Ekki á leið í sveitarstjórnarmálin
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins segist finna sig vel í nýju hlutverki á Alþingi í stjórnarandstöðu. Hún mætti í Síðdegisútvarpið á Rás 2 og var meðal annars spurð hvort hún væri að færa sig yfir í sveitarstjórnarmálin.
„Ekki persónulega, nei. Ég er oddviti í Reykjavík og mun tala skýrt um mál míns kjördæmis. Mínir kjósendur eru að flýja af vettvangi og færa sig yfir í önnur kjördæmi vegna stöðunnar í borginni og mér finnst það óásættanlegt.“
Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þrátt fyrir að hún láti sér leikskólamálin í borginni varða. Í vikunni leggur hún fram frumvarp um að sveitarfélög verði skylduð til að semja við einkarekna skóla og gera ekki greinarmun á því hverjir eru rekstaraðilar þeirra.
„Hér er að mörgu leyti frábært að búa en ég myndi óska þess að henni [Reykjavíkurborg] væri stjórnað betur og þar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að gera vel í næstu kosningum.“
Áslaug ræddi einnig umhverfi leigubílareksturs á landinu sem og brotthvarf fyrrverandi barnamálaráðherra.