Svona voru kappræður leiðtoganna ellefu
Hróshringur í blálokin
Til að ljúka kvöldinu á léttum nótum efndu þáttastjórnendur til hróshrings. Til þess að sýna áhorfendum að þrátt fyrir allt væru þátttakendur hið vænsta fólk. Hróshringinn byrjaði Arnar Þór Jónsson sem fékk það verkefni að hrósa Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Svo gekk svo hróshringurinn koll af kolli. Öll höfðu þau eitthvað jákvætt og uppbyggjandi að segja hvort um annað.
Við látum nú staðar numið með þessa fréttavakt. Við þökkum samfylgdina, en frekar verður fjallað um kappræðurnar í miðlum fréttastofu RÚV.
Biðlistar og aðbúnaður heilbrigðisstarfsfólks
Nú eru það heilbrigðismálin.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að ráðast þurfi í þjóðarátak í heilbrigðismálum og búa betur að heilbrigðisstarfsfólki. Útrýma þurfi biðlistum og taka utan um geðheilsumálin.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að klára þurfi að reisa Landspítalann og fjölga hjúkrunarheimilum. Hvetja þurfi ungt fólk til að mennta sig í heilbrigðisgreinum. Þá nefndi hann að margt hálaunað heilbrigðisstarfsfólk greiði háan tekjuskatt og því ætti að hækka þrepamörk tekjuskatts á Íslandi. „Þannig að við séum ekki með lækna í verkfalli.“
Þetta er í annað sinn í kvöld sem Bjarni tiltekur verkfall lækna sérstaklega og setur í samhengi við háan tekjuskatt á Íslandi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að mest áhersla sé lögð á líðan ungs fólk. „Við sjáum að börnunum okkar líður verr, þau eru meira kvíðin. Við erum að horfa upp á sorglega atburði í samfélaginu okkar,“ segir hún en nefnir jafnframt að stytta þurfi biðtíma á bráðamóttöku og fjölga hjúkrunarrýmum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að gera þurfi það eftirsóknarvert að vinna í heilbrigðisgeiranum. „Svo vil ég taka undir með Þorgerði með geðheilbrigðismálin.“
Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar, segir mikilvægast í heilbrigðsmálum að gera upp covid-faraldurinn.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, nefnir fjölbreytta þjónustu fyrir aldrað fólk, félagsþjónustu og heimahjúkrun. „Gamalt fólk er ekki málaflokkur. Það er bara fólk.“
Þá þurfi að ryðja úr vegi kerfisbundnum hindrunum sem komi í veg fyrir að ungt fólk sem er að læra heilbrigðisvísindi flytji heim.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, vísar í áætlun Samfylkingarinnar um “fimm þjóðarmarkmið“. Hún segir Samfylkinguna leggja áherslu á að allir landsmenn yfir 55 ára aldri fái fastan heimilislækni. „Það mun taka tíma. Við vitum að það þarf að fjárfesta í sérnámi í heimilislækningum.“ Þetta komi til að mynda í veg fyrir að fólk þurfi að bíða að óþörfu á bráðamóttöku. Þá eru áætlanir um að bæta kjör heilbrigðisstarfsfólks.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að hækka þurfi laun lækna og koma þurfi betur fram við heilbrigðisstarfsfólk sem sé oft komið fram við af vanþekkingu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að kerfið virki ekki og það þurfi að laga kerfið sjálft. Hann vísaði í orð Birgir Jakobssonar, fyrrverandi landlæknis, sem sagði að endalaust mætti bæta fé í heilbrigðiskerfið, en ef kerfið sjálft væri ekki lagað þá skipti það engu máli. Til að mynda ætti að leyfa læknum að framkvæma aðgerðir hér á landi, sem Sjúkratryggingar hafa hingað til ekki viljað niðurgreiða á Íslandi, með þeim afleiðingum að fólki er flogið til útlanda í miklu dýrari aðgerðir.
Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, sker sig úr. Hann nefnir fyrst að bætt lýðheilsa byggist á því að hver og einn taki ábyrgð á eigin heilsu. „Skilvirkasti þáttur íslenska heilbrigðiskerfisins eru sundlaugarnar, íþróttafélögin, okkar ferska loft og hreina náttúra“.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, segir að hlusta þurfi á áherslur heilbrigðisstarfsfólks. „Það verður að vera þannig að þegar þú þarft aðstoð þá séu dyrnar opnar.“ Hún nefnir að sum þjónusta sé til dæmis ekki í boði á kvöldin og um helgar, sem sé fáránlegt.
Þórhildur Sunna um ferðaþjónustuna: „Mér finnst að við ættum að velta fyrir okkur hvað getum við tekið á móti mörgum“
Sigurður Ingi var síðastur til að bera upp spurningu og sagðist hafa lent í valkvíða með hvern hann ætti að spyrja. Hann beindi þó orðum sínum að Þórhildi Sunnu og innti eftir stefnu Pírata um ferðaþjónustu.
Hún svaraði því til að stefna Pírata væri að koma þyrfti upp sjálfbærri ferðaþjónustu hér á landi. Ferðaþjónustan tæki mikið pláss og valdi miklu álagi á innviði án þess að greiða til baka í samræmi við það.
Á einhverjum tímapunkti verði samfélagið að taka á móti svo mörgum ferðamönnum að það hætti að græða á því.
„Mér finnst að við ættum að velta fyrir okkur hvað getum við tekið á móti mörgum.“
Hún sé ekki á móti fyrirtækjum í ferðamannaiðnaði. „Bara alls ekki.“
En hins vegar þurfi að verja landið ágangi og standa vörð um innviðina.
