Öflug skjálftahrina hófst við Reykjanestá um klukkan hálf þrjú í dag. Hátt í sextíu skjálftar hafa mælst og virkni heldur áfram, segir í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofunnar.
Reykjanestá er suðvestast á Reykjanesskaga.Veðurstofa Íslands
Líklega eru fjórir skjálftar um og yfir 3 að stærð, sá stærsti um 3,5.
Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir í samtali við fréttastofu ákafar skjálftahrinur líkt og þessa vera algengar á þessum stað.
„Jarðskjálftarnir eru mögulega gikkskjálftar vegna breytinga á spennusviði á Reykjanesskaganum samhliða jarðhræringum þar síðustu ár. Sólarhringsvakt VÍ heldur áfram að vakta svæðið vel,“ segir í tilkynningu Veðurstofu.