Athugið að þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul

Samantekt

Ný ríkisstjórn kynnt á blaðamannafundi

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir og Ragnar Jón Hrólfsson

,
21. desember 2024 kl. 14:23 – uppfært

Blaðamannafundi lýkur

Blaðamannafundinum er lokið og við kveðjum því frá þessari fréttavakt.

Til þess að fara yfir helstu atriði ætlar ríkisstjórnin að ná stöðugleika í efnahaginum með því að ná stjórn á fjármálum ríkisins og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta, m.a. með stöðugleikareglu og stöðvun hallareksturs.

Undirritun stjórnarsáttmála í Hafnarborg 21. desember 2024.
RÚV / Ari Páll Karlsson

Efnahagsmál

  • Eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar verði að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Þetta verður meðal annars gert með því að fækka ráðuneytum um eitt.
  • Á sama tíma hyggst ríkisstjórnin bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu.
  • Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks, m.a. með breyttum reglum um skammtímaleigu, auk þess að liðka fyrir uppbyggingu á færanlegum einingahúsum og umbreytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðir
  • Hlutdeildarlán verða fest í sessi með skilvirkari framkvæmd, staða leigjenda styrkt og stutt við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða.

Orku og loftslagsmál

  • Auka á orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land.
  • Unnið verður að loftslagsaðgerðum svo að Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Velferðarmál

  • Hækka á örorku- og ellilífeyri á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu en þó aldrei minna en verðlag. Almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar í skrefum upp í 60 þúsund krónur á mánuði.

Auðlindagjöld

  • Ríkisstjórnin hyggst taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Á meðan unnið er að útfærslu verða innheimt komugjöld.
  • Í sjávarútvegi verða gerðar auknar kröfur um gagnsæi í eignarhaldi og skerpt á skilgreiningu tengdra aðila.

Menning

  • Lögð verður áhersla á að auka aðgengi landsmanna að menningarlífi óháð efnahag og búsetu.
  • Ríkisstjórnin mun hlúa að íslenskri tungu og menningararfi þjóðarinnar og leitast við að auka enn frekar útflutning og verðmætasköpun í skapandi greinum.

Menntamál

  • Hefja á sókn í menntamálum og bæta umhverfi nemenda og kennara.
  • Lögð verður áhersla á íslenskukennslu, læsi og aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum.
  • Styðja þarf skólakerfið til að mæta áskorunum, tryggja inngildingu barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli

Útlendingamál

  • Með því að innflytjendur fái tækifæri til að læra íslensku og taka virkan þátt í samfélaginu.
  • Ríkisstjórnin vill gæta samræmis við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála og styrkja stjórnsýslu til að tryggja mannúðlegt og skilvirkt móttökukerfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
  • Heimilt verður að afturkalla alþjóðlega vernd og brottvísa fólki sem fremur alvarleg afbrot eða ógnar öryggi ríkisins.

Öryggismál

  • Fjölga á verulega lögreglumönnum á kjörtímabilinu.
  • Tekið verður fast á skipulagðri glæpastarfsemi, netbrotum, mansali og kynbundnu ofbeldi. Samhliða þessu verða aðrir þættir réttarkerfisins styrktir til að tryggja hraða og örugga málsmeðferð.

Innganga í ESB

  • Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fer fram eigi síðar en árið 2027.
  • Í upphafi kjörtímabilsins verður óháðum erlendum sérfræðingum falið að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum.

21. desember 2024 kl. 14:07 – uppfært

Auðlindagjöld í sjávarútvegi

Kristrún segir að áætlanir ríkisstjórnarinnar varðandi auðlindagjöld í sjávarútvegi verði kynntar á næstu vikum.

Það komi til greina að vera með þrepaskiptingu eða að skoða hvernig tekjuandlagið í veiðigöldunum myndast.

Allar séu þær sammála um að breytinga sé þörf í þessum málaflokki.

