Þjóðaratkvæði um ESB tilefni til erlendrar íhlutunar

Efla þarf upplýsingalæsi almennings og stjórnvöld þurfa að geta greint og brugðist við skipulögðum herferðum annarra ríkja til að grafa undan lýðræðislegu ferli hér á landi, segja sérfræðingar.

Þórunn Elísabet Bogadóttir

,

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandsmál gefur erlendum ríkjum tilefni til að hlutast til um það sem hér gerist og þá ætti að vera búið að huga að vörnum. Það getur verið spurning um þjóðaröryggi, segir Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur.

Erlingur og Hulda Þórisdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ, voru gestir Morgunvaktarinnar á Rás 1. Hulda segir ýmsar aðferðir notaðar til þess að skapa upplýsingaóreiðu og grundvöll fyrir vantrausti í garð stjórnvalda. Ísland standi veikt gagnvart þessu að mörgu leyti.

Erlingur kallar eftir þverpólitískri sátt. „Að upplýsingar sem sé verið að dreifa séu ekki samsæriskenningar, byggi á einhvers konar rannsóknum og staðreyndum og eðlilegri tölfræði.“ Stjórnvöld þurfi að geta greint og brugðist við, og nýtt reynslu Norðurlandanna og NATO.