Athugið að þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul

Samantekt

Ríkisstjórnin sprungin: Bjarni Benediktsson ætlar að biðjast lausnar

Fréttastofa RÚV

,
14. október 2024 kl. 21:28 – uppfært

SilfurKastljósi lokið

Jahérna, þetta var fjörugt eins og búast mátti við! Hér er hægt að horfa á Silfrið í heild.

Þetta er það sem stendur upp úr eftir tæplega eins og hálfs tíma langa útsendingu:

  • Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ætlar að biðjast lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti
  • Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, segir sinn flokk ekki vilja Bjarna í forsæti starfstjórnar, sem tæki við
  • Formennina greindi verulega á um hvort það væri yfir höfuð hægt að hrókera milli ráðherrastóla í starfstjórn.
  • Spurt var hvað formennirnir teldu að yrði efst á baugi fyrir kosningarnar og svörin voru greinargóð. Þau má finna hér að neðan, en efnahagsmál, verðbólga og vextir voru þau mál sem oftast voru nefnd.
  • Samfylkingin er tilbúin að skoða minnihlutastjórnir og að verja minnihlutastjórn fram að kosningum. Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, og Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, talaði á sömu nótum.

Við fáum Eirík Bergmann stjórnmálafræðing til að kryfja umræður formannanna í tíufréttum hér rétt á eftir.

Annars förum við bráðlega að ljúka vakt okkar hér. Það liggur fyrir að morgundagurinn verður tíðindaríkur eins og dagurinn í dag og gær.

14. október 2024 kl. 20:55

Hvað verður rætt um fyrir næstu kosningar?

Allir formenn fengu sömu spurninguna og svörin eru þessi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins:

  • Menntamál
  • Útlendingamál
  • Heilbrigðismál

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður Pírata:

  • Efnahagsmál
  • Heilbrigðismál
  • Geðheilbrigðismál
  • Lýðræði og mannréttindi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar:

  • Ábyrgari ríkisfjármál og meiri efnahagslegan stöðugleika
  • Geðheilbrigðismál
  • Menntamál

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins:

  • Öryggi fólksins í landinu
  • Fæði, klæði og húsnæði
  • Heilbrigðismál
  • Útlendingamál

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar:

  • Efnahagslegan stöðugleika, verðbólgu og vexti

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:

  • Efnahagsmálin
  • Gott umhverfi til stofnun fyrirtækja
  • Hælisleitendamálin
  • Gera ríkiskerfið skilvirkara
  • Hleypa einkaframtakinu að
  • Fjölskyldur og málefni þeirra

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna:

  • Minni samstöðu í samfélaginu og einmanaleika
  • Efnahagsmálin og fólk sem nær ekki endum saman
  • Græna pólitík
  • Bakslag í stöðu kvenna
  • Lýðræðis- og mannréttindamál

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins:

  • Hið góða og hið illa. Jafnrétti og skautun. Stríð og frið
  • Öryggismál
  • Skipulagða glæpastarfsemi
  • Ofbeldi barna og hnífaburð
  • Uppbygging heilbrigðiskerfisins um land allt
  • Fullveldismál og íslenska tungu
  • Húsnæðismarkaðinn
14. október 2024 kl. 20:34 – uppfært

Hvað er starfsstjórn?

Við skulum reyna að finna út úr þessu hérna milli orðspjóta stjórnmálamanna í garð hverra annarra.

Starfsstjórn tekur við þegar forsætisráðherra hefur beðist lausnar. Svandís Svavarsdóttir hefur gefið það út að VG vilji ekki sitja í starfstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Hún vill að Sigurður Ingi Jóhannsson leiði þá stjórn frekar.

Formenn flokkanna greinir á um hvort þetta sé yfir höfuð hægt eða ekki.

„Starfsstjórn er stjórn sem situr eftir að hafa beðist lausnar og þessi stjórn hefur ekki beðist lausnar,“ sagði Ragnhildur Helgadóttir lagaprófessor og rektor við HR í viðtali við Spegilinn fyrr í dag.

Hægt er að hlusta á umræður um starfsstjórn fyrr í dag hér.

Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor og rektor Háskólans í Reykjavík.Aðsend

14. október 2024 kl. 20:24

Þorgerður segir liggja fyrir að starfstjórn taki við

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir það liggja fyrir að starfstjórn taki við. Það þurfi ekkert að rífast um það, eins og Svandís Svavarsdóttir og Bjarni Benediktsson hafa gert það sem af er þætti.

Bjarni Benediktsson virðist hafa jánkað þessu, ef okkur misheyrðist ekki.

14. október 2024 kl. 20:20 – uppfært

Samfylkingin er til umræðu um að verja einhverja stjórn vantrausti

Samfylkingin er til samtals um hvað sem skapar „festu“ í stjórnmálum. Þetta segir Kristrún Frostadóttir formaður flokksins. Af því má skilja að hún sé tilbúin að ræða sviðsmyndir þar sem flokkur hennar verji einhverja minnihlutastjórn vantrausti.

„Það sem skiptir máli er að við klárum þessi mál á næstu þremur vikum því við þurfum að komast í hreina kosningabaráttu, þremur vikum fyrir kosningar að mínu mati,“ segir hún.

Það verða engar pólitískar ákvarðanir teknar af slíkri ríkisstjórn fram að kosningum.

Úr silfrinu 14.10.2024.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar ásamt Bjarna Bendiktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.RÚV / Arnór fannar Rúnarsson

„En til hvers þá að mynda hana?“ Spyr Bjarni Benediktsson sem telur Kristrúnu full áhugasama um að mynda nýja ríkisstjórn.

„Æji Bjarni, vertu nú ekki að gera eitthvað mál úr þessu, það er ábyrgðarhluti að vera í þessari stöðu og Samfylkingin mun ekkert hlaupast undan því,“ segir Kristrún

14. október 2024 kl. 20:17

Bjarni er fullviss að forseti fallist á þingrofsbeiðni

Bjarni væntir þess að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, samþykki þingrofsbeiðni og verði við því að hann biðjist lausnar.

