Samantekt

Uppljóstrara ofbauð að Ásthildur Lóa væri barnamálaráðherra

Fréttastofa RÚV

,
21. mars 2025 kl. 21:27

Við ljúkum þessari fréttavakt

Við sláum nú botninn í þessa fréttavakt um viðbrögð við máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur, sem sagði af sér sem barna- og menntamálaráðherra eftir að upp komst að hún átti í ástarsambandi og eignaðist barn með unglingi þegar hún var 22 ára gömul. Ásthildur er einnig sökuð um að hafa tálmað umgengni föðurins við barnið.

Dagurinn hófst á því að formenn stjórnarandstöðuflokka voru gagnrýnir á afgreiðslu forsætisráðuneytisins á erindi Ólafar Björnsdóttur sem vakti athygli á því að Ásthildur Lóa hafi á árum áður átt í sambandi við unglingspilt, Eirík Ásmundsson, og átt með honum barn. Ólöf telur ráðuneytið hafa rofið trúnað með því að gera aðstoðarmanni ráðherra grein fyrir erindinu.

Ásthildur gaf út tilkynningu þar sem hún sagði að Eiríkur hefði verið ágengur við hana og hún hafi upplifað hann sem eltihrelli. Þau hafi haft samræði eftir að hann hafi náð 16 ára aldri – þá var hann lögráða samkvæmt þágildandi lögum – og hún fljótt orðið ólétt.

Erlendir miðlar hafa margir tekið málið upp, þar á meðal norrænar fréttastofur og breska ríkisútvarpið BBC.

Eftir ríkisstjórnarfund í morgun héldu formenn stjórnarflokkanna blaðamannafund þar sem farið var yfir málið. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra þvertók fyrir að trúnaður hafi verið rofinn, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hrósaði Ásthildi fyrir „hetjulega ákvörðun“ þar sem hún hafi axlað ábyrgð. Hún hefði hins vegar gjarna viljað hafa vitað af málinu fyrr.

Eiríkur sagði svo sjálfur við fréttastofu að hann hafi sannarlega ekki haft frumkvæði að því að opna á málið, en að hann fagnaði umræðunni engu að síður.

Ólöf kom svo í viðtal við fréttastofu og sagði að hún hafi ekki getað látið kyrrt liggja. Henni hafi ofboðið að Ásthildur væri í sæti barnamálaráðherra.

Forsvarsmenn stjórnarandstöðuflokkanna segja mörgum spurningum ósvarað og viðbúið er að málið dragi dilk á eftir sér fyrir ríkisstjórnina. Við munum að sjálfsögðu fylgja málinu eftir.

Við þökkum samfylgdina í dag.

21. mars 2025 kl. 20:56

Norrænu ríkismiðlarnir: Átti barn með unglingi

Norrænu ríkisfjölmiðlarnir hafa fjallað um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi barna- og menntamálaráðherra, í dag.

Dönsku, sænsku og finnsku ríkismiðlarnir segja frá því að ráðherra hafi sagt af sér eftir að upp komst að hún eignaðist son með unglingi fyrir rúmlega þremur áratugum. Norski ríkisfjölmiðillinn slær því upp að hún hafi upplifað að barnsfaðirinn hafi verið eltihrellir.

Ásthildur Lóa DR frétt
Skjáskot / DR

Ásthildur Lóa SVT frétt
Skjáskot / SVT

Ásthildur Lóa nrk frétt
Skjáskot / nrk

Ásthildur Lóa yle frétt
Skjáskot / yle

21. mars 2025 kl. 20:44

Hver skandallinn reki annan og Kristrún þurfi að svara fyrir málið

Þingflokksformenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins segja máli fráfarandi barna- og menntamálaráðherra, Ásthildar Lóu Þórsdóttur, ekki lokið og að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra þurfi að skýra mál sitt og aðkomu forsætisráðuneytisins betur.

