Lífið með langvinn eftirköst covid: „Þetta er rosalega mikil spennitreyja“
Skömmu eftir að Atli Þór veiktist af COVID-19 fór hann að finna fyrir orkuleysi. Eftir því sem hann þráaðist við og lagði harðar að sér hrakaði honum.
„Þetta er rosalega mikil spennitreyja og þessi einkenni valda mikilli einangrun hjá fólki því sjúkdómurinn dregur úr getu manns til að taka þátt í lífinu,“ segir hann um sjúkdóminn long covid.
Atli Þór hefur í rannsóknum sínum kafað ofan í veruleika ungs fólks sem var vistað á elliheimilum um miðbik síðustu aldar. Kaldhæðni örlaganna hagaði því þannig að hann átti eftir að verða einn yngsti sjúklingurinn á heilsuhælinu í Hveragerði.
Í dag stundar hann jóga með eldri konum.
„Þetta eru konur komnar yfir sjötugt og þær eru miklu hressari en ég, það segir ákveðna sögu. Ég þarf að spara mig í tímunum og get ekki gert allt sem þær eru að gera.“