Arnar Þór um þungunarrof: „Ég treysti konum fyrir þessum erfiðu ákvörðunum“
Þorgerður Katrín spurði Arnar Þór út í þungunarrof. Hún rifjaði upp ummæli Arnars Þórs um að lög hér á landi um þungunarrof gengju of langt og spurði svo hvort hann myndi, ef hann næði kjöri, vinna að því að breyta lögum og ganga þannig að rétti kvenna.
Arnar sagðist ekki kannast við að hafa sagt að núgildandi löggjöf gengi of langt.
„Ég sagði bara að ég treysti fólki til að taka þær ákvarðanir sem þarf að taka. Ég treysti konum fyrir þessum erfiðu ákvörðunum. Ég sagði líka: Ég ber virðingu fyrir lífinu. Ég tel lífið svo dýrmætt að við getum ekki, sem löggjafi, farið að ganga svo langt að færa þessi tímamörk að fæðingu eins og fyrrverandi forsætisráðherra talaði fyrir.“
Hann telji lögin í núverandi mynd ásættanleg. Honum dytti ekki í hug að breyta þeim.
Kristrún: „Við erum ekki að fara að breyta hlutunum, kviss bamm búmm!“
Bjarni spurði Kristrúnu út í ríkisfjármál og skatta. Samfylkingin hafi sagst ætla að gera átak í heilbrigðismálum, innviðafjárfestingum og „eitthvað sem heitir örugg afkoma“ sem nemi 100 milljörðum á ári í ný útgjöld. Það eigi að fjármagna með auknum tekjum eins og sköttum sem nemi um 20 milljörðum.
„Hvaðan á restin að koma, þessir 80 milljarðar sem vantar á að fjármagna nýja 100 milljarða á útgjaldahliðinni?“ spurði Bjarni.
Kristrún svaraði því til að stór hluti af tillögunum sé til þess fallinn að draga úr sóun og auka verðmætasköpun á Íslandi.
Hún sagði mikla sóun hjá hinu opinbera.
„Vegna þess að þið haldið því fram að þið getið bæði lækkað skatta skorið niður þjónustu og haldið vöxtum og verðbólgu í skefjum.“
Þessi hagstjórn hafi ekki gengið upp. Samfylkingin vilji afla tekna með sanngjörnum hætti. Almenningur vilji fyrirsjáanleika næstu tvö kjörtímabil.
„Við erum ekki að fara að breyta hlutunum, kviss bamm búmm!“ sagði hún, heldur þurfi að byrja á því að fjárfesta í kerfunum og draga úr rekstrarkostnaði.
„Við erum búin að reikna þetta upp á punkt og prik,“ sagði hún. Ólíkt Sjálfstæðisflokknum.
„Það eru engin plön. Bara slagorð og frasar!“
Inga spurði Sigurð Inga um málefni barna
Sigurður Ingi fékk líka næstu spurningu, nú frá Ingu Sæland. Hún spurði út í fátækt barna sem hafi aukist síðustu ár, líkt og læsisvandi drengja og mikil bið eftir heilbrigðisþjónustu fyrir börn.
„Nú segir þú að þetta sé allt að koma. Hvering í ósköpunum eiga kjósendur að geta treyst Framsóknarflokknum sem í rauninni er búinn að vera með allt á hælunum í málaflokknum síðustu ár?“
Sigurður Ingi sér stöðuna skiljanlega öðrum augum og segir að þetta sé ekki allt rétt hjá Ingu. Ýmsir vísar um velsæld komi vel út og margt jákvætt sé í gangi í málefnum barna.
Kerfin eigi að taka um barnið í stað þess að fjölskyldur þurfi að leita í mörg kerfi. Þetta sé verkefni sem sé enn í innleiðingu og mælist vel fyrir meðal þeirra sem hafa kynnst því.
„Takk fyrir ekkert. Ég veit ekkert hvað þú ert að tala um,“ skaut Inga þá inn.
Sigurður Ingi segir Framsókn ekki hafa brugðist í húsnæðismálum
Eftir hressilega rimmu í útlendingamálum var komið að seinni lotu spurninga milli þáttakendanna.
Sanna beindi spurningu að Sigurði Inga, en skaut fyrst inn: „Hvar var þessi rödd í ríkisstjórn síðustu ár“ og átti þar við eldræðu hans um útlendingamálin.
Spurningin hennar var hins vegar um húsnæðismál, sem Framsóknarflokkurinn hafi lengst af stjórnað síðustu tæp 30 ár.
„Hvernig líður þér með það, Sigurður Ingi, að Framsókn hafi brugðist í húsnæðismálum? Að húsnæðisráðherra hafi ekki staðið undir þessari ábyrgð.“
Sigurður sagði Framsókn ekki hafa brugðist.
„Húsnæðisstefnan okkar, sú fyrsta sem lögð hefur verið fram á þinginu, er svo góð að Samfylkingin er búin að finna upp á henni og gert að sinni.“
Hann sagði að mikil uppbygging væri á húsnæði og ef fram fari sem horfi, að fólkflutningar til landsins drægjust saman, myndi brátt nást jafnvægi.
Hreint sakarvottorð frá stríðshrjáðum löndum
Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar, segir að athuga þurfi hvort fólk er með hreint sakarvottorð áður en það kemur til landsins. Þá segir hann að þegar tekið er við mörgu fólki séu stjórnmálamenn í raun að gefa almannafé.
Sigurður Ingi hvass – Framsókn er flokkur mannúðar
Það kveður við nýjan tón hjá Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins.
Í eldræðu, sem hann flutti og hafði ljóslega símann sinn til hliðsjónar, sagði Sigurður Ingi að í nokkurn tíma hefði verið augljóst að Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins og Samfylkingin væru hörð í útlendingamálum.
