„Þetta er alþekkt aðferð til að reyna að stýra umræðunni.“

Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra.
RÚV / Ragnar Visage

25. mars 2025 kl. 12:51 – uppfært

Sjávarútvegsfyrirtæki ósátt

Fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa fengið kynningu á áformum stjórnvalda og er óhætt að segja að þeim sé ekki skemmt. Þau segja þetta skaðlegri hugmyndir en áður hafi komið fram.

Samtökin segja að breytingarnar feli í sér að auðlindagjald í sjávarútvegi tvöfaldist og að horfið sé frá því fyrirkomulagi að veiðigjaldið miðist við afkomu útgerðanna.

„Verði þessi breyting að veruleika, þá verða áhrifin dapurleg,“ segir SFS í fréttatilkynningu. Samtökin segja að sjávarútvegsfyrirtæki verði að aðlaga sig að þessu og fylgja fyrirmynd Norðmanna. Það segja þau að myndi þýða meiri útflutning á óunnum fiski, fækkun starfa og minni skatttekjur hins opinbera.

„Niðurstaða þessarar tilraunar ríkisstjórnarinnar er því augljós. Samfélagið allt verður af tekjum og sjávarútvegur verður ekki sú lífæð landsbyggðar sem við þekkjum.“

Svipmyndir frá Grindavíkurhöfn
RÚV / Ragnar Visage

25. mars 2025 kl. 12:49 – uppfært

Kynna breytingar á veiðigjöldum

Góðan dag og velkomin á fréttavakt um breytingar á veiðigjöldum í sjávarútvegi. Þær verða kynntar á blaðamannafundi og verða í beinni útsendingu efst í þessari færslu. Ég heiti Brynjólfur Þór Guðmundsson og tek saman það helsta sem kemur fram.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kynna áform stjórnvalda um að breyta innheimtu veiðigjalda. Kveðið var á um slíkt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin stefnir á að frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingarnar verði lagt fram á þessu þingi. Verði það að lögum má gera ráð fyrir að veiðigjöld hækki um nokkra milljarða, miðað við fyrri yfirlýsingar stjórnarliða.