Myndin er af löndun á Árskógssandi. Á bryggjunni eru gul kör full af fiski og krani sem hífir fiskikörin upp úr bátnum sem er við hlið bryggjunnar.
RÚV / Amanda Guðrún Bjarnadóttir

21. desember 2024 kl. 14:05 – uppfært

Fyrirkomulag auðlinda í ferðaþjónustu

Kristrún segir að ekki standi til að hækka virðisaukaskatt í ferðajónustu en farið verður frekar í gjaldtöku í tengslum við aðgangsstýringu að ákveðnum ferðamannastöðum.

Margir eftirstóttustu ferðamannastaðir landsins séu í eigu ríkisins og því geti þeir aukið á hagnað. Þá sé einnig vilji fyrir henda til að setja á komugjöld á farþega hingað til lands.

Ferðamenn skoða Gufufoss á Seyðisfirði.
RÚV / Rúnar Snær Reynisson

21. desember 2024 kl. 14:02 – uppfært

Þing kemur saman seinni hluta janúar

Nýir þingmenn mæta í fyrsta sinn á Alþingi. Þingmenn læra um störf alþingis í þingsalnum.
RÚV / Ragnar Visage

Kristrún vonast til þess að þing geti komið saman seinni hlutann í janúar.

Þingmálaskrá verður stillt upp á næstu vikum og segir Kristrún að kominn sé listi yfir áherslumál.

Farið verður strax í að styrkja ákveðin meðferðarúrræði og komið verður á aðgerðum vegna skammtímaleigu íbúða.

Þá tekur Kristrún fram að vinna við fjármálaáætlun hefjist strax þegar þing kemur saman.

21. desember 2024 kl. 13:58 – uppfært

Samræmi í útlendingamálum

Inga Sæland segir að þröskuldur í útlendingamálum verði hækkaður eða lækkaður í samræmi við það sem er að gerast á Norðurlöndunum.

Inga Sæland kemur út af fundi sínum með forseta.
RÚV / Ragnar Visage

21. desember 2024 kl. 13:57 – uppfært

Þorgerður Katrín ver skipan Daða sem fjármálaráðherra

Þorgerður Katrín bregst við spurningu um það hvers vegna ákveðið var að skipa Daða Má Kristófersson sem fjármálaráðherra þrátt fyrir að hann sitji ekki á þingi.

Hann hefur ríkt umboð frá flokknum, þetta var samþykkt á þingflokksfundi, þetta var samþykkt á ráðgjafarfundi, segir hún og tekur fram að hafi unnið náið með flokknum í gegnum tíðina. Þá tekur hún einnig fram að Daði sé sérstaklega vel menntaður til að gegna embættinu en hann er auðlindahagræðingur.

Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði við HÍ
Daði Már hefur verið sviðsforseti hjá HÍ síðan 2013 og prófesstor frá 2016.ruv

21. desember 2024 kl. 13:52 – uppfært

Inga vill að þjóðin ákveði hvort ganga eigi í ESB

Inga Sæland segir það mikilvægt að þjóðin fái að ákveða hvort ganga eigi í ESB þrátt fyrir að hún sjálf segist ekki vilja ganga í bandalagið.

Fánar Evrópusambandsins fyrir framan Berlaymont, höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB.
ESB

21. desember 2024 kl. 13:50

Fjármögnun helstu aðgerða

Kristrún svarar fyrstu spurningu úr sal sem snýr að fjármögnun aðgerða.

Bætt skattskil og hagræðingar í ríkisrekstri, til dæmis með fækkun ráðuneyta, eiga að fjármagna helstu aðgerðir nýju ríkisstjórnarinnar.

Sanngjörn veiðigjöld og hækkun þeirra verður þá einnig skoðuð. Þá verða einnig sett á auðlindagjöld í ferðaþjónustu.

Til skoðunar er einnig að setja á komugjald til Íslands.

„Við erum mjög meðvitaðar um að allar þær úrbætur sem við viljum sjá í velferðarkerfinu munu standa undir sér með lækkun vaxta,“ segir Kristrún.

21. desember 2024 kl. 13:45 – uppfært

Formenn hafa undirritað sáttmálann

Formenn flokkanna hafa nú undirritað stjórnarsáttmálann hver fyrir sig.