„Og eigum við bara að láta eins og útlendingamál séu eitthvað stórkostlegt vandamál á Íslandi, þegar kostnaðurinn er eitt prósent af útgjöldum ríkisins og fer hratt lækkandi? Hvert er vandamálið?“
Hann segir að ef vandamálið sé að fólk tali ekki íslensku, þá þurfi að kenna íslensku. Hann sagði það virðingarleysi sem erlendu fólki á Íslandi væri sýnt vera fyrir neðan virðingu íslensku þjóðarinnar. Þá segist Sigurður Ingi skammast sín fyrir það hvernig íslensk stjórnvöld lokuðu landamærum fyrir gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni. „Ætlum við að láta söguna fara þeim orðum um okkur í dag?“
Sigurður Ingi sagði að í salnum væri fólk sem virtist hræddara við erlendan dreng í hjólastól en erlendan auðkýfing sem flýgur um á einkaþotu og kaupir upp jarðir og veiðiréttindi.
Hann klykkir út með þessu: „Ég ætla að segja að Framsókn er flokkur mannúðar og mannvirðingar. Ef við töpum fylgi á því þá verður svo að vera. Ég ætla að láta dæma mig í sögunni eftir því.“
Hrært í potti vanþekkingar, segir Þorgerður
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er ekki jafnafdráttarlaus og Sigmundur og Bjarni.
Hún segir að taka þurfi vel á móti fólki. Inngildingin hafi alveg klikkað. „Það er verið að hræra í potti vanþekkingar, andúðar og tortryggni og ég vara við því.“
Þrátt fyrir það sé hægt að tala fyrir skýrri strangri löggjöf í útlendingamálum. Hún bendir á að Viðreisn hafi greitt atkvæði með breytingum á útlendingalögum sem voru samþykktar á síðasta þingi.
Bjarni: „Það eiga ekki að vera séríslenskar reglur“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir ekkert ríki Evrópu geta leyst flóttamannavandann. Hann segir að Svíar hafi gert reginmistök á sínum tíma þegar þeir héldu að þeir gætu með mannúð og gæsku aðlagað fólk að samfélaginu. „Það klúðraðist gjörsamlega.“
Hann segir að nú sé verið að skella í lás um alla Evrópu. Á Íslandi þurfi að herða eftirlit á landamærum; þeir sem brjóta lög þurfi að fara og brottfararúrræði þurfi að vera til staðar.
Með brottfararúrræðum vísar Bjarni til lokuðu búsetuúræðanna sem Inga nefndi. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hafði einmitt boðað frumvarp þess efnis á kjörtímabilinu áður en ríkisstjórnin sprakk.
„Það eiga ekki að vera séríslenskar reglur sem laða hingað fleira fólk hlutfallslega en er að koma annars staðar.“
Flokkur fólksins vill lokuð búsetuúrræði
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, nefnir lokuð búsetuúrræði sem hafa verið nokkuð til umræðu.
Það eru lokaðar búðir þar sem fólki, sem hefur fengið synjun um alþjóðlega vernd, er haldið þar til því er vísað úr landi. Inga vísar í svar við fyrirspurn hennar á þingi í fyrra þar sem fram kom að 169 manns væru týndir á Íslandi, þ.e. fólk sem átti að vísa úr landi en enginn veit hvar eru niðurkomnir.
Lokuðu búsetuúrræðin voru meðal ágreiningsefna Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í síðustu ríkisstjórn. Sjálfstæðismenn vildu taka þau upp, en Vinstri græn lögðust gegn því.
Hún segir að alls konar „óæskilegir einstaklingar“ séu farnir að sækja til landsins og stemma þurfi stigu við því. Enginn eigi að koma hingað til lands án vegabréfs nema hann sé að flýja stríðshrjáð land.
Sanna segir að hælisleitendum og fátækum sé att saman
Sanna Magdalena Mörtudóttir er sammála þeim Arnari og Sigmundi um að stjórnvöld hafi brugðist – en á allt öðrum forsendum.
„Það er verið að leitast við að draga upp mynd af þeim sem sækja um alþjóðlega vernd sem hættulegum óvini,“ segir Sanna. Hún segir að öryrkjum og fátæku fólki sé stillt upp andspænis hælisleitendum til að breiða yfir úrræðaleysi stjórnvalda.
Arnar segir hælisleitendakerfið hafa brugðist
Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, segir blasa við að hælisleitendakerfið sé brotið og hafi verið misnotað. Setja þurfi lágmarksreglur um að enginn komi til Íslands án vegabréfsáritunar.
„Ef við getum ekki hýst heimilislausar konur og fíkniefnasjúklinga, fyrir hvern eru stjórnvöld þá að vinna?“
„Eigum við að hjálpa Rússum að tæma Úkraínu?“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur gjarnan vísað til fyrirmynda frá Danmörku í málefnum hælisleitenda og hann heldur sig við það hér. Hann vísar í orð Mette Frederiksen, formanns danska jafnaðarmannaflokksins, um að enginn hælisleitandi eigi að koma til Danmerkur og aðeins sé tekið á móti kvótaflóttamönnum. Hann vill að sú stefna verði innleidd hér á landi.
Flestir þeir flóttamenn sem hafa komið til lands síðustu tvö ár eru frá Úkraínu. Sigmundur er spurður hvort hann vilji hætta að fá þá til landsins.
Sigmundur segir að víglínan í stríðinu í Úkraínu hafi staðið í stað í næstum tvö ár. „Eigum við að hjálpa Rússum að tæma Úkraínu? Ég held að það sé ekki æskilegt fyrir framtíð þess lands.“
Skiptar skoðanir í útlendingamálum
Nú er umræðan komin að útlendingamálum.
