Fimm tvíburar í einni götu á Blönduósi
Það er nánast sama hvar er bankað á dyr í Hlíðarbraut á Blönduósi, það kemur líklega tvíburi til dyra. Á einhvern ótrúlegan hátt hefur það gerst að fimm tvíburar búa í götunni, í sex húsum.
Elstir eru bræðurnir Jakob Þór og Ellert Karl Guðmundssynir sem voru fyrstu tvíburarnir í götunni. „Svo hefur þetta bara þróast svona, þótt þetta sé svolítið einkennilegt, að hér hafa verið tvíburar á eftir tvíburum,“ segir Ellert. Hinir tvíburarnir í götunni eru á aldrinum tveggja til tólf ára.
Það er ekki gott að segja hvað varð til þess að svona margir tvíburar búa í einu og sömu götunni. „Ég held að það sé bara bæði í vatninu og loftinu hérna á Hlíðarbrautinni, þá bara fara hlutirnir að ske,“ segir Jenný Lind Gunnarsdóttir tvíburamamma.