Undirritun stjórnarsáttmála í Hafnarborg 21. desember 2024.
RÚV / Ari Páll Karlsson

21. desember 2024 kl. 13:44

Ráðherrar Viðreisnar

Viðreisn hafði áður tilkynnt sína ráðherra en þeir eru:

Daði Már Kristófersson verður fjármálaráðherra

Hanna Katrín Friðriksson verður atvinnuvegaráðherra.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir verður dómsmálaráðherra

Sigmar Guðmundsson verður þingflokksformaður Viðreisnar.

21. desember 2024 kl. 13:43

Ráðherrar Flokks fólksins

Inga Sæland verður félags- og húsnæðismálaráðherra

Eyjólfur Ármannsson verður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Ásthildur Lóa verður mennta- og barnamálaráðherra.

21. desember 2024 kl. 13:42

Fjögur ráðuneyti Samfylkingar

Kristrún Frostadóttir verður forsætisráðherra.

Logi Már Einarsson verður menningar- nýsköpunar- og háskólaráðherra.

Jóhann Páll Jóhannsson verður umhverfis- og loftslagsráðherra.

Alma Möller verður heilbrigðisráðherra.

Forseti þingsins verður Þórunn Sveinbjarnardóttir.

21. desember 2024 kl. 13:40

Fækka ráðuneytum um eitt

Ákveðið hefur verið að fækka ráðuneytum úr tólf í ellefu. Kristrún segir að nokkur hundruð milljónir króna sparist á hverju ári með þessu.

Breytingar verða gerðar á menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðuneytinu. Því verður skipt upp og viðskipta- og ferðamálahlutinn verður færður í matvælaráðuneytið. Þetta verður atvinnuvegaráðuneytið.

Menningarhlutinn sameinast í gamla háskóla-, viðskipta- og nýsköpunarráðuneytið. Það verður menningar-, viðskipta- og nýsköpunarráðuneytið.

Húsnæðismálin verða flutt úr innviðaráðuneytinu í félagsmálaráðuneytið. Nýju ráðuneytin kallast samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið (áður innviðaráðuneytið) og félags- og húsnæðismálaráðuneytið (áður félagsmálaráðuneytið).

21. desember 2024 kl. 13:33

Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu

Þingsályktunartillaga verður mótuð um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið varðandi aðild Íslands.

Vonast er til að sú kosning geti farið fram eigi síðar en árið 2027.

21. desember 2024 kl. 13:32 – uppfært

Staða krónunnar verður skoðuð

Strax í upphafi kjörtímabilsins verður nefnd óháðra sérfræðinga skipuð til að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar.

Drop coin
Shutterstock

21. desember 2024 kl. 13:31 – uppfært

Lögreglumönnum fjölgað

„Frumskylda hvers ríkis er að taka utan um öryggi og traust borgaranna,“ segir Þorgerður Katrín.

Öryggi landsmanna verður eflt með því að fjölga verulega lögreglumönnum.

Tekið verði á skipulagðri glæpastarfsemi, netógnum og ofbeldi og haldið verði áfram að styrkja réttarkerfið í þessu samhengi.

Rætt var um erfiða stöðu Grindvíkinga og sett var inn í stjórnarsáttmálann að lausnir yrðu fundnar í málefnum Grindavíkur.

Lögreglan í andyri Alþingis
RÚV / Ragnar Visage

21. desember 2024 kl. 13:28

Auðlindagjöld í ferðaþjónustu

Auðlindagjöldum verði einnig komið á í ferðaþjónustu segir Þorgerður Katrín.

„Ríkisstjórnin eða þjóðin á margar af helstu náttúruperlum landsins sem við ætlum að taka gjald fyrir,“ segir Þorgerður Katrín.

21. desember 2024 kl. 13:26 – uppfært

Ræddu gervigreind

Þorgerður Katrín segir að gervigreind hafi komið til máls í stjórnarmyndunarviðræðunum og boðar að settar verði reglugerðir um hana. Hún undirstrikar þó að í henni felist tækifæri sem nauðsynlegt sé að beisla.