Svandís Svavarsdóttir segir samfélagsbreytingar, sem hafa orðið á heimsvísu, komnar til að vera. „Við verðum að taka þátt í því að taka á móti fólki og gera það vel. Á sama tíma verðum við að horfast í augu við það að með auknum fjölbreytileika verðum við að leggja aukna áherslu á inngildingu.“
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ríkisstjórnina hafa misst stjórn á útlendingamálum. Hlutfall fólks af erlendum uppruna hefur tvöfaldast, úr 10% í næstum 20%. „Þegar hlutirnir gerast svona hratt er ekkert óeðlilegt að fólk spyrji hvað er í gangi.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, bendir á að hælisleitendur séu um 1,5% af íbúafjölda Íslands, en útlendingar í heild um 18%. „Hér hafa margir látið eins og þetta 1,5 prósent sé að ganga af öllum okkar innviðum dauðum. Það skapar áhyggjur og ótta,“ segir hún. Það sé fölsk mynd.
Hvað klikkaði?
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, spyr Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, hvernig standi á því að ekki hafi verið hafist handa við neina nýja virkjun yfir 10 MW og engin ný jarðgöng í tíð ríkisstjórnarinnar. „Hvað klikkaði?“ spyr Kristrún.
Sigurður Ingi nefnir að hér áður fyrr hafi menn ákvarðanir um jarðgangagerð oft verið skyndiákvarðanir. Það eigi til að mynda við um Vaðlaheiðargöng sem hafi verið ákveðin í þinginu. Nú sé meiri vinna að baki ákvarðanatökunni. Hann nefir að Fjarðarheiðargöng, sem eru næstu göng á dagskrá, séu stórframkvæmd og kosti um 50 milljarða.
„En ef eitthvað er gott við að vera ekki í jarðgöngum, þá er það að við höfum haft 4-5 milljarða [á ári] í að byggja upp vegina.“
Þá segir hann að stórar virkjanir séu á áætlun og nefnir Búrfellslund 2026, stækkun á Sigölduvirkjun 2027, breytingar á Þeistareykjavirkjun 2028 og Hvammsvirkjun 2029.
„Þannig að framkvæmdastopp er rangt en við erum búin að leggja talsverðan tíma í undirbúning, sem stjórnmálamenn fortíðarinnar gleymdu.“
Viðreisn vill aukið valfrelsi í grunnskólakerfinu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að einkareknir skólar eigi að vera settir jafnsettir öðrum skólum. Rekstrarform skóla skipti ekki máli, heldur sú þjónusta sem er veitt og aukið valfrelsi sé af hinu góða.
Þetta sagði Þorgerður þegar Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði hana hvort Viðreisn myndi beita sér fyrir auknum einkarekstri í grunnskólakerfinu.
„Það skiptir máli með hverjum maður stjórnar“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, spyr Svandísi Svavarsdóttur, formann Vinstri grænna, hvers vegna kjósendur ættu að treysta Vinstri grænum fyrir aðgerðum umhverfismálum. „Þið hafið haft sjö ár til að sýna hvar þið standið.“
„Vegna þess að það skiptir máli með hverjum maður stjórnar,“ segir Svandís og snýr þar upp á gamalt slagorð flokksins. Hún segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með síðustu loftslagsáætlun sem Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra lagði fram.
„Það er vonbrigði hve hægt hefur gengið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Svandís. En hún segist hafa trú á því að það gangi eftir ef flokkurinn tekur höndum saman með þeim flokkum sem hafa „loftslagsmál í alvörunni á dagskrá“.
Bjarni vill mið-hægri stjórn og lítur til Viðreisnar
Nú er komið að sílgildum lið í leiðtogaumræðum, þar sem formönnunum gefst kostur á að spyrja aðra formenn spurninga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, viðurkennir að hann hafi nú misst af tölvupóstinum þar sem þetta fyrirkomulag var tilkynnt.
En hann er ekki lengi að upphugsa spurningu á staðnum og spyr Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hvort hann sé spenntur fyrir því að mynda ríkisstjórn með Samfylkingu og Viðreisn. Sigmundur segir að slík stjórn gæti hækkað skatta og sótt um aðild að Evrópusambandinu
Bjarni svarar því til að hann hafi enga sannfæringu á ríkisstjórn sem myndi beita sér fyrir skattahækkunum og inngöngu í Evrópusambandið.
„Ég tel að það þurfi borgaralega ríkisstjórn mið- og hægriflokka og ég útiloka ekki að við Þorgerður getum náð saman, sem vorum ágætis félagar hér áður fyrr“ segir Bjarni og snýr sér að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar sem var eitt sinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
„Það er af því að þessir gaurar hér, þeir tóku ekki vanda almenns fólks alvarlega.“
Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar, sagði í umræðu um rekstur ríkissjóðs og hvernig ætti að ná þar jafnvægi, að stjórnmálamenn ættu að fara betur með almannafé og hætta ætti við margar stórar framkvæmdir eins og Borgarlínu.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, leiðtogi Sósíalista, sagði að nýfrjálshyggjan skini í gegn í hugmyndum um niðurskurð og skattalækkanir. Með lækkun skatta á fyrirtæki og hin efnameiri síðustu ár hafi kostað ríkissjóð milljarða í tekjutap, sem þurfi að vinda ofanaf.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, talaði um að láta þá sem eigi „fullar hirslur fjár“ leggja eitthvað til samfélagsins, meðal annars með hækkun bankaskatts.
