Ég á heima hér

Jóhann Bjarni Kolbeinsson og Arnar Þórisson

Fyrir þá sem búa utan hættusvæðisins eru jarðhræringarnar á Reykjanesskaganum kannski orðnar hálf hversdagslegar. En fyrir íbúa Grindavíkur eru þær það ekki. Hver hreyfing jarðar færir þau fjær draumnum um að snúa heim í samfélagið sem þau tilheyrðu.

Hvar er hægt að kaupa sér hús?

Það er maí árið 2024. Við erum heima hjá Grindvíkingnum Kristínu Maríu Birgisdóttur, sem er nýflutt til Njarðvíkur ásamt börnunum sínum þremur. Þetta er fjórða íbúðin sem þau búa í, í jafnmörgum bæjarfélögum, á aðeins hálfu ári.

„Ég er náttúrlega búin að skanna allar fasteignasölur og veit nákvæmlega hvaða hús eru til sölu í Vestmannaeyjum.“

Í Vestmannaeyjum?

„Já, ég er bara búin að skoða hvar er hægt að kaupa sér hús. Ég er búin að skanna þá staði sem ég gæti hugsað mér að búa á.“

Kristín María hefur þó ekki skoðað eignir í Grindavík, þar sem hún vill helst halda áfram að búa, enda hefur ekki verið gott að búa þar síðustu mánuði, og bannað með öllu um tíma.

Lífið umturnast

Undanfarið ár höfum við fengið að vera fluga á vegg í lífi Kristínar Maríu og fjölskyldu hennar, sem er öll frá Grindavík. Líf fjölskyldunnar, sem og annarra Grindvíkinga, umturnaðist í nóvember í fyrra, þegar bærinn var rýmdur. Þá hófust jarðhræringar sem ekki sér fyrir endann á, með fordæmalausum afleiðingum.

Við hittum fjölskylduna fyrst í miðri rýmingunni í fyrra, þegar hún fluttist í sumarbústað í Brekkuskógi. Þar ætlaði hún aðeins að dvelja í skamman tíma, en það átti aldeilis eftir að breytast. Hvert eldgosið rak annað næstu mánuðina og í einu gosinu rann hraun yfir hús í útjaðri bæjarins.

Þeir sem geta ekki flutt sjálfir

Þegar við hittum hjónin Birgi og Kristínu Arnberg í apríl eru þau búin að fá nóg og hafa ákveðið að yfirgefa Grindavík fyrir fullt og allt. Við erum með þeim í bíl á leiðinni til Grindavíkur, þar sem þau eru að ljúka við að tæma húsið sitt.

„Já, mér finnst þetta alveg stórfurðulegt. Þetta er bæjarfélagið mitt sem ég er búin að búa í síðan ég man ekki hvenær. Búin að borga alla mína skatta og skyldur, og núna eru viðbrögðin þessi,“ segir Kristín í símann. Á hinum endanum er starfsmaður Grindavíkurbæjar. Birgir og Kristín höfðu sótt um aðstoð við að flytja búslóðina sína.

„Ég hringi til þess að vita, og þá var svarið: Þetta er eingöngu fyrir þá sem ekki geta flutt sjálfir,“ útskýrir Kristín. „Við erum náttúrlega eldri borgarar og við erum ekkert einhverjir ... þó við séum nú jaxlar.“

Krókaleið að ættaróðalinu

Á leiðinni segir Kristín okkur að það sé ákaflega sárt að yfirgefa bæjarfélagið.

„Ég hefði hvergi annars staðar viljað ala börnin mín upp og horfa á barnabörnin vaxa úr grasi. En ég sé ekki ... og ég sé heldur ekki að bærinn minn verði einhvern tíma samur.“

Þegar við keyrum inn í bæinn neyðumst við til að fara mikla krókaleið að húsi Birgis og Kristínar. Við þurfum að keyra eftir göngustíg, enda hafa jarðhræringarnar valdið því að það er ekki hægt að keyra að húsinu með hefðbundnum hætti.