Hildur Sverrisdóttir og Ingibjörg Isaksen
Hildur Sverrisdóttir og Ingibjörg Isaksen.RÚV / Samsett mynd

Hildur Sverrisdóttir og Ingibjörg Isaksen voru gestir Freys Gígju Gunnarssonar í Speglinum í dag.

Þar sagði Hildur að hver skandallinn ræki annan hjá ríkisstjórninni. Vissulega væru þeir allir í boði Flokks fólksins en það væru formenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar sem hefðu leitt flokkinn til valda.

Ingibjörg sagði viðbúið að málið yrði alltumlykjandi í störfum þingsins í næstu viku.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

21. mars 2025 kl. 19:38

Aldrei þótt eðlilegt að fullorðinn einstaklingur eignaðist barn með unglingi

Það hefur aldrei þótt eðlilegt að fullorðinn einstaklingur eignaðist barn með unglingi og mörgum spurningum er ósvarað. Þetta er meðal þess sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna segja um mál mennta- og barnamálaráðherra.

Hægt er að lesa nánar um viðbrögð þeirra Guðrúnar Hafsteinsdóttir, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar í fréttinni hér að neðan.

21. mars 2025 kl. 19:34 – uppfært

Forsætisráðuneytið fékk upplýsingar um málið fyrir viku síðan

Ásthildur Lóa Þórsdóttir tímalína.
Grafík

Forsætisráðherra fékk fyrir viku síðan upplýsingar um að fráfarandi barnamálaráðherra hefði fyrir rúmum þremur áratugum eignast barn með sextán ára unglingspilt. Upplýsingarnar bárust frá konu sem misbauð það að Ásthildur Lóa Þórsdóttir væri í embætti barnamálaráðherra.  Ráðherrann hafði samband við konuna, eftir að forsætisráðuneytið hafnaði beiðni hennar um fund.

Fjallað er nánar um tímalínu málsins í fréttinni hér að neðan.

21. mars 2025 kl. 19:20

„Ráðuneytið brást“

Ólöf Björnsdóttir, konan sem sendi forsætisráðuneytinu erindi um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur segir ráðuneytið hafa brugðist algjörlega, öllum aðilum máls. Þá sé það ekkert annað en trúnaðarbrot að hafa upplýst Ásthildi Lóu um hver það var sem sendi erindið.

21. mars 2025 kl. 17:47

„Þú skreiðst upp í til fimmtán ára stráks“

Ólöf Björnsdóttir, sem óskaði eftir fundi með forsætisráðherra um mennta- og barnamálaráðherra, segir að hún hafi viljað að Ásthildur Lóa Þórsdóttir viki úr embætti vegna þess að hún hafi sofið hjá fimmtán ára stráki þegar hún var sjálf orðin fullorðin.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Sunnu Karenar Sigurþórsdóttur fréttamanns við Ólöfu. Þar lýsir hún því hvers vegna og hvernig hún setti sig í samband við forsætisráðuneytið.

„Eins og ég sagði við hana þegar hún hringdi í mig: ég sagði, ástæðan fyrir því að ég vil að þú víkir sem barnamálaráðherra, þú skreiðst upp í til fimmtán ára stráks og það er nóg fyrir mig.“

Ólöf sagðist ekki hafa tilkynnt málið til að það færi „út um borg og bý“.

Henni hafi bara ofboðið.

21. mars 2025 kl. 16:33

Vesenistemjari mælir með varaþingmanni

Óljóst er hver tekur við embætti mennta- og barnamálaráðherra af Ásthildi Lóu Þórsdóttur. Fyrrverandi oddviti Pírata á Akureyri leggur til að varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík suður taki við embættinu.

Hrafndís Bára Einarsdóttir skrifaði grein á Vísi í dag, þar sem hún titlar sig vesenistemjara. Hún var einnig oddviti Pírata í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri 2022 en náði ekki kjöri.

Hrafndís segir að ný ríkisstjórn röggsamra kvenna fari örlítið höktandi af stað og ekki alveg án ágalla.

