Tuga milljóna tjón hjá kartöflubændum eftir afleitt sumar

Ólöf Rún Erlendsdóttir

,

Lélegasta uppskera í um 40 ár fékkst úr kartöflugörðum við Eyjafjörð í fyrrasumar. Á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi eru galtómar kartöflugeymslur og ljóst að tekjutapið er mikið.

Uppskeran er venjulega um 300 tonn en í fyrrasumar fengust undir 100 tonn af smáum kartöflum upp úr blautum og köldum görðunum. Það seldist allt fyrir áramót.

Uppskerubrestur varð víðar um landið þótt sumir hafi sloppið betur en aðrir. Á Suðurlandi er staðan betri þótt uppskeran sé almennt minni en undanfarin ár. Aðstæður til útiræktunar voru í raun afleitar víða um landið síðastliðið sumar, vorið fór hægt af stað og vetrarveður í júní gerði útslagið fyrir kartöflugrösin.