„Hún tengdadóttir okkar og sonur, þau eiga fjögur börn, búa hérna uppi í Miðhópi. Hún var ákveðin í að fara til baka. En þegar maðurinn féll niður þá sagði hún: „Nei, ég fer ekki með börnin mín aftur heim“,“ segir Kristín.

Þegar við komum að ættaróðalinu að Dalbraut 3 í Grindavík sjáum við strax hversu illa húsið er farið. Stórar sprungur hvert sem litið er, auk þess sem húsið hefur sigið.

„Það komu menn hérna í desember frá einhverri verkfræðistofu og skoðuðu hér og mældu og við mættum einmitt á svæðið,“ segir Kristín. „Mjög almennilegir menn og allt það. Þá sögðu þeir okkur að þetta hefði sigið, sem sagt í þessa átt, en sögðu jafnframt: „Við þurfum að koma aftur því þetta er allt á hreyfingu.“ En þeir eru ekki enn komnir.“

Hjónin eru búin að kaupa hús í Sandgerði og eru langt komin með að flytja. Þeim líður þó greinilega ekki vel.

„Þetta er ofboðslega, ofboðslega sárt,“ útskýrir Kristín.

„Við fluttum hingað ‘82 og erum náttúrlega búin að vera að græja og gera,“ segir hún með grátstafinn í kverkunum, enda að kveðja húsið sem henni þykir svo vænt um.

Fyrir utan húsið blaktir úkraínski fáninn við stöng.

„Já, þeir eru vinir mínir í Úkraínu. Ég styð þá,“ segir Kristín sem dró fánann fyrst að húni þegar Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.

„Þetta er fáni númer tvö. Hinn fór alveg í tætlur,“ segir hún.

„Ég er ofboðslega þakklát fyrir að ég bý ekki í Úkraínu og ekki í Palestínu. En ég bjó í Grindavík.“

„Þetta er bara verkefni“

Við erum komin aftur heim til Kristínar Maríu í Njarðvík. Það er meira en nóg að gera hjá einstæðri móður með þrjú börn.

„Já, hann á svolítið erfitt með, eins og heyrist, skapið sitt þessi drengur,“ útskýrir Kristín María. Þórður Halldór, 10 ára gamall sonur hennar, hefur átt svolítið erfitt með óvissuna og umrótið síðustu mánuði.

„Við vorum til dæmis á fundi áðan í skólanum þar sem við sjáum að við hefðum viljað sjá meiri framför í hegðun. En þetta er bara verkefni. Þú færð einhver verkfæri til að díla við alls konar og svo er bara að læra að nota verkfærin.“

Það er kominn maí og Kristín María segir okkur að nú fyrst sé rykið aðeins að setjast, eftir um það bil hálft ár af stanslausum flutningum og óvissu.

„Við erum komin hingað, ég er komin með börnin til mín, get sótt þau á leikskólann og farið með þau á leikskólann og ekki bara um helgar eins og þetta er búið að vera. Hún er búin að búa fjórðung ævi sinnar annars staðar en hjá mömmu sinni. Hún er bara tveggja ára. Þannig að þetta er dálítið mikið fyrir lítið barn,“ segir Kristín María og á þar við Bríeti, yngsta barnið sitt.

Kristín María býr ásamt börnunum sínum í leiguíbúð í Njarðvík. Hún lítur á þessa íbúð sem bráðabirgðalausn, enda er hún harðákveðin í að flytja aftur til Grindavíkur.

„Kannski er þetta eitthvað sem hættir núna næstu 1.000 árin. En svo er þetta kannski eitthvað sem gengur næstu 30 árin, maður veit það ekki. En alveg eins og þegar við vorum að spjalla í nóvember, þá er vonin eitthvað sem maður vill halda í. Maður þarf samt að vera raunsær og hæfilega bjartsýnn. Af því að það er rosa skellur ef maður ætlar að vera rosa bjartsýnn og halda að maður sé alltaf að fara, en svo gerist ekkert.“

Miðar á leikinn

Sími Kristínar Maríu hringir. Á hinum endanum er maður sem er að reyna að útvega Kristínu Maríu miða á hreinan úrslitaleik Grindavíkur og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla.