Hrafndís Bára Einarsdóttir.Aðsend mynd

„Það vitum við líka öll sem ekki stingum höfði í stein að þegar kemur að konum í stjórnmálum þá má hvergi falla á því afleiðingarnar eru oftast yfirgripsmeiri en þegar kemur að teflonstrákunum okkar. Sem betur fer, og vonandi til eftirbreytni, virðast þær kunna að bera ábyrgð og taka afleiðingunum. Ég fagna afsögn mennta- og barnamálaráðherra, enda hárrétt ákvörðun að stíga til hliðar.“

Hún segir að innan þeirra flokka sem standa að stjórninni sé einstaklingur sem hafi gert það að ævistarfi sínu að hjálpa ungu fólki. Sú er Sigurþóra Bergsdóttir, fyrsti varaþingmaður Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

„Ég hvet ríkisstjórnina til að setja stólaskipti milli samstarfsflokka til hliðar, taka upplýsta og faglega ákvörðun, huga að heildarmyndinni og trausti almennings og setja í embætti mennta- og barnamálaráðherra, Sigurþóru Bergsdóttur.“

21. mars 2025 kl. 15:55

Innan við þrjá mánuði í embætti

Ásthildur Lóa Þórsdóttir hverfur af stóli mennta- og barnamálaráðherra eftir tæpa þrjá mánuði í embætti. Svo stuttur ráðherraferill heyrir til undantekninga í íslenskri stjórnmálasögu.

Tveir gegndu ráðherraembætti skemur en báðir við mjög sérstakar aðstæður og báðir áttu eftir að verða ráðherra aftur. Nokkrir voru ráðherrar í aðeins fáeina mánuði.

21. mars 2025 kl. 12:57 – uppfært

Barnsfaðir Ásthildar ekki mótfallinn umræðunni

Eiríkur Ásmundsson, barnsfaðir Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi barna- og menntamálaráðherra, áréttar að hann sé ekki mótfallinn umræðu sem hefur farið af stað um stöðu hennar sem ráðherra.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra
Ásthildur Lóa Þórsdóttir sagði af sér vegna málsins í gær.RÚV / Ragnar Visage

Vísir greindi frá því í dag að málið væri komið upp í óþökk Eiríks.

„Þessi ummæli gefa ekki rétta mynd af því hvað mér finnst um að málið sé komið í opinberar umræður. Það sem ég var að útskýra snerist um þá staðreynd að ég var ekki með í ráðum þegar erindið var sent til forsætisráðherra og það var ekki með minni vitund,“ segir Eiríkur í samtali við fréttastofu.

„Ég er hins vegar þakklátur fyrir það að fyrrverandi tengdamóðir mín hafi gert það og er alls ekki mótfallinn því að málið sé nú komið í opinbera umræðu. Ég sóttist auðvitað ekki eftir og sækist ekki eftir því að vera hluti af opinberri umræðu en það er líklegast bara óhjákvæmilegt.“

Eiríkur greindi fréttastofu frá því í gær að hann hefði aldrei litið á sig sem fórnarlamb í þessum aðstæðum, en að hann hafi verið á erfiðum stað í lífinu þegar hann leitaði í trúarsöfnuðinn Trú og Líf þar sem hann kynntist Ásthildi.

21. mars 2025 kl. 12:43 – uppfært

Fundi með formönnum flokkanna er lokið

Fundi forystumanna ríkisstjórnarflokkanna með fjölmiðlum er lokið. Síðasta spurningin sneri að því hvað hefði gerst ef Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefði ekki sagt af sér, hvort henni væri þá sætt í ríkisstjórn.

„Við ræddum í sameiningu um þá valkosti sem uppi voru og við heyrðum hennar frásögn af málinu og heyrðum af þessu máli ítarlega í fyrsta skipti á þeim fundi,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. Hún vísaði þar til fundar formannanna þriggja; hennar, Ingu Sæland og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur; með Ásthildi Lóu í gær. Á þeim fundi hefði það verið niðurstaða Ásthildar Lóu að segja af sér.