14. október 2024 kl. 20:14 – uppfært

Andar köldu milli Svandísar og Bjarna

Það dylst engum sem horfir á umræðurnar í sjónvarpi að það sé ekki gott milli Svandísar Svavarsdóttur og Bjarna Benediktssonar. Hér ganga skot á milli, einkum og sér í lagi um starfsstjórnir og myndun þeirra.

Bjarni furðar sig á því að rætt sé um starfsstjórn með nýjum forsætisráðherra, eins og Svandís leggur til. Hann segir að slíkt sé óhugsandi, enda virki starfsstjórn þannig að ráðherrar haldi áfram í sínum embættum svo að landið verði ekki stjórnlaust fram að kosningum.

14. október 2024 kl. 20:10 – uppfært

Bjarni ætlar að biðjast lausnar

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segist aðspurður að hann muni biðjast lausnar.

Hann segir þó skrýtið að lagt sé til að skipa starfsstjórn með nýjum forsætisráðherra, eins og Svandís leggur til.

Þá sé bara verið að mynda minnihlutastjórn.

Hann vill skipa starfsstjórn og að ráðherrar sitji áfram í sínum embættum. Vel sé hægt að klára fjárlög, til að mynda.

Úr silfrinu 14.10.2024.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra í Silfrinu í kvöld.RÚV / Arnór fannar Rúnarsson

14. október 2024 kl. 20:08 – uppfært

Svandís vill kanna minnihlutastjórn

Svandís Svavarsdóttir er spurð út í orð sín um starfsstjórn, sem hún vill að taki við.

Hún telur eðlilegast að Bjarni Benediktsson biðjist lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti og að Sigurður Ingi Jóhansson leiði starfsstjórnina.

Hún vill að samtöl milli flokka fái að halda áfram og talar um minnihlutastjórnir og möguleika á því í því sambandi.

Úr silfrinu 14.10.2024.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna.RÚV / Arnór fannar Rúnarsson

14. október 2024 kl. 20:05

Þórhildi Sunnu er létt

Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, formanni Pírata, er létt nú þegar ríkisstjórnarsamstarfinu hefur verið slitið.

Hún segir vandræði stjórnarinnar hafa hafist jafnvel fyrir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra.

Hún segir rótina meðal annars fólgna í sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka og skýrslu Ríkisendurskoðunar um hana.

Hún er sammála Sigurði Inga, formanni Framsóknar, um að tímasetning stjórnarslitanna sé slæm. Lítið pláss sé fyrir málefni og vinnslu fjárlaga.

14. október 2024 kl. 20:03 – uppfært

Sigmundur Davíð: „Glaðasti hundur í heimi“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir það ótrúlegt að sjá hvað ríkisstjórnarflokkunum tókst að halda samstarfinu saman.

Hann segist vera glaðasti hundur í heimi.

Úr silfrinu 14.10.2024.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.RÚV / Arnór fannar Rúnarsson

14. október 2024 kl. 20:01 – uppfært

Kristrún þreytt á umræðum um stjórnarsamstarfið

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir alltof mikla orku hafa farið í að ræða og greina ríkisstjórnarsamstarfið. Fólkið vilji eitthvað nýtt og vill horfa fram á veginn.

Úr silfrinu 14.10.2024.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar ásamt Bjarna Bendiktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.RÚV / Arnór fannar Rúnarsson

14. október 2024 kl. 19:59

Inga Sæland vill að Svandís fái ekki dagskrárvald

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir galið að halda að formaður VG geti tekið sér dagskrárvald á Alþingi þegar flokkurinn mælist út af þingi. Hún vill að forsetinn grípi inn í ef þetta heldur lengur áfram.

14. október 2024 kl. 19:58 – uppfært

Þorgerður Katrín: Pandórubox

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir stjórnarslitin ekki hafa komið sér á óvart.

Þó hafi pirringurinn í ríkisstjórninni komið sér á óvart. Hún notar orðið Pandórubox, til að lýsa ástandinu eins og það birtist henni.

„Hreint út sagt held ég að þetta hafi ekki komið fólki á óvart eftir að hafa fylgst með þessari framvindu og í rauninni er þetta búið að byggjast upp í langan tíma en óþolið er meira en maður áttaði sig á og það er eins og pandóru box hafi opnast,“ sagði hún.

14. október 2024 kl. 19:57 – uppfært

Sigurður Ingi hefur áhyggjur af fjárlögunum

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur áhyggjur af vinnslu fjárlaga og segir tímasetningu stjórnarslitanna óheppilega í því ljósi.

„Ég hef haft áhyggjur af því og tel að við ættum að setja áherslu á að gera enn eina tilraunina til að ná fram þessari sameiginlegu sýn,“ segir hann.

Aðspurður segist hann ekki vilja tala um stjórnarslitin sem svik.

„Mitt mat hefur verið það í langan tíma þó að það sé erfitt að það séu til leiðir,“ segir Sigurður Ingi. Hann upplifði fund stjórnarflokkanna á laugardaginn sem leið til að finna leiðir til að halda samstarfinu áfram.

14. október 2024 kl. 19:55 – uppfært

Svandís vildi ekki lokuð búsetuúrræði fyrir hælisleitendur

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, segir að lokuð búsetuúrræði fyrir hælisleitendur sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd, hafi meðal annars ráðið úrslitum um endalok ríkisstjórnarinnar.

Sömuleiðis nefnir hún rammaáætlun um orkunýtingu og ágreining í þeim málaflokki. Hún segir það mál hafa verið ósnert og á bið í fleiri mánuði í ríkisstjórninni og að Bjarni hafi ekki viljað leggja á sig vinnuna til að halda stjórninni saman.

Svo hafi hreint ekki verið í tíð Katrínar Jakobsdóttir. Svandís uppskar hlátur Bjarna Benediktssonar með ræðu sinni.

„Ég er ekki hissa þegar áhuginn er ekki meiri en þessi til þess að leysa ágreiningsmál að fráfarandi forsætisráðherra skuli gefast upp, því þetta útheimtir vinnu,“ segir Svandís um hlutverk forsætisráðherra.

14. október 2024 kl. 19:50 – uppfært

Bjarni spurður um meint óheilindi

Bjarni segir ríkisstjórnina hafa staðið frammi fyrir mjög skýru vali: Að hætta eða taka „nokkrar vikur“ í að ná saman um mál sem formenn flokkanna hafa ekki verið sammála um lengi.