„Endilega heyrðu í mér með, eða þú veist, ef það reddast eitthvað. Ég bind vonir við að maður geti komist með einum eða öðrum hætti á Hlíðarenda,“ segir hún og slítur svo símtalinu. „Miðar á leikinn. Það er verið að reyna að redda miðum á leikinn,“ útskýrir Kristín María, og það er greinilegt að árangur körfiuboltaliðsins hefur aldrei verið mikilvægari fyrir Grindvíkinga en einmitt núna.

Kristín María segir okkur að fjarveran frá börnunum hafi verið hvað erfiðust síðustu mánuði. Hún er sjálf að vinna hjá Grindavíkurbæ og eðli málsins samkvæmt hefur verið mikið að gera í vinnunni að undanförnu.

„Þannig að til þess að þau gætu verið í sinni rútínu voru amma þeirra og afi náttúrlega með þau þess á milli. Ég að vinna langa vinnudaga í öllu því sem var að gerast hjá Grindavíkurbæ og gagnvart íbúunum. Allar upplýsingar sem þurfti að koma áleiðis. Þetta var náttúrlega bara geðsjúkt ástand. Ég hef oft talað um leiðinlega langdregna bíómynd en, þú veist, þetta er líka eiginlega svolítil martröð ef maður hugsar til baka.“

Dýpsta svartholið

Þegar við hittum Kristínu Maríu í vor var hún komin í veikindaleyfi. Álag vegna óvissu og stanslausra flutninga var farið að segja til sín.

„Maður dettur svona niður í að hugsa bara; hvenær kemur þetta raunverulega, raunverulega áfall sem tekur mann niður í dýpsta svartholið? Af því að Grindavík er manni svo kær og maður er náttúrlega alinn upp þarna, maður hefur búið þarna alla ævi og maður sá fyrir sér einhvern veginn að ala börnin sín þarna upp. Ég var búin að kaupa mér íbúð, þarna sá ég bara mína framtíð eftir skilnað síðasta sumar. Þannig að sú mynd sem maður hafði málað upp og var ótrúlega ánægður með, hún er einhvern veginn öll runnin út í sandinn,“ segir Kristín María.

„Maður lærir líka svo mikið inn á sjálfan sig þegar maður fer í gegnum einhvern svona pakka eins og ég er að segja. Mér finnst ég ekki búin að gráta nóg, en ég varð veik og fótunum var svona kippt undan mér þar sem ég var bara rúmliggjandi.“

Örlagaríkur dagur

Örfáum dögum eftir að við heimsækjum Kristínu Maríu rennur upp miðvikudagurinn 29. maí, sem átti eftir að vera örlagaríkur í lífi Grindvíkinga. Ekki nóg með að þann dag hæfist enn eitt eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni, og það stærsta til þessa, heldur var úrslitaleikurinn þá um kvöldið.

Þótt eldgosið hafi verið stórt hafði það ekki bein áhrif í Grindavík.

„Maður var náttúrlega feginn að heyra að þetta væri að koma á svipuðum slóðum, af því að maður var líka farinn að hafa áhyggjur af því að þetta færi að skjótast kannski inn í bæinn eða undir Svartsengi þar sem tankurinn er,“ segir Kristín María þegar við hittum hana viku síðar.

Blendnar tilfinningar

Það fór ekki svo að Kristín María fengi miða á úrslitaleikinn. Hún fór því ásamt fjölmörgum öðrum Grindvíkingum, sem ekki fengu miða, á bar í Reykjavík til þess að horfa á hann. Þetta var auðvitað gott tækifæri til að standa saman sem samfélag sem hafði sundrast um allt land. Grindavík tapaði hins vegar leiknum og rétt missti því af Íslandsmeistaratitlinum. Segja má að leikurinn hafi kristallað bæði vonbrigði og erfiða tíma í lífi Grindvíkinga.