21. mars 2025 kl. 12:40

Inga dæmir ekki um tálmanir

Inga Sæland, félagsmálaráðherra og formaður Flokks fólksins, sagðist ekki ætla að setjast í dómarasæti þegar hún var spurð út í hvernig lýsingar á samskiptum Ásthildar Lóu og barnsföður hennar samrýmdu andstöðu Flokks fólksins við tálmanir á umgengni foreldra við börn sín.

Hún sagði frásögnina hafa verið einróma. Frásögnin sem barst forsætisráðuneytinu gekk meðal annars út á að Ásthildur Lóa hefði tálmað umgengni barnsföður síns við barnið. Hún hefur sagt að hann hafi sýnt umgengni lítinn áhuga, með fáum undantekningum og hún ekki treyst honum.

21. mars 2025 kl. 12:37

Finna þurfti út hvernig ætti að bregðast við

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra ítrekar að ráðherra hafi axlað ábyrgð með afsögn sinni.

Hún segir að finna hafi þurft út úr því hvernig ætti að bregðast við. Örfáir dagar hafi liðið frá fyrstu upplýsingum þar til staðfesting fékkst og ráðherra sagði af sér.

21. mars 2025 kl. 12:35

Fullkomlega eðlilegt að athuga málið

Þessi afsögn hefur ekkert með þessa ríkisstjórn að gera heldur persónuleg málefni eins ráðherra fyrir 35 árum, sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

„Auðvitað er þetta vont mál en tengist ekkert störfum okkar,“ sagði hún og kvað fólk geta treyst ríkisstjórninni. Hún nefndi í því samhengi að Ásthildur Lóa hefði sagt af sér nokkrum klukkustundum eftir að hafa rætt við formenn ríkisstjórnarflokkanna.

Kristrún sagði að passað væri upp á ríkisstjórnina með því að láta ekki persónuleg mál einstakra ráðherra standa henni fyrir þrifum.

Hún sagði að í gær hefðu borist upplýsingar sem staðfestu sannleiksgildi upplýsinganna sem bárust forsætisráðuneytinu fyrir rúmri viku. Fram að því hefði ekki verið búið að sannreyna frásögnina.

„Forsætisráðuneytið var ekki búið að kryfja þetta mál, stjórnsýslan var ekki búin að kryfja þetta mál á þessum nokkrum dögum frá því það kom fram,“ sagði Kristrún. Hún sagði að málið hefði ennþá verið opið.

Hún sagði málið vera viðkvæmt og fullkomlega eðlilegt að athuga það áður en brugðist væri við því. Hún sagðist hafa séð frásögnina fyrir viku síðan, málið hefði verið opið í málaskrá en staðfesting ekki fengist fyrr en í gær. Þá um leið hefði barnamálaráðherra sagt af sér. Hún sagði að málið hefði enn verið til skoðunar.

21. mars 2025 kl. 12:29

Spurt út í samskipti um fundarbeiðni

Kristrún var spurð út í samskipti forsætisráðuneytis og barna- og menntamálaráðuneytis um að óskað hefði verið eftir fundi með forsætisráðherra um málefni barna- og menntamálaráðherra.

Í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins í gær sagði að aðstoðarmenn ráðherranna tveggja hefðu rætt saman en Ásthildur Lóa sagði aðstoðarmann forsætisráðherra hafa sagt sýnt sér skilaboð.

Kristrún sagði lykilatriði í því að á þeim tíma hefði eingöngu verið búið að biðja um fund með forsætisráðherra sem barna- og menntamálaráðherra mætti vera viðstaddur. Því hefði verið leitað upplýsinga.

21. mars 2025 kl. 12:25 – uppfært

Tekur ekki afstöðu til orða um eltihrellingu

Það er ekki mitt að svara fyrir það hvernig hún ræðir sín persónulegu mál, sagði forsætisráðherra um orð Ásthildar Lóu í yfirlýsingu í morgun þar sem hún líkti framgöngu barnsföður síns við eltihrelli.