Hann segir að á fundi með hinum stjórnarflokkunum rétt fyrir tilkynningu sína hafi komið fram að það væri um tvennt að velja: „Eða að ná saman um einhvern skýran málefnapakka,“ segir hann.

Bjarni telur að þetta hafi komið skýrt fram á fundi þeirra og hafnar Bjarni því að stjórnarslitin komi úr heiðskíru lofti og vitnar í ályktun á landsfundi VG um að ganga ætti til kosninga áður en kjörtímabilið væri á enda.

Hann hafi hins vegar ekki séð að hægt væri að ná saman um málefni sem flokkarnir hafi þegar ekki náð saman um fyrir þinglok. Því hafi verið augljóst að boða til kosninga.

14. október 2024 kl. 19:47 – uppfært

Eruði tilbúin í kosningar?

Svörin standa ekki á sér í upphafi. Það segjast allir tilbúnir í kosningar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, grínaðist reyndar með að enginn væri tilbúinn í kosningar. Það væri vitleysa að segja það. En vissulega yrðu allir tilbúnir eftir nægan undirbúning á næstu dögum.

„Auðvitað er það tóm vitleysa þegar allir segjast klárir í bátana, það er auðvitað enginn klár og tímalínan er þröng. Það þarf að manna listana og þegar menn hafa skilað þeim 30 dögum fyrir kjördag þá eru allir klárir,“ segir Sigurður Ingi en tekur fram að undirbúningurinn sé búinn og að málefnastarf hafi verið í gangi lengi.

Formönnunum er tíðrætt um uppröðun á lista og vinnu innan flokka hvað það varðar. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður Pírata, segir sinn flokk þó ætla í prófkjör.

Úr silfrinu 14.10.2024.
Frá umræðum í Silfrinu í kvöldRÚV / Arnór fannar Rúnarsson

14. október 2024 kl. 19:31

Farið ekki langt!

Formenn allra flokka á þingi eru að fá sér sæti í myndveri RÚV hér í Efstaleiti. Von er á líflegum umræðum um stöðuna í stjórnmálunum.

Fylgist með í spilaranum hér að ofan eða á RÚV.

14. október 2024 kl. 19:18 – uppfært

Svandís tilbúin að sitja í starfsstjórn með Sigurði Inga

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri Grænna, útilokar ekki að sitja í starfsstjórn sem leidd væri af Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins.

Hún sagðist vera tilbúin að starfa áfram í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, þó ekki með Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra.

„Ég er mjög hugsi yfir því að sitja í ríkisstjórn sem er undir forystu Bjarna Benediktssonar og ég held að það sé eðlilegt að ég sé hugsi yfir því,“ segir hún.

Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna.RÚV / Ragnar Visage

Svandís tjáði Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands að henni þætti eðlilegast ef Bjarni Benediktsson forsætisráðherra myndi biðjast lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti.

„Ég held að það skipti miklu máli að það sé hreint borð þar,“ sagði hún.

Þá sagði Svandís einnig við forsetann að gefa þyrfti öllum möguleikum pláss líkt og mögulegum minnihlutastjórnum. Hún sagðist þó ekki geta farið nánar út hver ætti að sitja í slíkri stjórn.

„Ég treysti mér ekki til að nefna það núna, ég held að samtölin þurfi að eiga sér stað,“ sagði Svandís sem tók fram að forsetinn væri sammála henni.

14. október 2024 kl. 18:50 – uppfært

Formenn koma í Efstaleiti einn af öðrum

Eftir rétt tæpa klukkustund hefst sameinaður þáttur Silfurs og Kastljóss með formönnum allra flokka á þingi.

Formenn flokka eru þegar farnir að koma sér fyrir í græna herberginu. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins er komin, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sömuleiðis og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer á með formönnum stjórnarflokkanna þriggja, Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks. Sigurður Ingi Jóhannsson og Svandís Svavarsdóttir lýstu því rétt í þessu að þau vildu að Bjarni bæðist lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti.

Þátturinn hefst klukkan 19:35 beint að loknum fréttum og veðri. Við opnum fyrir streymi hér að ofan rétt áður en fréttir hefjast.

Myndver Silfursins
RÚV / Oddur Þórðarson

14. október 2024 kl. 18:23 – uppfært

Svandís vill að Bjarni biðjist lausnar

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, vill að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra biðjist lausnar og að við taki starfsstjórn.

Hún segist sjá fyrir sér að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, verði forsætisráðherra í starfsstjórninni.

Þetta sagði hún fyrir fund sinn með Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands.

Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Halla Tómasdóttir, forseti ÍslandsRÚV / Ragnar Visage

14. október 2024 kl. 18:22 – uppfært

Sigurður Ingi vill kosningar fyrir 30. nóvember

„Við erum eiginlega komin þangað að úr því þessi ákvörðun var tekin, sem við höfum sagt að ígrunda mætti betur þá sé best að kjósa sem fyrst,“ sagði hann. „Þess vegna fyrr en 30. nóvember ef hægt væri,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, eftir fund sinn með forseta Íslands.

Honum þætti það eðlilegast í ljósi þess að forsætisráðherra hafi kallað eftir því að þing yrði rofið þar sem hann gæti ekki starfað innan ríkisstjórnarinnar.

Hann sagðist þó einnig vera tilbúinn að sitja í starfsstjórn með hinum ríkisstjórnarflokkunum fram að kosningum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins kemur til fundar við forseta Íslands.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Halla Tómasdóttir, forseti Íslands.Ragnar Visage

14. október 2024 kl. 18:04 – uppfært

Spennt að heyra hvað Sigurður Ingi og Svandís segja

„Við áttum bara gott og hreinskilið samtal um stöðuna og um hvaða verk þarf að klára áður en farið er í kosningar,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata eftir fund sinn með Höllu Tómasdóttur forseta Íslands.

Þórhildur Sunna benti á að tímalína kosninga ætti ekki að vera algerlega á valdi Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra

„Það eru fleiri sem hafa eitthvað um þessi mál að segja, þar með talið Halla sjálf, en líka hinir sem eru með Bjarna í þessari fráfarandi stjórn,“ sagði Þórhildur Sunna sem sagðist mest spennt fyrir því að heyra hvað Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefðu að segja.