„Og það er lágmark líka að stórútgerðin taki meiri þátt í að styrkja samfélagið.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að Covid-tímabilið hafi verið góð lexía í ríkisfjármálum.
„Skoðum hvað gerðist. 20 þúsund störf á einkamarkaði hurfu og ríkissjóður fór samstundis í 200 milljarða halla. Hver er lærdómurinn? Ef við sköpum störf í landinu, og það er verið að hvetja, örva, skapa, þá mun ríkissjóður njóta góðs af.“
Í framtíðinni ætti að örva hagkerfið til hagvaxtar.
Bjarni sagði aðra flokka boða „skelfilega framtíðarsýn“ með hækkun skatta. Fólkið í landinu muni auðvitað finna fyrir slíkum aðgerðum.
„Skattar eru frekar háir ef eitthvað er og við eigum frekar að finna leiðir til að lækka þá.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að tími væri til kominn að taka á ríkisfjármálum af alvöru. Vissulega hafi Ísland lent í Covid, en það gerðu fleiri og náðu að vinna niður verðbólgu á einu ári.
„Það er af því að þessir gaurar hér (bendir á Sigurð Inga og Bjarna sitthvorum megin við sig) þeir tóku ekki vanda almenns fólks alvarlega.“
Hún sagði að Viðreisn myndi ekki hækka skatta á almenna borgara. Frekar væri hægt að horfa á sóun í kerfinu og aga í opinberum verkefnum. Þá ætti að einfalda ríkisrekstur og skoða sölu á ríkiseignum, til dæmis Íslandsbanka. Þannig mætti greiða niður skuldir ríkissjóðs þannig að hægt væri að fara í önnur þörf verkefni.
Þar skaut Inga Sæland inn: „Þið ætlið að einkavæða þetta allt saman!“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi hugmyndir um skatta á fyrirtæki og fjármagn og sagði að það myndi koma niður á almenningi.
Hann sagði að ríkisfjármálin hafi fengið á sig mikil áföll með Covid, stríði í Evrópu, eldgosum og rýmningu Grindavíkur, þar sem 1% þjóðarinnar lenti á vergangi.
„Hvernig er staðan? Hún er bara býsna góð.“ Sigurður Ingi benti á að Ísland væri á réttri leið með ábyrgri stjórn ríkisfjármála.
Viðreisn vill aukið valfrelsi í skólakerfinu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að einkareknir skólar eigi að vera settir jafnsettir öðrum skólum. Rekstrarform skóla skipti ekki máli, heldur sú þjónusta sem er veitt og aukið valfrelsi sé af hinu góða.
Þetta sagði Þorgerður þegar Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði hana hvort Viðreisn myndi beita sér fyrir auknum einkarekstri í grunnskólakerfinu.
Vilja styrkja innviði en sækja tekjur í ferðaþjónustu, fjármagn og eflt skattaeftirlit
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagðist, aðspurð um ríkisreksturinn í heild, ekki ætla að gera svo frökk að leggja til að henda út heilu málflokkunum, en mikið mætti fá með því að ráðast í stafræna umbreytingu hjá hinu opinbera og með því að hætta skattaívilnunum fyrir ferðaþjónustuna.
„Af hverju er til dæmis ekki virðisaukaskattur á rútuferðum á Íslandi?“
Ferðaþjónustan reyni mikið á innviði landsins og tími kominn til að sækja þangað innviðagjöld. „Við erum komin að því bráðum að geta sagt að Ísland sé uppselt fyrir ferðamönnum.“
Heilbrigðisþjónusta hafi verið fjársvelt lengi en það beri mikinn kostnað í sjálfu sér.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin öll hafi misst stjórn á efnahagsmálunum.
„Fólkið í landinu finnur þetta einfaldlega. Það finnur það á vöxtunum sem hafa verið hærri en níu prósent í ár. Það finnur það á verðbólgu sem er búin að vera yfir markmiðum allt kjörtímabilið.“
Fólk finndi það líka á þeim 40 milljörðum sem almenningur hafi þurft að greiða aukalega í vexti „út af þessari óstjórn“.
Styrkja þurfi innviði til að spara í rekstri hins opinberra, sem og að afla tekna.
„Ég vil vera alveg skýr. Samfylkingin ætlar ekki að hækka skatta á vinnandi fólk í landinu. Það kemur ekki til greina.“
Þau ætli í „fjármagn, auðlindir og skattaglufur“.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagðist ekki ætla að fallast á hugmyndir um niðurskurðarstefnu, sem væri hörð hægri stefna.
Þörf væri á að passa upp á almannaþjónustu, opinbert heilbrigðiskerfi, menntakerfið og félagsþjónustuna.
„Það liggja í loftinu hugmyndir um einkavæðingu á þessum sviðum. Hægrið er að búa sig undir að skera þetta niður og til þess að hægt sé að gera þetta að enn einum fjárfestingarkostinum.“
Þess í stað vilja Vinstri græn horfa til tekjuöflunar. Skattsvik og skattaeftirlit gæti skilað gríðarlegum fjárhæðum sem og í þrepaskiptingum skattkerfisins.
VG vill hækka fjármagnstekjuskatt, veiðigjald og skatt á ferðaþjónustu
Ég skil ekki að það sé eitthvert feimnismál að það þurfi að sækja aukið fjármagn til þeirra sem eiga miklu meira en þeir þurfa,“ segir Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna þegar hún er spurð út í áformaðar skattahækkanir flokksins.
Vinstri græn vilja þrepaskipta fjármagnstekjuskatti. Skatturinn er nú 22% á allar fjármagnstekjur, en áætlanir VG gera ráð fyrir að skattprósentan yrði hærri fyrir þá sem hafa hærri fjármagnstekjur.