„Það hefði verið svo gott hefðum við unnið,“ segir Kristín María. „Það var náttúrlega bara spenningur og ótrúlega blendnar tilfinningar. Körfuboltaliðið gerði alveg ótrúlega mikið fyrir samfélagið, að komast svona langt í úrslitakeppninni. Það að komast bara í hreinan úrslitaleik hafði kannski miklu meiri þýðingu en það hefði haft þarna á árum áður. Af því að þetta voru samverustundir Grindvíkinga.“

„Frekar dapurt“

Við erum komin aftur að Dalbraut 3 í Grindavík. Þótt það blási duglega í bænum og fátt minni á sumarið, þá er það samt á næsta leiti.

Birgir og Kristín Arnberg eru að kveðja húsið sitt ásamt Birni Óskari, syni sínum. Hin börnin þeirra, Kristín María og Sigurður Þór, eru vant við látin.

Er þetta ekki skrítið?

„Að kveðja æskustaðinn? Það er frekar dapurt. Þetta er mjög súrrealískt. Við getum orðað það þannig,“ segir Björn Óskar þar sem við stöndum í galtómu eldhúsinu.

Að kítta og sparsla

Þótt húsið sé gríðarlega illa farið er ekki búið að úrskurða það ónýtt af hálfu Náttúruhamfaratrygginga Íslands.

„Nei, nei, ég ætla ekkert að pæla í þeim, ég ætla bara að fá Þórkötlu til að kaupa þetta. Svo geta þeir átt við Náttúruhamfaratryggingar. Djöfulsins rugl er þetta þarna Náttúruhamfaratryggingar,“ segir Birgir.

Nú? Hvernig þá?

„Blessaður vertu, þeir koma og meta svona: „Já, já, kítta hérna og sparsla.“ Og svo er í öðru hverju húsi eða meira: „Þetta nær ekki sjálfsábyrgð sem er 400.000.“ Stórskemmd hús maður. Bulla bara út í eitt, einhverjar verkfræðistofur. Þetta er fyrir neðan allar hellur, þessi vitleysisgangur,“ segir Birgir sem er sjómaður af gamla skólanum.

Og það er deginum ljósara að þau hjónin eru ekki ánægð með viðbrögð stjórnvalda við því sem gengið hefur á.

„Þetta fólk sem kom hérna í upphafi, „ríkisstjórnin“ innan gæsalappa, með hjálma, og ætluðu að gera allt fyrir okkur, ætluðu að grípa okkur öll. Það er fullt af fólki enn í frjálsu falli,“ segir Kristín Arnberg.

„Og að Grindvíkingar skuli þurfa að storma niður á Austurvöll að mótmæla undir þessum kringumstæðum. Þú veist, hvað er að? Að þurfa svo að eiga við eins og til dæmis þessa Þórkötlu, það er fullt af fólki sem er í vondum málum. Það er búið að festa sér hús einhvers staðar og svo bara rennur samningurinn út og þá bíður bara einhver á hliðarlínunni sem býður betur, hækkar um kannski tvær, þrjár milljónir.“

„Þú þrífur þegar þú ferð út“

Það vekur óneitanlega athygli að Birgir og Kristín verja síðustu andartökunum í húsinu sínu í að þrífa það hátt og lágt, sem er merkilegt í ljósi þess að húsið virðist gjörónýtt.

„Það er frumskilyrði. Skeina allt og bóna,“ segir Birgir.

Hver setur það skilyrði?

„Þórkatla.“

„Þetta eru bara eins og venjuleg fasteignakaup. Þú þrífur þegar þú ferð út,“ segir Sigurður Þór, sonur þeirra.

„Einhverjir töluðu um að það þyrfti að sparsla og mála. Á ég að fara að sparsla og mála?“ segir Birgir og hlær. Honum er þó ekki hlátur í huga í raun, enda komið að kveðjustund.