Þórhildur sagðist vilja sjá samtal um það hvernig fjárlög verða afgreidd eða hvort það þurfi að afgreiða þau. Við viljum náttúrulega ekki að allt fari á hliðina en við þurfum ekki að vera að eyða of miklum tíma í að koma okkur saman um hvernig fjárlögin líta út í aðdraganda kosninga.

Hún telur að kosningar þurfi ekki endilega að vera 30. nóvember og segir að mögulega sé hægt að bíða einni viku lengur. Það sé ekki gott gagnvart málefnunum ef allir eru á hlaupum.

Halla Tómasdóttir, Inga Sæland, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
RÚV / Ragnar Visage

14. október 2024 kl. 18:04

Þingfundi frestað og mögulega ríkisstjórnarfundi líka

Þingfundi á morgun hefur verið frestað og verður staðan metin jafnóðum hvenær tækt er að halda þingfund aftur.

Þetta er ekki óvanalegt þegar mikið gengur á í stjórnmálunum.

Sömuleiðis er mögulegt að ríkisstjórnarfundur verði ekki haldinn í fyrramálið. Vanalega eru ríkisstjórnarfundir á þriðjudags- og föstudagsmorgnum.

Atkvæðagreiðsla á Alþingi.
RÚV / Ragnar Visage

14. október 2024 kl. 17:46 – uppfært

Sigurður Ingi kominn til fundar hjá forseta

Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, vildi lítið segja áður en hann fór inn til fundar hjá forseta, en segist treysta sér til að vinna áfram með ríkisstjórnarflokkunum. Hann upplýsti að formenn stjórnarflokkanna hefðu ekki fundað formlega í dag, en að þau hefðu ræðst við í síma.

Sigurður Ingi kom til fundarins klukkan hálf sex. Þá er bara Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna eftir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins kemur til fundar við forseta Íslands.
Sigurður Ingi kemur til fundar hjá forseta.Ragnar Visage

14. október 2024 kl. 17:16 – uppfært

Styður þingrof og vill alla kjörna fulltrúa í starfsstjórn

„Minn hugur er fagur og ég sagði ekki neitt annað en að mín skoðun er sú að það sé tímabært að ganga til kosninga og slíta þessu stjórnarsamstarfi,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, eftir fund sinn með Höllu Tómasdóttur.

Hún sagðist vissulega styðja þingrof og sagðist enn fremur styðja að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, myndi biðjast lausnar.

„Það væri nú eiginlega það besta í stöðunni,“ segir hún. „Ég vil sjá Bjarna biðjast lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti, ég get ekki séð neina ástæðu til að þessir þrír flokkar séu að dingla lengur sama.“

Hún segist vilja sjá alla kjörna fulltrúa saman í starfsstjórn fram að kosningum.

„Við erum hérna með 63 fulltrúa kjörna á Alþingi og ég held að við getum alveg séð um að koma fjárlögum farsællega í gegnum Alþingi,“ segir hún.

Inga Sæland formaður flokks fólksins ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.RÚV / Ragnar Visage

14. október 2024 kl. 17:06

Þórhildur Sunna komin inn til Höllu

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður Pírata, er komin á fund Höllu Tómasdóttur. Að þeim fundi loknum er aðeins að vænta Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, og Svandísar Svavarsdóttur, formanns VG.

Halla Tómasdóttir, Inga Sæland, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
RÚV / Ragnar Visage

14. október 2024 kl. 16:47 – uppfært

Dagurinn í myndum

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður sjálfstæðisflokksins gengur á fund forseta íslands á Bessastöðum 14. október 2024 til þess að óska eftir þingrofi.
Heiður himinn en samt þungt yfir. Verður Bjarni nokkurn tímann aftur forsætisráðherra?RÚV / Ragnar Visage

Bjarni Benediktsson gengur á fund forseta Íslands til að fá umboð til þingrofs.
Spilin á borðið. Bjarni hefur beðið um þingrof og nú á forsetinn leik.RÚV / Ragnar Visage

Bjarni Ben
Fært til bókar.RÚV / Ragnar Visage

Halla Tómasdottir á Bessastöðum 14 október
Síðastliðinn sólarhringur hefur verið hrein eldskírn fyrir Höllu Tómasdóttur forseta.RÚV / Ragnar Visage

Forseti Íslands fundar með formönnum flokka á þingi 14. október.
Stóru spurningarnar.Ragnar Visage

Forseti Íslands fundar með formönnum flokka á þingi 14. október. Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún gekk fyrst á fund Höllu í morgun. Fari komandi kosningar eins og kannanir benda til verður hún aftur fyrsti gestur Höllu á Bessastöðum eftir kosningar.Ragnar Visage

Formenn allra flokka á þingi funda með forseta 14. október. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
„Poker face!“ Þorgerður Katrín gaf ekki mikið upp við blaðamenn eftir fund sinn með Höllu og gekk framhjá myndavélunum og míkrófónunum. Hún ræddi þó vel og lengi við fréttamenn fyrir fundinn.Ragnar Visage

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. VIðskrifstofu Forseta á Sóleyjargötu 14. október 2024
Sigmundur sló á létta strengi í morgun og laug að fréttamönnum að hann hefði samþykkt að leiða starfsstjórn fram að kosningum. „Náði ég ykkur...“ sagði hann svo og uppskar hlátur fréttamanna.RÚV / Ragnar Visage

Inga Sæland formaður flokks fólksins þegar hún koma á fund forseta Íslands við Sóleyjargötu.
Bíllinn keyrði sjálfur á Bessastaði, sagði Inga Sæland þegar hún kom syngjandi kát á fund forseta. Hún svaraði spurningum í stutta stund en baðst svo undan, hún var orðin of sein eftir Bessastaðaruglinginn.RÚV / Ragnar Visage

14. október 2024 kl. 16:14 – uppfært

Inga Sæland vill að komið verði á starfsstjórn

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var örlítið sein á fund forseta. Hún sagði það vera þar sem hún mætti á rangan fundarstað.

„Mér þykir miður að hafa setið fyrir utan Bessastaði því að bíllinn keyrði bara sjálfkeyrandi þangað,“ sagði Inga Sæland sem sagðist þó hlakka til að funda með forseta.