Þá vill hún hækka veiðigjald og taka upp aukin gjöld á ferðaþjónustu.
Hún furðar sig á málflutningi „hægriflokkanna“ í salnum. „Þetta andrúmsloft í kringum það að skattar séu einhvers konar glæpastarfsemi.“
Ríkið orðið „marghöfða skrímsli“ sem liggi eins og ormur á gulli
Næst beindu Jóhanna Vigdís og Baldvin sjónum að ríkisfjármálunum og ríkisrekstri. Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár hljóðar upp á 1.500 milljarða og halla á rekstri ríkissjóðs. Engu að síður séu margir málaflokkar sem kalli á aukið fjármagn.
Frambjóðendur eru spurðir hvernig þau hyggist reka ríkissjóð næstu fjögur árin í þeirri stöðu sem nú er.
Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, sagði að þarna væri grundvallaratriði. Ríkið væri orðið marghöfða skrímsli sem liggi eins og ormur á gulli og heimti fé af landsmönnum. Það þurfi að snúa við blaðinu og draga úr útgjöldum ríkisins. Ef fólk vilji breytingar þurfi að kjósa breytingar.
Aðspurður um hversu mikið þyrfti að skera niður í ríkisrekstri sagði Arnar: „Ég myndi segja að það væri verðugt og raunhæft markmið að skera ríkið auðveldlega niður um 20%.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að aðalatriðið væri að ný ríkisstjórn sendi út þau skýr skilaboð „að hún muni hafa þetta í lagi“ og muni reka ríkið hallalaust. „Þá munu vextirnir falla eins og steinn.“
Hægt væri að skera niður víða eftir útgjaldaaukningu síðustu ríkisstjórnar.
„Ef ég á að nefna einhver dæmi, þá henda út þessari Borgaralínu.“
Þá mætti skera niður í loftslagsmálum, útlendingamálum, utanríkismálum og losna við sóun í kerfinu.
Hvaða máli skiptir það hvernig verðbólga er mæld?
Af umræðunum er ljóst að mæling verðbólgu skiptir forystumenn flokkanna miklu máli. Margir tala fyrir því að undanskilja eigi húsnæðiskostnað í mælingu verðbólgunnar.
Húsnæði hefur á síðustu árum hækkað mun hraðar en almennt verðlag og af þeim sökum er verðbólgan meiri en hún væri ef húsnæði væri undanskilið. Í nýjustu mælingu Hagstofunnar kom fram að ársverðbólga er 5,4%, en ef húsnæði er undanskilið er verðbólgan aðeins 2,8%.
En hvaða þýðingu hefði það að mæla hlutina öðruvísi? Húsnæði myndi hækka í verði eftir sem áður.
Önnur mæling á verðbólgu gæti haft áhrif á stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans. Lögum samkvæmt á Seðlabankinn að vinna að verðbólgumarkmiði, sem er 2,5%.
Þegar verðbólgan er yfir þeim mörkum – sem er næstum alltaf – er stýrivöxtum haldið uppi til að draga úr þrýstingi í hagkerfinu. Ef Seðlabankanum væri fyrirskipað að miða við verðbólguna eins og hún er án húsnæðisliðar, gæti þetta þýtt að bankinn myndi lækka stýrivexti. Það er þó engin töfralausn.
Á móti gæti slíkt aukið þrýsting í hagkerfinu og orðið til þess að hækka húsnæðiskostnað enn meira, sem myndi þó ekki birtast í verðbólgutölum.
Bjarni: Á réttri leið
„Við erum á réttri leið,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Hann segir að spár um verðbólgu og vexti séu miklu betri en aðeins fyrir nokkrum mánuðum. Aðhald í ríkisrekstri leiki þar stórt hlutverk.
„Ég tel að við þurfum að fara dýpra í athugun á því hvort Seðlabankinn eigi að fylgja verðbólgumarkmiði sem taki mið af húsnæðislið eða ekki,“ segir Bjarni.
Þak á stýrivexti eða breytt mæling verðbólgu?
Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, vill þak á stýrivexti. Þannig verði áfalli af verðbólguskotum látið „jafnt yfir lántaka og lánveitendur ganga“.
Eins vill hann taka húsnæðislið út úr verðbólgumælingum. Hann segir það munu hafa stórkostleg áhrif á lántakendur.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er sammála því og bendir á að Flokkur fólksins hafi í sex ár barist fyrir því að húsnæðisliður verði tekinn út úr verðbólgu.
Sósíalistar segja að reka þurfi ríkissjóð í jafnvægi og hækka skatta á þá tekju- og eignahæstu. „Hið opinbera verður að koma að húsnæðisuppbyggingu til að lækka húsnæðisverð til framtíðar,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista.
„Þegar ég og þessi gæi þarna vorum í ríkisstjórn“
Verðbólgan er á niðurleið og mælist nú 5,4%. Hún er engu að síður langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans og hefur verið há síðustu ár með tilheyrandi stýrivaxtahækkunum.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, gefur í skyn að hækka þurfi skatta og „takast á við samþjöppun auðs“.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að hafa ýtt undir verðbólguna með meðferð fjár. Hún segir að draga þurfi úr sóun hjá hinu opinbera, en einnig afla tekna og ráðast í bráðaaðgerðir í húsnæðismálum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að böndum verði ekki komið á ríkisrekstur með skattahækkunum. Það dugi aðeins að draga úr útgjöldum ríkisins og reka ríkið hallalaust. „Þegar ég og þessi gæi þarna vorum í ríkisstjórn kynntum við fyrstu fjárlög ríkisstjórnar sem gengu út á að lækka skatta,“ segir Sigmundur og bendir á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Þar vísar hann til ríkisstjórnarinnar sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu eftir kosningarnar 2013.
