Mjög lítil virkni er í eldgosinu við Sundhnúksgíga. Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að virkni hafi sést í gærmorgun. Síðan þá hefur skyggni verið mjög lélegt á gosstöðvunum.
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands ætla að setja á loft dróna eftir hádegi til að kanna hvort virkni sé í gígnum.
Jóhanna Malen segir gosið hafa dregist saman undanfarna viku. Ótímabært sé að lýsa yfir endalokum eldgossins áður en myndir úr drónafluginu berast.
Mynd frá Grindavíkurvegi sem tekin var á öðrum degi eldgossins.RÚV / Ragnar Visage