Hún vildi ekki gefa upp hvað hún ætlaði að leggja áherslu á á fundinum.

„Það kemur bara í ljós,“ segir hún. „Ég ætla bara að sjá hvað forsetinn vill tala um við mig og svo sjáum við bara til.“ Inga sagði þó að hún vildi að starfsstjórn yrði komið á fram að kosningum.

„En núna verð ég að fara og hitta forsetann því ég er orðin sein,“ sagði hún að lokum.

14. október 2024 kl. 16:00

Halla komin aftur á Sóleyjargötu

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, er komin aftur á Sóleyjargötu til að funda með formönnum fleiri flokka á þingi.

Næst á gestalistanum er Inga Sæland klukkan 16:00.

Halla Tómasdóttir við skrifstofu forseta Íslands á Sóleyjargötu.
RÚV / Ragnar Visage

14. október 2024 kl. 15:23

Hvað sagði Bjarni í dag?

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra svaraði fjölmiðlafólki í löngu máli á Bessastöðum í morgun.

Við tókum saman það helsta, skýrðum og settum í samhengi hér:

14. október 2024 kl. 14:26 – uppfært

Forsetaviðtölin hálfnuð

Þrír formenn hafa mætt á fund forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, en næsti formaður mætir ekki á fund forsetans fyrr en klukkan 16:00, en það er Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Morguninn hefur verið viðburðaríkur. Bjarni Benediktsson mætti fyrst á fund forseta á Bessastöðum klukkan níu í morgun. Þar fór hann fram á að fá heimild til þess að rjúfa þing. Forseti tilkynnti þá að hún myndi ræða við aðra formenn og hitti þrjár fram að hádegi.

Það voru þau Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og að lokum Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins. Öll voru þau sammála um að það ætti að boða til kosninga. Þá vildi Kristrún skoða hvaða möguleikar væru til staðar varðandi starfsstjórn án þess að útskýra þær hugleiðingar frekar.

Margt er á huldu varðandi stöðu ríkisstjórnarinnar, en formenn Framsóknarflokksins og VG segja að útspil formanns Sjálfstæðisflokksins hafi komið þeim í opna skjöldu. Ekkert samráð var á meðal formanna ríkisstjórnarflokkanna um að boða til kosninga.

Eins og fyrr segir er Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, boðuð á fund klukkan 16:00, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður Pírata, klukkan 16:45 og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, mætir 17:30 á Sóleyjargötuna. Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, klukkan 18:15.

Hér fyrir ofan má sjá helstu vendingar dagsins.

14. október 2024 kl. 13:28 – uppfært

… náði ég ykkur?

Fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, er lokið með forseta Íslands á Sóleyjargötunni. Sigmundur stillti sér ábúðarfullur upp og tilkynnti fréttamönnum talsverð tíðindi.

„Ég hef tekið að mér að leiða starfsstjórn fram að næstu kosningum,“ sagði hann og þagnaði til áhersluauka. Svo kom hið sanna í ljós: „Náði ég ykkur?“ spurði hann sposkur eftir að hafa brugðið á leik.

Sigmundur sagði að samtalið við forsetann hefði verið fróðlegt og þar hefði verið farið yfir þá pólitísku stöðu sem upp er komin.

„Og ég svaraði því á sama hátt og áður, það er ekkert annað í stöðunni en að verða við þessari beiðni og kjósa,“ sagði Sigmundur og átti þá við að forsetinn ætti að fallast á þingrofsbeiðni Bjarna Benediktssonar.

14. október 2024 kl. 12:38

Sigmundur Davíð: Stjórninni verður ekki skrúfað aftur saman - og þá þarf að kjósa

„Það er ekkert um annað að ræða en að verða við beiðni forsætisráðherra,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, rétt áður en hann mætti á fund forsetans á Sóleyjargötu.

„Stjórnin er fallin,“ sagði Sigmundur og bætti við: „Og það liggur fyrir að henni verður ekki skrúfað aftur saman og þá þarf að kjósa,“ sagði Sigmundur. Spurður hvort stjórnin sæti við stjórnvölinn fram að kosningum svaraði Sigmundur: „Ja, það þarf að finna út úr því hvort þau geti verið saman í herbergi í nokkrar vikur, en það er ekki stjórnarandstöðunnar að velta því fyrir sér.“

14. október 2024 kl. 12:20 – uppfært

Sigmundur Davíð er næstur til Höllu

Næstur á fund forseta Íslands er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Hann á að mæta klukkan 12:30.

Við reynum að ná á hann fyrir og eftir fund og birtum hér það sem hann kann að hafa að segja.

Þegar hafa Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, farið á fund Höllu.

Við vitum að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er boðuð á fund klukkan 16:00, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður Pírata, klukkan 16:45 og Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, klukkan 18:15.

Við höfum ekki enn fengið staðfest hvenær Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er boðaður á fund Höllu á Sóleyjargötu.


Uppfært: Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins mætir 17:30 á Sóleyjargötuna.

14. október 2024 kl. 12:13

Formaður Viðreisnar ræddi ekki við fjölmiðlafólk eftir fundinn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ræddi ekki við fjölmiðlamenn eftir fund sinn með Höllu Tómasdóttur forseta.

Hún gekk ekki til þeirra fjölmargra fjölmiðlamanna sem hafa tekið sér stöðu fyrir utan skrifstofu forseta Íslands á Sóleyjargötu, heldur gekk hún í aðra átt og hélt sína leið.

Hún ræddi þó við fjölmiðlafólk fyrir fundinn, eins og við sögðum frá hér rétt áðan, og sagði meðal annars að kjósa yrði sem fyrst.

14. október 2024 kl. 11:42 – uppfært

Silfrið strax eftir sjöfréttir í kvöld

Umræðuþátturinn Silfrið verður ekki á sínum hefðbundna tíma eftir tíufréttir í kvöld, heldur beint eftir sjöfréttir og rennur þátturinn saman við Kastljós kvöldsins.

Þættinum stýra Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Bergsteinn Sigurðsson. Gestir þeirra verða formenn allra flokka á þingi og því von á líflegum umræðum. Stillið inn klukkan 19:35.