Kristrún sagðist ekki í stöðu til að meta hvað hefði gerst fyrir 35 árum en kvað afsögn Ásthildar Lóu segja allt sem segja þurfi um þá stöðu sem er komin upp.

Kristrún sagðist þegar hafa lýst því yfir að þetta væri alvarlegt mál og að Ásthildur Lóa hefði sagt af sér eftir að hafa rætt við formenn stjórnmálaflokkanna.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar svara spurningum fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund 21. mars 2025. Ásthildur Lóa Þórsdóttir ætlar að segja af sér embætti mennta- og barnamálaráðherra eftir að fjölmiðlar hófu umfjöllun um samneyti hennar við barn fyrir 30 árum. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Inga Sæland félagsmálaráðherra svara spurningum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og Inga Sæland, Félags- og húsnæðismálaráðherra.RÚV / Ragnar Visage

21. mars 2025 kl. 12:22

Inga harmi slegin og vill að Ásthildur verði áfram á þingi

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagðist varla vera búin að átta sig á málinu.

„Ég er í rauninni harmi slegin,“ sagði Inga og kvað þetta mannlegan harmleik. Hún sagði að fólk hefði séð í gær hvernig hún hefði brotnað undan álaginu og verið mulin mélinu smærra.

Ásthildur Lóa fékk tvímælalaust traust í síðustu kosningum sagði Inga. Hún sagði hana hafa sýnt hetjuskap og stigið fram sem leiðtogi.

Inga sagði að það væri Ásthildar Lóu að taka ákvörðun um framtíð sína á þingi en vonaðist til að hún sæti þar áfram.

21. mars 2025 kl. 12:20

„Skandal w Islandii“

Erlendir miðlar halda áfram að greina frá afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi barna- og menntamálaráðherra.

Erlendir miðlar greina frá málinu.
RÚV

Miðlar víða hafa greint frá „hneyksli á Íslandi.“

Erlendir miðlar um Ásthildi Lóu.
Skandal w Islandii.RÚV

„Skekur Ísland“ skrifar Aftonbladet.

Island ryster.
„Ryster Island“ skrifar Aftonbladet.RÚV

21. mars 2025 kl. 12:19 – uppfært

Samskipti ráðherra Flokks fólksins við almenning

Kristrún Frostadóttir segir að eðli málsins samkvæmt sé svona mál ekki afgreitt á nokkrum dögum.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir hringdi í konuna sem óskaði eftir fundi með forsætisráðherra og fór heim til hennar. Á blaðamannafundinum var vísað til þess að Inga Sæland félagsmálaráðherra hringdi í skólastjóra vegna máls barnabarns hennar. Aðspurð hvort slík samskipti ráðherra við almenning væru eðlilegar ítrekaði Kristrún að henni þætti ekki eðlilegt að Ásthildur hefði farið heim til konunnar.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar svara spurningum fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund 21. mars 2025. Ásthildur Lóa Þórsdóttir ætlar að segja af sér embætti mennta- og barnamálaráðherra eftir að fjölmiðlar hófu umfjöllun um samneyti hennar við barn fyrir 30 árum. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Inga Sæland félagsmálaráðherra svara spurningum.
Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dagRÚV / Ragnar Visage

21. mars 2025 kl. 12:17

Eðlilegt að málið færi í farveg

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að hún hafi fyrst rætt við Ásthildi Lóu Þórsdóttur barna- og menntamálaráðherra í gær. Fram að því hafi hún ekki rætt við neinn í ríkisstjórn um málið eftir að ráðuneytið var upplýst um efnisatriði.

Okkur þótti eðlilegt að málið myndi fara í einhvern farveg áður en einkafundur væri með forsætisráðherra, segir Kristrún um hvernig ráðuneytið tók á upplýsingum um barneign ráðherra með pilti á barnsaldri. Hún segir að málið hafi verið opið í ráðuneytinu þá viku sem liðið hafi frá því málið kom inn í ráðuneytið. Nú þegar sé ráðherra búin að segja af sér og hafi þar með sætt pólitískri ábyrgð.

