22. janúar 2025 kl. 18:07
Innlendar fréttir
Dýravelferð
Fuglainflúensa greindist í dauðum mink
Enn greinist skæð fuglainflúensa í villtum fuglum. Þá greindist veiran í minki sem fannst dauður í Vatnsmýrinni í Reykjavík í síðustu viku. Engin ný tilfelli hafa greinst í köttum eða öðrum spendýrum. Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar. Stofnuninni berast á hverjum degi fjölmargar tilkynningar um dauða, villta fugla.
Um það bil 150 hræ grágæsa hafa fundist í Reykjavík frá því um áramót, og síðan í síðustu viku víðar á höfuðborgarsvæðinu.
Enn er mælt með að kattaeigendur reyni að koma í veg fyrir að kettir þeirra komist í snertingu við villta fugla.