Píratar vilja aftur á móti hækka fjármagnstekjuskatt og slá á þensluna sem fylgir ferðaþjónustunni, til dæmis með komugjöldum. Þá segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður flokkins, að flokkurinn vilji fasa út verðtrygginguna. Þetta hefur ekki heyrst áður úr þeim ranni.
Kjósendur leggja mest upp úr vöxtum og húsnæðismálum
Fréttamenn RÚV hittu kjósendur á förnum vegi víða um landið síðustu daga og spurðu út í þau málefni sem helst brunnu á þeim.
Þar kemur vart á óvart að húsnæðismál, vextir og verðbólga voru flestum ofarlega í huga.
Þess utan var t.d. minnst á strandveiðar, geðheilbrigðismál, útlendingamál, innviði og stöðu eldri borgara.
Efnahags- og húsnæðismál mikilvægustu málin, segja flestir
Í upphafi þáttar voru frambjóðendur beðnir um að nefna þau tvö mál sem þeir teldu skipta mestu í þessum kosningum. Efnahagsmál og lækkun vaxta voru það sem flestir nefndu en eitt og annað var þó tínt til.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, nefndi efnahagsmál og húsnæðismál en bætti við að auka þyrfti öryggistilfinning fólks
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, nefndi efnahagslegan stöðugleika og ábyrg ríkisfjármál, og til viðbótar andlega líðan barna.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði helsta málið að ná niður vöxtunum. Það væri langstærsta hagsmunamál fyrir heimilin. Í öðru lagi þyrfti að fjárfesta í framtíðinni með því að huga að menntamálum og húsnæðismalum, fjárfestingu til framtíðar
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, nefndi vaxtalækkanir og heilbrigðismálin.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, leiðtogi Sósíalista, nefndi húsnæðismál og skattamál. Hún sagði mikilvægt að vinda ofan af „ósköpum nýfrjálshyggjunnar“.
Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, talaði um skattalækkanir og vexti og að tryggja þyrfti frið innanlands og frelsi almennings.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði Ísland ekki virka sem skyldi. Taka þurfi á rekstri ríkisins og útlendingamálum. „Með því að ná tökum á þeim málaflokkum sem hafa áhrif á allt hitt þá getum við leyst þetta.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði að frjálst og öruggt samfélag þar sem fólk hefur öruggt þak yfir höfuðið væri baráttumál Pírata. Samfélag þar sem boðið er upp á grunnaðgang að öryggisneti, heilbrigðisþjónustu og menntun.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði fólk vilja ríkisstjórn sem hefur plan og fyrirsjáanleika. Aðalatriði séu lækkun vaxta og heilbrigðismál.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði raunverulega hættu á hægri stjórn þar sem almannaþjónustunni er ógnað og kvenfrelsi býr við bakslag. „Við í VG erum fyrst og fremst að hugsa um það.“
Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar, ræðir um Covid. Hann segir að öll þau helstu vandamál sem aðrir formenn nefndu hér í kvöld megi í raun rekja til faraldursins, þess fé sem tapaðist vegna sóttvarnaaðgerða og eftirköst bólusetninga.
Umræðurnar hafnar – Táknmálstúlkun á RÚV2
Leiðtogaumræðurnar eru nú hafnar í sjónvarpssal. Þar eru saman komnir leiðtogar hinna ellefu framboða sem skiluðu inn listum til landskjörstjórnar.
Vert er að geta þess að þátturinn er táknmálstúlkaður á RÚV2.
Eva H. Önnudóttir: Kannanirnar fari að sýna rétta mynd eftir eina eða tvær vikur
Eva H. Önnudóttir stjórnmálafræðingur og Þórhallur Gunnarsson ráðgjafi mættu í Spegilinn í kvöld þar sem þau ræddu stöðuna kosningabaráttunni sem skiptir um gír í kvöld með fyrstu leiðtogaumræðunum í sjónvarpssal.
Freyr Gígja Gunnarsson, fréttamaður og umsjónarmaður Spegilsins, hóf spjallið með fótboltalíkingu. Nú væri undirbúningstímabilinu að ljúka og alvaran að taka við.
Eva sagði að það væri ekki galin samlíking, en líka mætti segja að flokkarnir væru eins og skip sem væru að leggja úr höfn.
Hún minntist á skoðanakönnun Gallup sem gerð voru skil í fréttum í dag en sagði að rannsóknir bentu til þess að nokkuð væri enn í að skoðanakannanir færu að gefa raunsanna mynd af niðurstöðu kosninganna sem fara fram 30. nóvember.
„Ég myndi gefa þessu svona eina til tvær vikur þangað til við værum að fara að sjá kannanir sem myndu nálgast það sem kemur svo upp úr kössunum.“
Hún sagði að síðustu vikur hafi að mestu markast af því að manna lista, en nú gæti farið að bera meira á málefnaumræðu.
Þórhallur tók líkingaboltann á lofti og sagði að í kvöld mætti búast við því að einhverjir leiðtoganna reyndu að halda jöfnu á meðan aðrir myndu leggja allt í sóknina.
Hann sagði að kannanir sýndu að líklega verði fjögurra flokka barátta á toppnum um „Evrópusætin“, en „fallbaráttan“ yrði sjálfsagt ekki síður spennandi þar sem flokkar eru að berjast fyrir tilveru sinni á Alþingi.