Undirritun stjórnarsáttmála í Hafnarborg 21. desember 2024.
RÚV / Ari Páll Karlsson

21. desember 2024 kl. 13:25

Þorgerður Katrín tekur til máls

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar tekur næst til máls. Hún undirstrikar að fyrst hafi verið einblínt á efnahagslegan stöðugleika í stjórnarmyndunarviðræðum.

Forgangsverkefni verður að hagræða stjórnsýslu og sameina stofnanir.

Ráðuneytum verður fækkað um eitt.

„Ég vil taka það fram að við ætlum ekki að hækka tekjuskatta á fólk, við ætlum ekki að hækka skatta á lögaðila, við ætlum ekki að hækka fjármagnstekjuskatta og við ætlum ekki að hækka virðisaukaskatta á ferðaþjónustu,“ segir Þorgerður Katrín.

21. desember 2024 kl. 13:22

Innflytjendur verða aðstoðaðir

Inga segir að innflytjendur verði aðstoðaðir við það að læra íslensku. Gætt verði samrýmis við nágrannaríki á sviði útlendingamála.

Afturkölluð verður alþjóðleg vernd og fólk sent úr landi gerist það brotlegt um alvarlega glæpi á Íslandi.

21. desember 2024 kl. 13:21 – uppfært

Ætla að efla heilbrigðiskerfið

Inga Sæland segir að heilbrigðiskerfið verði eflt og ráðist verði í þjóðarátak við umönnun eldra fólks. Meðal annars með því að efla heimahjúkrun.

Fastur heimilislæknir á að vera staðfestur fyrir alla landsmenn.

Auka á við geðheilbrigðisþjónustu.

Engum meðferðarúrræðum vegna fíknisjúkdóma verður lokað yfir sumartímann.

Hjúkrunarfræðingur á Landspítala með grímu
Landspítali / Þorkell Þorkelsson

21. desember 2024 kl. 13:18 – uppfært

Inga Sæland tekur til máls

Inga Sæland þakkar fyrir það traust sem Flokki fólksins var sýnt í síðustu kosningum.

„Við ætlum að láta verkin tala,“ segir hún og tekur fram að stór skref verði tekin í að útrýma fátækt.

„Við ætlum að stöðva allt sem heitir kjaragliðnun launa og lífeyris,“ segir Inga.

Hún segir að almannatryggingaþegar séu komnir að samningsborðinu.

Almennt frítekjumark mun hækka upp í 60 þúsund krónur

Tryggð verður aldurstengd örorkuuppbót ævilangt.

Stofnaður verður hagsmunafulltrúi aldraðs fólks.

Gripið verður til frekari aðgerða í að bæta grunnframfærslu almannatrygginga.

Endurskoða á starfsgetumatið.

Lögfesta á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Fatlað fólk verður styrkt til að taka þátt í atvinnulífinu og hugað að stöðu þess í menntakerifnu.

48 daga strandveiðar verða tryggðar í sumar.

Auknar kröfur verða gerðar um gagnsæji í eignarhaldi í sjávarútvegi. Inga Sæland undirstrikar að þetta sé álitið verulega mikilvægt.

21. desember 2024 kl. 13:14

Orkumál og loftslagsaðgerðir

Kristrún segir að tekið verði á orkumálum. Flutningskerfi verði styrkt og orkunýting bætt. Leyfisveitingar verði þá einnig einfaldaðar. Stuðst verði áfram við rammaáætlun en ákveðnum verkefnum verði komið í forgang.

Breiða sátt þarf að mynda um vindorku.

Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2040.

Lögð verður áhersla á líffræðilega fjölbreytni og verndun á hafsvæðum.

21. desember 2024 kl. 13:11 – uppfært

Farið yfir helstu aðgerðir

Ráðist verður í eftirfarandi aðgerðir:

Við verðum með forgangsverkefni sem snúa að hagræðingu í ríkisrekstri

Bæta á skattskil í kerfinu og forðast undanþágur.

