Vatnsborð í Ölfusá við Selfoss hefur hækkað hratt neðan við Selfosskirkju í kvöld. Ófært er orðið að nýrri fráveitustöð þar sem vegur að henni er á kafi. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands í kvöld.
Þar segir að rennsli hafi lítið aukist síðustu tímana en að töluverður klaki sé í ánni neðan við Selfoss sem hindri sennilega flæði árinnar.
Þá hafi Hvítá á Skeiðunum flætt yfir bakka sína í dag. Mikið vatn sé á túnum austan Hestfjalls og bærinn Útverk sé umflotinn. Heimafólk hafi ekki séð álíka flóð síðan 2006.
Vatnsborð hefur farið hækkandi víða um land vegna úrkomu og mikilla leysinga.
Aðsend / Magnús Lyngdal MagnússonAðsend / Magnús Lyngdal Magnússon