„Gefum okkur það að tveir af þessum fjórum á toppnum muni leiða ríkisstjórn þá þurfa þeir einhvern úr botnbaráttunni. Þannig að það skiptir öllu máli að koma þremur til fimm inn að lágmarki.“
Þeir flokkar þurfi að tefla djarft í kosningabaráttunni.
Freyr Gígja spurði út í persónustjórnmál sem hefur verið í umræðunni síðustu vikur þar sem valinkunnir einstaklingar hafa komið inn á lista flokkanna án teljandi stjórnmálareynslu.
Eva hefur skoðað það málefni í þaula, en sagði að rannsóknir hennar og annarra sýni að persónustjórnmál hafi ekki bein kerfisbundin áhrif á fylgi flokka eða úrslit kosninga.
„En við sjáum í kosningabaráttu og kosningaherferðum, þá er komin miklu meiri áhersla á formenn og leiðtoga flokkanna eða einstaka frambjóðendur.“
Persónur stjórnmálafólks skipti miklu máli en málefnin sjálf skipti kjósendur miklu meira máli en vinsældir leiðtoga.
Samfylkingin stærst í fjórum kjördæmum
Meðan við bíðum eftir að leiðtogaumræðurnar hefjist, er ekki úr vegi að rýna nánar í þjóðarpúls Gallup sem fréttastofa birti fyrr í kvöld. Þar er eitt og annað áhugavert.
Meðal annars það að Samfylkingin mælist stærst flokka í fjórum kjördæmum: báðum Reykjavíkurkjördæmunum, Norðausturkjördæmi og Suðvesturkjördæmi.
Suðvesturkjördæmi (Kraginn) inniheldur öll nágrannasveitarfélög Reykjavíkur og hefur jafnan verið sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins. Það er kjördæmi formannsins, Bjarna Benediktssonar.
Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 30,2% atkvæða í kjördæminu. Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi er fylgi flokksins 20,8% í kjördæminu og yrði hann næststærstur flokka. Samfylkingin mælist með 24,1% fylgi í Suðvesturkjördæmi.
Allt að verða klárt
Í Útvarpshúsinu hér í Efstaleiti er allt að verða klárt fyrir umræður kvöldsins. Leiðtogarnir eru hver af öðrum að koma sér fyrir í sminkstólnum enda veitir ekki af. Þeir verða í sviðsljósinu í kvöld.
Sósíalistar mælast inni í einu kjördæmi
Í nýjum þjóðarpúlsi vekur það athygli að Sósíalistaflokkurinn mælist með einn mann á þingi, en fylgi flokksins á landsvísu er 4,5%.
Gjarnan er talað um fimm prósenta þröskuldinn og margir kunna að standa í þeirri trú að til þess að ná manni kjörinn á þing þurfi flokkur að fá að lágmarki fimm prósent á landsvísu.
Það er þó ekki nauðsynlegt.
Fimm prósenta þröskuldurinn á aðeins við um jöfnunarþingsæti. Til þess að koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta þarf flokkur að fá fimm prósent atkvæða á landsvísu.
Hins vegar getur flokkur tryggt sér kjördæmakjörna þingmenn í tilteknu kjördæmi, ef fylgi hans er sérlega hátt þar.
Þetta á við um Sósíalistaflokkinn sem mælist með 7,5% fylgi í Reykjavíkurkjördæmi suður, kjördæmi Sönnu Magdalena Mörtudóttur. Það er langt umfram fylgi flokksins í flestum öðrum kjördæmum. Samkvæmt þessari könnun dygði það til þess að Sósíalistar fengju einn kjördæmakjörinn þingmann. Þetta yrði í fyrsta sinn sem flokkur nær kjöri til þings án þess að ná fimm prósenta fylgi.
Það er þó vert að taka fylgiskönnunum í einstökum kjördæmum með nokkrum fyrirvara. Þar sem svarendur í hverju kjördæmi eru talsvert færri en á landsvísu, er óvissan þeim mun meiri.
Samfylkingin dalar en Sjálfstæðisflokkur bætir við sig
Það hefur nóg um skoðanakannanir síðustu daga.
Allar sýna þær að Samfylkingin nýtur mests stuðnings en þó jafnframt að fylgið hefur dalað lítillega. Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Viðreisn eru á svipuðu reki og mælast með á bilinu 13–16% fylgi eftir könnunum.
Í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup, sem fréttastofa greindi frá fyrr í kvöld, mældist Samfylkingin með 23,8% fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn 17,3%.
Vinstri græn mælast utan þings, rétt eins og í öllum könnunum síðustu vikna. Píratar hafa mælst við fimm prósenta þröskuldinn í síðustu könnunum, en í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup er fylgi flokksins 5,4% og myndi það skila flokknum þremur þingsætum.
Nánari sundurliðun á fylgi eftir kjördæmum má sjá hér:
Leiðtogaumræður í sjónvarpi hefjast kl. 19:40
Gott kvöld og velkomin í beina textalýsingu.
Klukkan 19:40 hefjast í sjónvarpi fyrstu leiðtogaumræðurnar fyrir þingkosningarnar. Þar mæta formenn allra flokka sem bjóða fram í þingkosningunum 30. nóvember.
Tíu flokkar eru í framboði á landsvísu en einn til viðbótar, Ábyrg framtíð, býður aðeins fram í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Þátttakendur í kvöld eru:
- Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar
- Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
- Inga Sæland, formaður Flokks fólksins
- Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista í Reykjavíkurkjördæmi suður
- Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins
- Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins
- Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata
- Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar
- Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna
- Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Baldvin Þór Bergsson stýra umræðunum.
En hér á vefnum eru það Alexander Kristjánsson, Þorgils Jónsson og Valgerður Þorsteinsdóttir sem draga fram það helsta.