Kynningarmynd fyrir Fréttaumfjöllunarþáttinn Silfrið. Kynnar eru þau Valgeir Örn Ragnarsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Bergsteinn Sigurðsson
RÚV / Ragnar Visage

Þetta innlegg hefur verið uppfært.

14. október 2024 kl. 11:34 – uppfært

Vill skoða starfsstjórn fram að kosningum

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, styður þingrof, en vill að starfsstjórn verði skoðuð fram að kosningum. Þetta kom fram í viðtali við Kristrúnu eftir að hún hafði setið á fundi með forseta Íslands.

„Það skiptir máli hvernig hlutirnir eru gerðir, það liggur fyrir að forsætisráðherra hefur ekki beðist lausnar og það þarf að ræða möguleikann á að koma á starfsstjórn,“ sagði Kristrún.

14. október 2024 kl. 11:23 – uppfært

Skilaboð Viðreisnar að forseti fallist á þingrof

„Það liggur alveg fyrir, finnst mér, og eru mín skilaboð til forsetans að við verðum að kjósa sem fyrst,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar þegar hún mætti á fund forsetans á Sóleyjargötu upp úr klukkan ellefu.

„Mín skilaboð til forsetans verða að fylgja þessu þingrofi eftir sem við styðjum,“ sagði hún. Aðspurð sagði Þorgerður að henni þætti ekkert óeðlilegt að stjórnarflokkarnir sætu fram til kosninga sem starfsstjórn, slíkt hefði gerst áður.

„En það er skrýtið að sjá hvað það er mikill ágreiningur, þeirra er ábyrgðin og þeir verða að axla sína ábyrgð en ekki vera með ólund í garð hvers annars, sem síðan bitnar á þjóðinni,“ sagði hún að lokum.

14. október 2024 kl. 11:10 – uppfært

Landskjörstjórn þarf að „kasta öllu frá sér“

Þegar þing er rofið mega mest líða 45 dagar til kosninga. Á fimmtudag verða 45 dagar til 30. nóvember, sem þykir líklegur kjördagur eins og sakir standa.

Landskjörstjórn er meðvituð um þetta og þurfa stjórnarmenn að kasta öllu frá sér og ganga beint til verks. Rætt er við formann og framkvæmdastjóra Landskjörstjórnar í fréttaskýringaþættinum Þetta helst á Rás 1, sem fer í loftið eftir hádegisfréttir í dag.

Landskjörstjórn ætlar að funda í dag og fara yfir stöðuna. Ef þing er rofið á miðvikudag verða 46 dagar til 30. nóvember. Og því má ekki kjósa þá. Þess vegna getur einn dagur til eða frá, breytt heilmiklu um kjördag, því venju samkvæmt er kosið á laugardegi. 23. nóvember og 30. nóvember eru laugardagar.

Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri landskjörstjórnar, segir að stjórnin sé í ágætis formi eftir forsetakosningarnar í sumar. Hún segir að búið sé að uppfæra rafræna undirskriftakerfið, sem rataði í fréttir í sumar. Þá voru allmargir sem hófu meðmælasöfnun í forsetaframboði, í stað þess að skrifa undir á lista eins frambjóðenda. Nú á að vera minni hætta á slíkum ruglingi.

Kynningamynd fyrir þáttinn Þetta helst
Grafík, RÚV / Ómar Örn Hauksson

Þetta innlegg hefur verið uppfært.

14. október 2024 kl. 10:36

Hvað tekur síðan við í dag?

Þegar stórt er spurt...

  • Það sem við vitum er að formenn flokka á þingi koma til fundar við Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, í dag. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, var að renna í hlað á Sóleyjargötunni og er fyrst til að mæta. Við greinum frá því helsta sem gerist þar og sýnum viðtöl ef formennirnir veita þau.
  • Hvað gerist síðan er ógerningur að spá fyrir um. Væntanlega ræða formenn við sína þingflokka og miðað við orð Bjarna Benediktssonar á Bessastöðum í morgun ætlar hann að ræða við formenn hinna stjórnarflokkana tveggja. Við munum greina frá því sem þar fer fram hér á eftir.
  • Og svo er viðbragða að vænta alls staðar að úr samfélaginu. Við gerum okkar besta að miðla þeim öllum til ykkar.
14. október 2024 kl. 10:30 – uppfært

Kristrún fyrst á fund forseta

Halla og Kristrún
Kristrún og Halla hittust á fundi fyrir skömmu.RÚV / Ragnar Visage

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, er fyrsti formaðurinn á fund með forsetanum. Samfylkingin mælist hæst í skoðanakönnunum, og meira en öll ríkisstjórnin samanlagt samkvæmt síðustu könnunum.

Forseti á fundi með formönnum flokka í dag og tekur á móti þeim á skrifstofu forseta að Staðastað.

Kristrún Frostadóttir kemur á fund forseta kl. 10:30

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur á fund forseta kl. 11:15

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kemur á fund forseta kl. 12:30

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kemur á fund forseta kl. 16:45

Inga Sæland kemur á fund forseta kl. 16:00.

Halla hefur þegar rætt við formenn Framsóknarflokksins og VG eins og fram kom í ávarpi hennar á Bessastöðum.

14. október 2024 kl. 10:20

Halla komin á Sóleyjargötu til fundar við formenn

Halla Tómasdóttir forseti er komin á skrifstofu embættis síns á Sóleyjargötu í Reykjavík, þar sem hún hyggst ræða við formenn allra flokka á þingi í dag.

Eins og áður sagði greindi Halla frá því á Bessastöðum í morgun að hún tæki sér vikuna í að ákveða hvort hún veiti Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra heimild til þingrofs.

14. október 2024 kl. 10:17 – uppfært

Gæti ekki verið meira sama um spekingana

„Það var ólík sýn á það, á milli okkar,“ svaraði Bjarni þegar hann var spurður af Ölmu Ómarsdóttur fréttakonu RÚV hvort það hefði ekki farið betur á því að ræða við formenn samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, áður en Bjarni tilkynnti um stjórnarslit.

Bjarni sagði sjónarmið hafa tekist á, um að miðla málum og klára mál og finna lausnir á vandanum.

„Og svo mín skoðun, sem er sú að þar sem það væri engin von til þess, þá væri ekki annað ábyrgt en að ganga til kosninga.“

„Ég geri það ekki að gamni mínu eða af einhverri léttúð að segja hingað og ekki lengra,“ bætti hann við.