21. mars 2025 kl. 12:14 – uppfært

„Ekki eðlileg viðbrögð“ að Ásthildur hafði samband við konuna

Kristrún segir að það hafi ekkert verið óeðlilegt við það að aðstoðarmaður hennar hefði samband við aðstoðarmann barna- og menntamálaráðherra og reynt að afla sér upplýsinga um hugsanlegt erindi.

Hún segir að upplýsingar um efnisatriði hafi ekki komið fram fyrr en eftir því var gengið - áður hafi bara verið óskað eftir fundi.

Ég vissi ekki að hún hefði haft samband við þennan einstakling, sagði Kristrún um það að Ásthildur Lóa setti sig í samband við konuna sem óskaði eftir viðtal við ráðherra. Hún sagði að það hefði komið sér verulega á óvart þegar hún frétti af því.

„Mér þykja þetta auðvitað ekki eðlileg viðbrögð.“

Forystumenn ríkisstjórnarinnar svara spurningum fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund 21. mars 2025. Ásthildur Lóa Þórsdóttir ætlar að segja af sér embætti mennta- og barnamálaráðherra eftir að fjölmiðlar hófu umfjöllun um samneyti hennar við barn fyrir 30 árum. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Inga Sæland félagsmálaráðherra svara spurningum.
Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og Inga Sæland, Félags- og húsnæðismálaráðherraRÚV / Ragnar Visage

21. mars 2025 kl. 12:11

Málið ennþá opið í málaskrá

„Málið er ennþá opið í málaskrá, það þótti ekki við hæfi að veita einkafund með ráðherra á þessum tímapunkti,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

Hún sagðist ekki hafa rætt málið við neinn í ríkisstjórn þar sem trúnaður hefði ríkt um innihald bréfsins.

Vika er langur tími í pólitík en stuttur tími í stjórnsýslunni, sagði Kristrún. Hún sagði að nokkrir dagar hefðu liðið þar til sannleiksgildið hefði legið fyrir. Hún sagði þann tíma sem leið ekkert hafa með afstöðu ráðuneytisins til slíkra beiðna að gera.

Hún sagði að ráðuneytinu bæti skylda til að afla upplýsinga um sannleiksgildi málsins.

21. mars 2025 kl. 12:06

„Hetjuleg ákvörðun“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að ræða hafi þurft afsögn mennta- og barnamálaráðherra með formlegum hætti í ríkisstjórn.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að hún hafi frétt af máli Ásthildar Lóu klukkan tvö í gær. Hún hafi axlað ábyrgð á sínu máli svo að hennar persónulegu mál myndu ekki skyggja á ríkisstjórnina. Inga sagði þetta vera hetjulega ákvörðun hjá Ásthildi Lóu.

21. mars 2025 kl. 12:03 – uppfært

Forystumenn ríkisstjórnarinnar í viðtöl

Ríkisstjórnarfundi er lokið og eru leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna við það að koma í viðtöl.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar svara spurningum fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund 21. mars 2025. Ásthildur Lóa Þórsdóttir ætlar að segja af sér embætti mennta- og barnamálaráðherra eftir að fjölmiðlar hófu umfjöllun um samneyti hennar við barn fyrir 30 árum. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Inga Sæland félagsmálaráðherra svara spurningum.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar svara spurningum fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund 21. mars 2025.RÚV / Ragnar Visage

21. mars 2025 kl. 11:32 – uppfært

Barnsfaðir Ásthildar Lóu segir málið tekið upp í sína óþökk

Árétting: Fréttastofa náði tali af Eiríki eftir birtingu þessarar færslu en hann segist í raun fagna því að fyrrum tengdamóðir sín hafi stigið fram með málið.


