19. mars 2025 kl. 9:19
Innlendar fréttir
Náttúruvá

Snarp­ir skjálft­ar í Bárð­ar­bungu

Skjálfti af stærðinni 4,2 varð í Bárðarbungu klukkan tuttugu mínútur yfir átta.Ómar Ragnarsson

Jarðskjálfti af stærðinni 4,2 varð í Bárðarbungu rétt fyrir klukkan hálfníu í morgun. Skjálfti af stærðinni 2,9 varð á sama stað stuttu áður og hafa nokkrir minni eftirskjálftar mælst í kjölfarið.

Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálfta af þessari stærð þekkta í Bárðabungu eftir að eldgosinu í Holuhrauni lauk árið 2015. Skjálftar af svipaðri stærð hafi síðast orðið um miðjan janúar.

Hún segir ólíklegt að nokkur hafi fundið fyrir skjálftunum þar sem upptök séu á hálendinu og engin byggð nálægt. Engin merki séu um gosóróa, en Veðurstofan fylgist áfram með.