Norðurlöndin sýni áfram gott fordæmi
„Óhætt er að segja að Norðurlöndin sýni áfram gott fordæmi,“ sagði Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar um stuðning Norðurlandanna við Úkraínu á blaðamannafundi forsætisráðherra þeirra með Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta.
Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin séu þau sem styðji Úkraínu mest hvað hergögn snerti fyrir utan Bandaríkin.
„Evrópa þarf að auka enn meira pólitískan, hernaðarlegan, efnahagslegan og mannúðartengdan stuðning.“
Zelensky þakkaði Norðurlöndunum fyrir stuðninginn á blaðamannafundinum. Hann sagðist þakklátur íslenskum stjórnvöldum og Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra fyrir skipulagningu fundarins hér á landi „og festu Íslendinga í að fara að alþjóðalögum“.
„Samstarfsríki okkar á Norðurlöndum sýna enn staðfestu sem er ómissandi fyrir alla Evrópu,“ sagði Zelensky.