Þá er ekki ofsagt að margir hafa verið að velta fyrir sér pólitísku stöðunni síðustu daga. Þetta er í annað skiptið sem ríkisstjórn klárar ekki kjörtímabil sitt þar sem Bjarni er forsætisráðherra, auk þess sem hann sló fyrra met um skamman tíma í stóli forsætisráðherra. Um þetta allt segir Bjarni:

„Og margir eru nú að velta fyrir sér stjórnmálasögunni. Og mér gæti ekki verið meira sama, um alla spekingana sem segja að þetta voru ekki nema svona margir dagar í embætti og að þetta verði skrifað í sögubækurnar og annað. Það skiptir mig bara nákvæmlega engu máli. Það eina sem skiptir máli núna er að við þurfum sterkara umboð, stærri Sjálfstæðisflokk, meiri styrk á þinginu til þess að leggja þessar skýru línur inn í framtíðina,“ sagði Bjarni.

14. október 2024 kl. 10:12

„Pólitísk leikflétta“ hjá Bjarna

Guðmundur Hálfdánarson ræðir úrslit forsetakosninganna 2020.
RÚV

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir að útspil Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu á þessum tímapunkti augljóslega vera pólitíska leikfléttu sem gagnist flokki hans og jafnvel honum sjálfum. Með því að boða til kosninga áður en landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram sé hann að tryggja að hann verði formaður flokksins þegar gengið er til kosninga. Bjarni hafði áður tilkynnt að hann ætlaði að íhuga stöðu sína sem formaður Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með sögulega lágt fylgi í skoðanakönnunum síðustu mánuði. Guðmundur segist ekki trúa því að það verði niðurstaðan í kosningunum. Hann trúir því ekki heldur að Vinstri græn, samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, þurrkist út líkt og skoðanakannanir benda til.

14. október 2024 kl. 9:55 – uppfært

Ætlar að taka ákvörðun síðar í vikunni

Halla Tómasdóttir hyggst funda með öllum formönnum flokkanna eins og fram kom í morgun. Fundir munu fara fram á skrifstofu forsetans í miðbænum. Í stuttu ávarpi sínu sagði Halla að hún hygðist taka ákvörðun síðar í vikunni um að veita Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra heimild til þingrofs. Hann fór fram á að stjórnin sæti fram að kosningum.

Halla tilkynnti enn fremur að hún ætlaði ekki að svara neinum spurningum að sinni.

Þess má geta að Halla Tómasdóttir hefur verið forseti í aðeins þrjá mánuði.

14. október 2024 kl. 9:43

Síðasta undirskriftin?

Bjarni Benediktsson á Bessastöðum
Undirskrift Bjarna BenediktssonarRÚV / Alma Ómarsdóttir

Hún lætur ekki mikið yfir sér undirskrift Bjarna Benediktssonar, en þetta gæti þó verið í síðasta skiptið sem Bjarni ritar nafn sitt í gestabók Bessastaða sem starfandi forsætisráðherra.

14. október 2024 kl. 9:35 – uppfært

Halla hittir fyrsta formanninn klukkan 10:30

Forsetinn, Halla Tómasdóttir, stefnir á að funda með formönnum allra flokka á Alþingi í dag á skrifstofu forsetans á Sóleyjargötu samkvæmt upplýsingum frá forsetaembættinu. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er nú á fundi með Höllu. Fyrsti fundur verður klukkan 10:30 en ekki er vitað á þessari stundu hver uppröðun formanna verður.

14. október 2024 kl. 9:12 – uppfært

Ákvörðun forseta getur haft áhrif á dagsetningu kosninga

Bjarni Benediktsson er mættur á fundinn. Nú fer hann á fund með Höllu Tómasdóttur forseta Íslands. Bjarni mun óska eftir þingrofsheimild frá forsetanum. Forsetinn hyggst funda með öðrum flokksformönnum og sjá hver afstaða þeirra er.

Bjarni gaf kost á sér í stutt viðtal fyrir fundinn með forseta. Þar sagðist hann gera fastlega ráð fyrir því að fá þingrofsheimild frá forsetanum. Að öðrum kosti segði hann af sér og starfsstjórn yrði mynduð.

„Ég hef átt samtal við forsetann og hún hefur tjáð mér að hún vilji meta stöðuna, en það getur haft talsverð áhrif ef þessum formsatriðum lýkur á morgun eða miðvikudaginn, hvort það sé kosið 23. nóvember eða þann þrítugasta,“ sagði Bjarni sem uppljóstraði að hann stefndi að kosningum 30. nóvember.

„Ég hefði talið margt eðlilegra að við stefndum að kosningum þann þrítugasta, til dæmis til þess að gefa þessa aukadaga til að klára fjárlög og fjárlagatengd mál, en við getum líka kosið fyrr,“ sagði Bjarni.

14. október 2024 kl. 8:57 – uppfært

„Haltasta ríkisstjórn sögunnar“

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, segir atburðarásina í aðdraganda tilkynningar forsætisráðherra um stjórnarslit hafa verið mjög undarlega, sérstaklega í ljósi þess að formenn hinna stjórnarflokkanna segi stjórnarslit ekki hafa verið rædd á fundi formanna ríkisstjórnarflokkanna sólarhring áður en Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti ákvörðun sína.

Andrés Ingi Jónsson
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.RÚV / Ragnar Visage

Í Morgunvaktinni á Rás 1 sagði Andrés Ingi að atburðarásin endurspegli stöðuna á stjórnarheimilinu. Andrés Ingi segir þessa ríkisstjórn hafa verið höltustu ríkisstjórn sögunnar. Enginn hafi skilið af hverju hún hélt áfram stjórnarsamstarfi eftir alþingiskosningar 2021 þegar hún álpaðist til að fá aftur meirihluta. Þá hafi Bjarni álpast milli ráðuneyta og klúðrað svo mikið í vinnunni að hann hafi allt í einu verið orðinn æðsti yfirmaður.