Eiríkur Ásmundsson framkvæmdastjóri og barnsfaðir Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi barna- og menntamálaráðherra, segir málið ekki frá sér komið.

„Þetta er farið af stað algjörlega í mína óþökk,“ segir Eiríkur í samtali við Vísi.

Eiríkur kveðst hafa tekið þá afstöðu að tjá sig ekki um málið né ætli hann að bregðast við yfirlýsingu Ásthildar í morgun. Hann hafi sogast inn í þetta mál rétt eins og hún.

Í henni segir Ásthildur að hún hafi upplifað „eltihrellingu“ af hálfu Eiríks, sem var 16 ára þegar sonur þeirra fæddist. Hann hafi lítið sóst eftir samskiptum við drenginn eftir að hann kom í heiminn.

Hún hafi sjálf verið mun óreyndari en hann er þau hófu samband og hefði raunar aldrei verið við karlmann kennd á þeim tíma. Hann hafi aftur á móti áður átt nokkrar kærustur, þar á meðal konur sem voru mun eldri en hún sjálf.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra í Útvarpshúsinu eftir viðtal við Sunnu Karen Sigurþórsdóttur. Í viðtalinu greindi Ásthildur Lóa frá því að hún myndi segja af sér ráðherradómi.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir.RÚV / Ragnar Visage

21. mars 2025 kl. 11:15

Erlendir miðlar greina frá málinu

Fregnir af afsögn Ásthildar hafa borist utan landsteinanna, meðal annars til Bretlands og Svíþjóðar.

BBC greinir frá málinu á vef sínum með fyrirsögninni: Íslenskur ráðherra sem eignaðist barn með unglingi fyrir 30 árum segir af sér.

Ásthildur Lóa á BBC.
Frétt BBC.RÚV

Sænski miðillinn Aftonbladet er berorðari en fyrirsögn þeirra les: Barnaráðherra eignast barn með barni.

Ásthildur Lóa í Aftonbladet.
Frétt Aftonbladet.RÚV

21. mars 2025 kl. 10:57

Ekki augljóst að Ásthildur láti af þingmennsku

Henry Alexander Henryson, rannsóknasérfræðingur hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, segir það strax hafa verið ljóst í gær að Ásthildur Lóa Þórsdóttir gæti ekki gegnt ráðherraembætti sínu áfram eftir fregnir gærdagsins.

Það sé aftur á móti ekki augljóst að hans mati að hún láti af þingmennsku. Um það starf gildi allt aðrar kröfur.

Henry var gestur í Morgunútvarpinu og ræddi þar siðferðisleg álitamál í tengslum við mál Ásthildar Lóu.

Hann segir að eftir eigi að koma í ljós hvort forsætisráðherra hafi rofið trúnað við manneskjuna sem sendi henni erindi og óskaði eftir fundi til að ræða mál Ásthildar Lóu.

Henry Alexander Henrysson, sérfræðingur á Siðfræðistofnun (Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson)
Henry Alexander Henrysson, sérfræðingur á Siðfræðistofnun.RÚV / Kveikur

„Auðvitað er það þannig að fólk á að geta komið með erindi sem eru með upplýsingar af þessu tagi, í trúnaði og þessi mál eru leyst án þess að það sé strax talað við ráðherra,“ segir Henry.

„Manni finnst eðlilegt að þarna hefði ríkt trúnaður, en þá er bara spurningin var viðkomandi kannski ekkert að biðja um trúnað?“

Ásthildur Lóa gaf frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hún segir aðstoðarmann forsætisráðherra hafa sýnt sér erindið og nafn sendandans þann 11. mars.

Hægt er að smella hér til að hlusta á viðtalið við Henry Alexander í heild sinni.

21. mars 2025 kl. 10:30

Almenningur eigi heimtingu á að vita feril málsins

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins kemur til fundar við forseta Íslands.
Ragnar Visage

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir það hafa verið tíðindi gærkvöldsins varðandi mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, barnamálaráðherra, hafa komið á óvart.