Lögð verður áhersla á að móta auðlindastefnu og skynsöm auðlindagjöld verða að renna til nærsamfélagsins.

Efla þarf samgöngur um land allt og rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð.

Tekið verður á skammtímaleigu íbúða.

Minnka á vægi verðtryggingar í íslensku hagkerfi.

21. desember 2024 kl. 13:09 – uppfært

Nokkrir punktar úr inngangi stjórnarsáttmála

Húsnæðisöryggi fólks verður sett í forgang.

Gripið verður til aðgerða til að stöðva fátækt.

Hagrætt verður í ríkisrekstri.

Samhliða því mun ríkisstjórnin fjárfesta í innviðum til að efla heilbrigðis og velferðarþjónustu

Hugað verður að íslenskri tungu.

Undirritun stjórnarsáttmála í Hafnarborg 21. desember 2024.
RÚV / Ari Páll Karlsson

21. desember 2024 kl. 13:07

Fyrsta verk að ná stöðugleika í efnahagslífinu

Ný ríkisstjórn gengur samstíga til verka. Fyrsta verk er að ná stöðugleika í efnahagslífi með lækkun vaxta og með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Um leið mun ríkisstjórnin rjúfa kyrrstöðu og stuðla að aukinni verðmætasköpun, segir í inngangi stjórnarsáttmálans.

21. desember 2024 kl. 13:05

Farið yfir inngang stefnuyfirlýsingarinnar

Kristrún ítrekar það að mikið traust hafi ríkt á milli allra formanna á meðan viðræðum stóð.

Hún byrjar á því að fara yfir innganginn í stefnuyfirlýsingunni. Hún segir yfirlýsinguna talsvert styttri en þær sem voru skrifaðar fyrir fyrri ríkisstjórnir.

Hún segir þetta til marks um að formennirnir hafi náð að komast að kjarna málsins.

21. desember 2024 kl. 13:04

Þakklát fyrir sterkt umboð

Kristrún tekur fyrst til máls og bíður alla velkomna. Hún fór yfir síðustu þrjár vikur í stuttu máli. „Þessir þrír flokkar fengu mjög sterkt umboð,“ segir Kristrún og segir að þær hafi fundið til þakklætis fyrir það traust sem flokkunum hafi verið sýnt.

21. desember 2024 kl. 13:02 – uppfært

Stjórnarsáttmálin kynntur

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og Þorgerður Katrín Gunnlaugsdóttir, formaður Viðreisnar eru mættar á blaðamannafundinn í Hafnarborg þar sem stjórnarsáttmálin verður kynntur ásamt nýrri ríkisstjórn.

Undirritun stjórnarsáttmála í Hafnarborg 21. desember 2024.
RÚV / Ari Páll Karlsson

21. desember 2024 kl. 12:42 – uppfært

Verið velkomin á fréttavakt

Verið velkomin á þessa seinni fréttavakt dagsins þar sem við fylgjumst með blaðamannafundi Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins í Hafnarborg í Hafnarfirði. Á honum verða tilkynntar allar þær ráðherrastöður sem ekki hefur enn verið greint frá í dag.

Viðreisn búin að tilkynna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar tilkynnti strax eftir þingflokksfund hvaða ráðherrar taka við embætti frá Viðreisn í morgun.

Þar kom fram að:

Daði Már Kristófersson verður fjármálaráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar verður utanríkisráðherra.

Hanna Katrín Friðriksson verður atvinnuvegaráðherra.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir verður dómsmálaráðherra.

Ráðherrastöður Samfylkingar

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður ráðherraskipan Samfylkingarinnar á þessa leið:

Kristrún Frostadóttir verður forsætisráðherra.

Jóhann Páll Jóhannsson verður umhverfisráðherra.

Logi Már Einarsson verður menningar og nýsköpunarráðherra.

Alma Möller verður heilbrigðisráðherra.

Lítið vitað um ráðherra Flokks fólksins

Ekkert hefur fengist staðfest frá Flokki fólksins um það hverjir verða ráðherrar flokksins. Þó er vitað að flokkurinn mun taka þrjú ráðuneyti.