Óhreinsað skólp hefur farið út um neyðarlúgur í dælistöðvum Veitna í Gufunesi og Skeljanesi í gær og í dag. Þetta er vegna mikillar úrkomu sem skapar álag á fráveitukerfið.
Veitur benda fólki á að halda sig frá sjónum og ströndinni þar sem skólp fer tímabundið í sjóinn. Í morgun lokaðist neyðarlúgan í Gufunesi en hún er enn opin í Skeljanesi og þar fer skólpið óhreinsað út.
Veitur segja að neyðarlúgurnar séu settar upp svo skólpið fari óhreinsað út í sjó frekar en að hætta skapist á að það flæði inn á heimili fólks.
Starfsmenn Veitna munu ganga strendur í nágrenninu um leið og veður leyfir og hreinsa upp það sem kann að skola á land.