„Þetta hús er búið að þola skjálftana ‘68 og ‘73, alla skjálfta fyrir fyrsta gosið í Geldingadölum, og aldrei nokkurn tíma sprunga eða neitt. En eftir þessi læti er þetta allt í klessu,“ segir hann um leið og hann klappar létt á veggi hússins, eins og það sé gamall vinur.

„Ég er ekkert sátt. Mér finnst ég hvergi eiga heima þó ég sé komin í fínt hús í Sandgerði. Þá einhvern veginn finn ég ekki ... Ég á heima hér,“ segir Kristín Arnberg, og það er augljóst að þessi síðustu augnablik í gamla, góða húsinu eru henni erfið.

Að rækta garðinn sinn

Það er ekki bara erfitt að kveðja húsið, heldur líka garðinn, þar sem Kristín er búin að planta einu tré fyrir hvert barnabarn.

„Hér erum við búin að vera að planta síðan við komum hingað. Þá var ekkert.“

Engar plöntur hér?

„Nei, það voru smá tré hér,“ segir Kristín og sýnir okkur garðinn sinn.

„Elsta barnabarnið mitt á þetta tré. Þetta er ofboðslega fallegt, blómstrar bleiku og ilmar ofsalega vel.“

Og hvað eru þá trén orðin mörg?

„Sjö.“

Sjö tré og sjö barnabörn?

„Já.“

„Einhvern tímann hættir þetta helvíti“

Við förum aftur inn, og fáum okkur síðasta kaffibollann í eldhúsinu. Kristín tekur kaffivélina úr sambandi þegar hún er búin að hella upp á. Vélin er líklega síðasti hluturinn sem er eftir í húsinu. Af gömlum vana tekur Kristín borðtuskuna og þrífur vaskinn.

„En samt, manni líður betur. Mér líður betur að skilja við þetta svona,“ segir hún um þrifin. Það væri ekki rétt að skila húsinu skítugu. Þótt það sé sprungið og sigið.

Hvenær var það sem þið tókuð þessa ákvörðun að flytja?

„Að fara ekki aftur hingað?“

Já.

„Þegar maður sá skemmdirnar, þá var þetta helvíti búið, maður,“ segir Birgir sem rifjar þar upp fyrstu heimsókn þeirra í húsið eftir mestu hamfarirnar.

„Ég stóð nú bara hérna inni á stofugólfi og grét þegar ég kom hérna þá,“ segir Kristín. „Þetta var svo hræðilegt hvernig allt var einhvern veginn. Þannig að þá náttúrlega bara tókum við þessa ákvörðun.“

Fyrir gamlan sjómann er fátt sem skiptir meira máli en höfnin. Þegar talið berst að henni á Birgir erfitt með að koma frá sér orðunum.

„Vonandi verður höfnin í lagi. Og fyrirtækin blómstra. Þá á eftir að fjölga fólki hérna. Ég er nokkuð viss um það,“ segir Birgir um leið og hann berst við tárin.

Á meðan náttúran lætur alla vega þorpið í friði.

„Já, þegar þetta hættir. Einhvern tímann hættir þetta helvíti. Þó að það verði ekki í okkar tíð.“

„Það var ekkert“

Kristín horfir á bæinn sinn út um eldhúsgluggann, líkt og hún hefur gert óteljandi sinnum undanfarin 42 ár.

„Þegar maður kom inn í bæinn um daginn þá var ofsalega fallegt veður. Ég var einmitt að segja það við Bigga að maður hefði séð hérna líf og allir úti, krakkar úti að leika, úti að hjóla. Það var ekkert, þetta var bara gjörsamlega...“

„Nei, í dag er þetta bara draugabær,“ botnar Birgir.

„Þetta er það, því miður,“ segir Kristín.

Maður skilur alveg að þið séuð ósátt við ýmislegt sem er búið að gera en eruð þið reið við náttúruna eða æðri máttarvöld?

