Bæta málmleitartæki við lögregluvestið vegna aukins vopnaburðar

Handhægu málmleitartæki hefur verið bætt við búnað lögreglumanna til þess að mæta auknum vopnaburði í samfélaginu. Aukin harka hefur færst í fíkniefnaheiminn á Norðurlandi að sögn yfirlögregluþjóns embættisins á Norðurlandi eystra.

Selma Margrét Sverrisdóttir

,

Aukin harka hefur færst í fíkniefnaheiminn á Norðurlandi eystra að undanförnu. Bergur Jónsson, yfirlögregluþjónn hjá embættinu, segir útköll síðustu vikna bera merki um aukið ofbeldi og vopnaburð. Í tilkynningu frá embættinu í morgun ítrekaði lögregla bann við vopnaburði og viðurlög við slíku.

Einn liður lögreglunnar í að mæta auknum vopnaburði í samfélaginu er að bæta handhægu málmleitartæki við búnað lögreglumanna. Tækið er lítið og má nota til þess að kanna hvort vopn séu innan klæða.

Bergur segir búnaðinn þó ekki segja alla söguna og tekur dæmi frá síðustu helgi þar sem lögregla var við handtöku. Þar hafi lögreglumaður verið með mann í taki sem svo sneri sér skyndilega við vopnaður hnífi í hinni hendinni. Við slíka nálægð segir Bergur varnarbúnaðinn hafa afar lítið að segja.

Fleiri innlendar fréttir

Annað efni frá RÚV