Leifsstöð stækkar um þriðjung – „Ofboðslega þörf stækkun“
Fyrstu farþegarnir fóru um nýja austurálmu Leifsstöðvar í gær. Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli stækkar um þriðjung með nýju álmunni.
„Þetta er ofboðslega þörf stækkun og fleiri fermetrar, sem við þurfum að fá í notkun eftir alla umferðaraukninguna síðasta áratug,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Það er mikið gleðiefni að þetta mannvirki sé að komast hér í notkun.“
Byggingin er um 25 þúsund fermetrar á fjórum hæðum. Í kjallara og á jarðhæð viðbyggingarinnar er nýtt farangurkerfi og töskusalur. Biðsalur er á annarri hæð ásamt nýju veitingasvæði og annarri aðstöðu fyrir farþega. Á þriðju hæð verða landamærahlið og skrifstofur á þeirri fjórðu. Þar að auki bætast sex brottfarahlið við flugvöllinn og fjórar landgöngubrýr.