„Nei, ég er reið við ríkisvaldið. Rosalega reið. Það er ekki verið að gera neitt. Það er ekkert verið að hjálpa fólki. Þeir gera sér örugglega ekki í hugarlund hvernig fólki líður, og börnunum.“

„Þetta er ekkert val“

Eins og svo margir bæjarbúar er Kristín María að kveðja. Ekki bara húsið sitt, heldur líka samfélagið. Hugmyndir um framtíðina; vissuna og fyrirsjáanleikann sem við teljum okkur flest búa við. Húsin í Grindavík standa. En samfélagið er farið.

„Hér tekur jólaskrautið á móti okkur,“ segir Kristín María þegar við göngum inn í húsið hennar. Það er kominn júní og Kristín María er að flytja úr húsinu sem hún keypti í fyrra. Henni til aðstoðar er barnsfaðir hennar, Páll Árni Pétursson.

Og markmiðið í dag er að...?

„Það er að reyna að koma einhverju skikki á hverju á að henda, hvað á að geyma og hvað kemst í þessa litlu íbúð sem við erum í núna. Og hvað getur Palli geymt fyrir mig í bílskúrnum sínum. Svo bara krossar maður putta að það verði óhætt þar,“ segir Kristín María.

„Kannski flyt ég hingað, kannski eitthvert annað.“

Hvernig líður þér að koma hingað núna?

„Ég kom hingað í gær og þetta er náttúrlega ótrúlega dapurt. Ég var einmitt að segja að þegar maður er að flytja yfirhöfuð þá er maður að flytja af því að maður tekur ákvörðun um það. Maður er að fara á einhvern stað sem maður valdi sér að vera á. Þetta er ekkert val.“

Ólíkt húsi foreldra hennar er hús Kristínar Maríu mjög lítið skemmt. Það eru litlar sprungur út frá samskeytum á nokkrum stöðum, en að öðru leyti er húsið í lagi.

„Maður var farinn að hlakka svo til að koma sér fyrir, hengja myndir upp. Það er ekki einu sinni naglafar á veggjunum sko, þetta var allt nýtekið í gegn þegar ég kaupi þetta,“ segir Kristín María. „Þetta var alveg fullkomið fyrir okkur börnin, þetta hús.“

Þótt Kristín María sé að kveðja húsið sitt, í bili að minnsta kosti, heldur hún enn í vonina um að geta flutt aftur til Grindavíkur. Ólíkt foreldrum sínum er hún því ekki búin að gefa hugmyndina um framtíð í Grindavík upp á bátinn. Jafnvel þótt stórt eldgos sé í gangi steinsnar frá.

„Þannig að við erum að vona að núna verði bara ekkert landris og þetta sé bara búið. Við getum bara farið að flytja heim,“ segir hún og hlær.

Lyklar upp á snaga

Á Dalbraut 3 er búið að tæma húsið, og Birgir og Kristín eiga bara eftir að skella í lás í síðasta skipti. Björn Óskar, sonur þeirra, er þeim til halds og trausts. Birgir lítur niður á húslyklana sem hann heldur á.

Þú þarft ekki að nota þá mikið meira.

„Nei. Þeir fara bara einhvers staðar upp á vegg. Upp á snaga bara.“

Til minningar?

„Já.“

Birgir skellir í lás og endar á því að kíkja í póstkassann, af gömlum vana. Þar eru auðvitað engin bréf.

„Þá kveðjum við þetta heimili. Fyrir fullt og allt,“ segir Kristín. Birgir fer beint inn í bíl, enda napurt. Kristín staldrar hins vegar við, horfir á húsið sitt og grætur. Björn Óskar reynir að hughreysta móður sína.

„Þetta er allt í lagi,“ segir hann og tekur utan um hana.