Þó þurfi að skoða betur hvernig upplýsingar hafi borist út úr forsætisráðuneytinu til Ásthildar Lóu.

„Ég tel það augljóst að hvort sem það er við sem erum á þingi, fjölmiðlar eða almenningur allur eigi heimtingu á að fá að vita nákvæmlega hvernig ferill þessa stjórnsýsluhluta málsins er.“

21. mars 2025 kl. 8:56

„Þetta er mín beinagrind og nú er hún komin upp“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir veitti Sunnu Karen Sigurþórsdóttur hér á fréttastofu RÚV viðtal í gærkvöldi þegar fréttin af 36 ára gömlu ástarsambandi hennar við 15 ára dreng hafði verið sögð.

Viðtalið er allt hér

21. mars 2025 kl. 8:52 – uppfært

Ásthildur gefur frá sér yfirlýsingu

Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefur gefið frá sér yfirlýsingu í framhaldi af afsögn sinni úr embætti mennta- og barnamálaráðherra eftir að upp komst að hún hafi átt í ástarsambandi við 15 ára pilt þegar hún var sjálf 22 ára og eignast með honum son.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra í Útvarpshúsinu eftir viðtal við Sunnu Karen Sigurþórsdóttur. Í viðtalinu greindi Ásthildur Lóa frá því að hún myndi segja af sér ráðherradómi.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir.RÚV / Ragnar Visage

Í yfirlýsingunni kveðst Ásthildur telja sig geta fullyrt kinnroðalaust að málið hafi ekki áhrif á störf hennar sem ráðherra. Þann 11. mars hafi fyrrverandi tengdamóðir barnsföðursins óskað eftir fundi með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra um málið.

Þegar komið hafi á daginn í gær að fréttastofa RÚV hygðist greina frá málinu hafi hún ákveðið að segja af sér í ljósi þess að samstafsfólk hennar yrði „elt uppi af öllum fjölmiðlum,“ sæti hún áfram.

Kveðst Ásthildur ekki hafa gegnt ábyrgðarstöðu gagnvart piltinum í því kristilega starfi sem þau kynntust í gegnum.

Hún hafi verið óreynd í ástarmálum þegar þau tóku upp samband en að hann hafi verið talsvert reyndari.

Hún hafi reynt að slíta sambandinu en hann hafi ekki virt það og hún í kjölfarið upplifað „eltihrellingu“ af hans hálfu. Áhugi hans hafi aftur á móti gufað upp þegar leið á meðgöngu hennar með soninn.

21. mars 2025 kl. 8:51

Hvers vegna ætlar Ásthildur Lóa að segja af sér?

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, átti í ástarsambandi við 15 ára pilt þegar hún sjálf var 22 ára og eignaðist með honum son. Ráðherra kynntist piltinum þegar hún leiddi unglingastarf, hann sakar hana um tálmun. Trúnaðarupplýsingar bárust til ráðherra.

Þetta er ástæða afsagnar ráðherra. Hér er hægt að lesa fréttina af þessu:

21. mars 2025 kl. 8:39 – uppfært

„Mér finnst það hneyksli“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir lyklaskipti dómsmálaráðuneytið
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins.RÚV / Ari Páll Karlsson

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir það alvarlegt, ef satt reynist, að trúnaðarupplýsingum hafi verið lekið úr forsætisráðuneytinu til mennta- og barnamálaráðherra.

„Það er lykilforsenda að traust sé til stjórnsýslunnar að trúnaður sé haldinn. Það lítur þannig út að forsætisráðuneytið hafi rofið trúnað gagnvart borgara, og það finnst mér mjög alvarlegt. Mér finnst það hneyksli.“

21. mars 2025 kl. 8:35

Velkomin á fréttavakt

Góðan daginn.

Hér mun fréttastofa RÚV halda utan um nýjustu vendingar tengdar boðaðri afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur.

Hér að neðan má sjá fréttavakt gærkvöldsins.