Dagbók á samfélagsmiðlum

Undanfarið ár hefur Kristín María haldið það sem mætti kalla rafræna dagbók. Það hefur hún gert með því að taka upp stutt myndskeið á símann sinn sem hún birtir á samfélagsmiðlum, nánast daglega og stundum oft á dag. Eðli málsins samkvæmt hafa myndskeiðin flest snúist um ástandið í Grindavík upp á síðkastið.

„Ég er að pæla í að vera með gleraugu á mér af því að ég er pínu útgrátin. Það er bara erfitt að segja bless við æskuheimilið sitt. Svona illa farið eftir hremmingarnar,“ segir Kristín María í einu slíku myndskeiði sem hún tók í júní.

„En ég er hérna fyrir utan húsið mitt sem ég er að fara að afhenda á þriðjudaginn kl. 11. Ég sótti þetta tré sem sonur minn elsti fékk í útskriftargjöf frá leikskólanum Laut. Nú setjum við það á svalirnar í Beykidalnum. Vökvum og hlúum að þessu eins og okkur sjálfum. En allavega. Útskrift á eftir úr fjórða bekk hjá syni mínum. Svo bara að klára að henda og þrífa og þá er þessi kafli búinn í bili.“

Brúðkaupsafmæli á nýjum stað

Vikurnar líða og við erum komin í Sandgerði, þangað sem Birgir og Kristín eru flutt. Þar keyptu þau hús og eru búin að koma sér vel fyrir. Og það stendur mikið til því það er verið að halda upp á 50 ára brúðkaupsafmæli hjónanna, sem giftu sig 14. júní 1974. Börn, barnabörn og tengdabörn þeirra hjóna eru öll komin, og veisluborðið svignar undan kræsingunum. En Grindavík er öllum ofarlega í huga, ekki hvað síst þeim hjónum.

„Maður saknar náttúrlega þessa bæjarfélags, sem var manni kært. Maður þekkti alla og nú er þetta bara komið í einhver þrjátíu og eitthvað sveitarfélög út um víðan völl,“ segir Kristín. Þau hlakka hins vegar til að fara á íþróttamót með barnabörnunum í sumar, eins og þau eru vön.

„Nú ætlum við að fara til Vestmannaeyja og svo ætlum við að fara á Akureyri og svo í Kópavog. Svo keppa þau ekkert meira undir merkjum Grindavíkur,“ segir Kristín.

Að bogna ekki og brotna

Þegar við biðjum Kristínu Maríu að horfa til baka á þennan tíma sem liðinn er frá rýmingu Grindavíkur segir hún að hann sé búinn að vera „ógeðslega erfiður“.

„Ég væri að ljúga ef ég myndi vera að reyna að milda það eitthvað,“ segir hún. „En við verðum bara miklu sterkari fyrir vikið. Ég trúi því að erfiðleikarnir sem við dílum við í gegnum lífið, þeir styrki mann, ef maður heldur þannig á spilunum að maður bogni ekki alveg og brotni.“

Kristín María er enn harðákveðin í að flytja aftur til Grindavíkur, að því gefnu að það verði talið öruggt.

„Það er rosalega sterkt í mér Grindavíkur-hjartað,“ segir hún.

„Ég er enginn besserwisser en ég trúi því alveg að það gæti farið svo að það falli allt í ljúfa löð næstu 1.000 árin, maður veit það ekki. En auðvitað er enginn að fara að búa við það með börn að fara að rýma annað hvert ár eða annan hvern mánuð. Maður býður ekki neinum upp á það. Það væri ekki ábyrgt af mér sem móður að ætla að búa í þeim aðstæðum með lítil börn.“

Frá Grindavík til Þorlákshafnar

Sigurður Þór, bróðir Kristínar Maríu, er hins vegar fluttur frá Grindavík fyrir fullt og allt ásamt konunni sinni, Kristínu Guðmundsdóttir Hammer, og börnunum þeirra fjórum. Sigurður er sjómaður á Sturlu GK frá Grindavík. Við tökum á móti skipinu þegar það kemur til hafnar í Grindavík á köldu haustkvöldi eftir nokkurra daga túr.

„Þá er það bara heim í Þorlákshöfn,“ segir Sigurður þegar hann kemur í land. Hann tekur upp símann og hringir í konuna sína.

„Hæ, hvar ertu? Ég bíð bara eftir þér. Ókei, bæ. Jú, jú, hún er á leiðinni.“

Stuttu síðar kemur Kristín og sækir Sigurð og þau leggja af stað Suðurstrandarveginn áleiðis heim í nýja bæinn sinn. Þangað heimsækjum við þau nokkrum dögum síðar.

Klukkan er sjö að morgni þegar við komum í bæinn og samfélagið er að vakna. Það fyrsta sem við tökum eftir þegar Sigurður tekur á móti okkur í dyragættinni er að fjölskyldan hefur látið gera Grindavíkur-merki í glerið á útidyrahurðinni. Það er einnig margt sem minnir á Grindavík í húsinu, til dæmis málverk af bænum, teikning af gamla húsinu þeirra, og svo eru myndir af börnunum að spila fótbolta fyrir Grindavík á ísskápnum.

„Það er eitthvað í kringum fimmtíu,“ segir Kristín þegar við spyrjum hana hvort fleiri Grindvíkingar hafi flutt til Þorlákshafnar. „Foreldrar mínir komu líka hingað.“

Frá Grindavík?

„Já.“

En saknið þið Grindavíkur?

„Já, samfélagsins. Það gerir maður,“ segir Sigurður.

„Fjölskyldan náttúrlega splundraðist. Mér finnst það erfiðast,“ segir Kristín.

Þau eru sammála um að fyrst eftir rýmingu hafi þau stefnt að því að búa áfram á Suðurnesjunum.

„Við vorum að spá í því í smástund. Svo fór það bara,“ útskýrir Sigurður.

„Svo fór vatnið 8. febrúar í Njarðvík og þá bara: Nei, ég nenni ekki að standa í þessu, sko,“ segir Kristín.

Þannig að í raun fældu jarðhræringarnar ykkur frá á endanum? Þið voruð búin að fá nóg?

„Já.“

Börnin eru sammála um að þeim líði vel í Þorlákshöfn. Einhverjir vina þeirra fluttu líka þangað frá Grindavík, sem hjálpar. Þegar við spyrjum þau hvort þau sakni Grindavíkur segja þau að þau geri það vissulega. Sérstaklega gamla hússins síns. En þegar við spyrjum þau hvort þau langi til þess að flytja aftur til Grindavíkur eru skiptar skoðanir.

„Allavega ekki strax þá,“ svarar Birgir, elsti sonur þeirra hjóna.

Ekki á meðan jarðhræringarnar eru?

„Nei.“

Þegar við setjumst niður í stofunni með Sigurði biðjum við hann að horfa til baka, á þetta ár sem er að líða.

Hvað hefur verið erfiðast við þetta allt saman?

„Ég veit það ekki, maður hafði náttúrlega mestar áhyggjur af þeim, hvernig þau kæmu út úr þessu sko.“

Börnin?

„Já. En ég held að þau hafi bara komið nokkuð vel undan þessu. Okkur líður öllum mjög vel hérna. Eins og ég segi, við lentum í góðu samfélagi.“

En þú ert enn með annan fótinn í Grindavík í vinnunni?

„Já, já, og fer reglulega þangað. Þótt maður eigi ekkert þar þá er þetta alltaf „heim“.“

Afdrifaríku ári í lífi fjölskyldunnar er að ljúka og lífið er að komast í fastari skorður. Lítil, grindvísk samfélög hafa orðið til víða um land.

En bærinn sjálfur er því sem næst tómur. Eftir síðasta gos er landris hafið á ný og enginn veit hvað framtíð Grindavíkur ber í skauti sér – hvort þar verður blómlegt samfélag að nýju eða hvort bærinn leggst í eyði.

Það mun tíminn einn leiða í ljós.