Hann segir að svo hafi þurft að endursemja um grundvöll stjórnarsamstarfsins þegar Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði sig úr embætti til að bjóða sig fram til forseta. Stjórnarflokkarnir hafi þurft marga daga til að komast að því hvort þau ættu að vinna saman áfram. Sú ákvörðun hafi svo verið tekin og það hafi verið skilningur hinna flokkanna að samið hafi verið um ákveðin mál. Sömu mál hafi nú verið dregin upp sem ástæða þess að slíta þurfi samstarfinu nú.

Andrés Ingi sagði að eðlilegast hefði verið að slíta stjórnarsamstarfinu þá og boða til kosninga á eðlilegum tíma.

14. október 2024 kl. 8:54 – uppfært

Bjarni óskar eftir heimild til þess að rjúfa þing

Bjarni Benediktsson mætir á fund Höllu Tómasdóttur forseta Íslands klukkan níu. Þar mun Bjarni óska eftir umboði frá forsetanum til þess að rjúfa þing.

Bein útsending frá Bessastöðum hefst rétt fyrir níu í spilaranum hér að ofan, Alma Ómarsdóttir fréttamaður er þar og fylgist með gangi mála.

Ég heiti Valur Grettisson og mun leiða ykkur í gegnum fundinn hér á vefnum.

14. október 2024 kl. 8:42

Telja uppstillingu líklega hjá öllum flokkum

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, voru gestir í Morgunútvarpinu á Rás 2 eftir áttafréttir. Þau segjast bæði tilbúin í kosningar. Miðflokkurinn hélt flokksþing um helgina og Kristrún segir Samfylkinguna hafa verið í stífum kosningaundirbúningi með málefnavinnu frá því hún tók við formennsku.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
RÚV / Víðir Hólm Ólafsson

Við öllum flokkum blasir þó sú áskorun að stilla upp listum með skömmum fyrirvara. Sigmundur Davíð segir að hann telji líklegt að allir flokkar muni fara þá leið að stilla upp með uppstillinganefndum.

„Ég hugsa að allir flokkar lendi bara í því að þurfa að stilla upp því að það er einfaldlega ekki tími fyrir annað. Ég veit ekki hvort að Sjálfstæðisflokkurinn reynir að halda einhver prófkjör, ég efast um að þeir nái því. Það verður stillt upp hjá okkur eins og öðrum,“ segir Sigmundur.

Kristrún Frostadóttir 13. október.
RÚV / Þorsteinn Magnússon

Kristrún segir Samfylkinguna líka leggja upp með uppstillingu. „Þetta er auðvitað það sem þarf að hafa hraðar hendur með á næstu 2-3 vikum.“

Og staðfest; bara hrein uppstilling, eða hvað?

„Já það verður hrein uppstilling, það í rauninni býðst ekkert annað á svona skömmum tíma, við viljum auðvitað gera þetta vel og örugglega. Þetta snýst ekki bara um oddvitasæti, það þarf að manna bæði þingsæti, varaþingmannssæti og síðan auðvitað listana alla og vera með sterkt fólk þarna inni. Þannig að það mæðir mikið núna á komandi uppstillingarnefndum.“

14. október 2024 kl. 8:20 – uppfært

Ekki viss um að það sé vilji, löngun eða traust til að klára samstarfið

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra í sjónvarpsviðtali.
RÚV / Arnór Fannar Rúnarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir það verða að koma í ljós hvort ríkisstjórnin geti starfað saman fram að kosningum. Í viðtali í Morgunvaktinni á Rás 1 sagðist hann hafa áhyggjur af því að ekki tækist að klára ýmis verkefni sem bíði þingsins.

Hann segir að ef einn flokkur segist ekki geta starfað með hinum sé það ekki augljóst með hvaða hætti flokkarnir þrír ætli að starfa saman í meirihlutastjórn. Hann hefur áhyggjur af því að ákvörðun Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um að slíta ríkisstjórninni hafi áhrif á þær hröðu, jákvæðu breytingar sem hafi átt sér stað í efnahagsmálum á síðustu misserum.

„Ég held við þurfum aðeins að átta okkur á því með hvaða hætti við ætlum að gera þetta. Það er hægt að setja þetta fræðileg á borðið en þetta kallar á mikinn vilja, löngun til samvinnu og málamiðlana, og það er um það sem ríkisstjórnin sprakk,“ segir Sigurður Ingi. Hann segist sjálfur búa yfir þessari löngun og þessum vilja en hann sé ekki viss um að formaður flokksins sem sleit stjórnarsamstarfinu sé á sama máli.

Spurður hvort það væri traust milli stjórnarflokkanna sagði Sigurður Ingi:

„Það hefur verið það en þú sérð að þegar einn flokkurinn treystir sér ekki til að vera í ríkisstjórn með hinum tveimur þá er auðvitað ekki fullkomið traust.“

14. október 2024 kl. 8:11

Formenn ungliðahreyfinga stjórnarflokkanna í Morgunútvarpinu

Gunnar Ásgrímsson, formaður Sambands ungra Framsóknarmanna segir það hafa verið óábyrgt af Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra, að slíta ríkisstjórn og valda með því óvissu í efnahagsmálum. Hann segir að málefnin sem Bjarni hafi nefnt í tengslum við stjórnarslitin, lagareldi, útlendingamál og orkumál hafi mátt bíða á meðan áherslan væri sett á efnahagsmál.

Viktor Pétur Finnsson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, segir að að þeirra mati sé auðveldasta leiðin til að draga úr vöxtum og verðbólgu að draga úr ríkisútgjöldum, en að fyrir því hafi ekki verið vilji hjá þinginu eða hinum stjórnarflokkunum.

Jósúa Gabríel Davíðsson, formaður Ungra vinstri grænna, segir lengi hafa verið óánægju í grasrót flokkanna, en það sé mikilvægt að taka fram að það hafi verið grasrót flokksins sem ályktaði um að boðað yrði til kosninga í vor en ekki forysta eða þingmenn flokksins. Forysta Vinstri grænna hafi því ekki gert það ómögulegt fyrir ríkisstjórnarsamstarfið að halda áfram.

14. október 2024 kl. 8:06 – uppfært

Óvenjulegt að kjósa í nóvember

Verði Halla Tómasdóttir, forseti, við beiðni Bjarna Benediktssonar um að boðað verði til kosninga 30. nóvember verður það í fyrsta sinn sem kosið verður til Alþingis í nóvembermánuði í rúma öld.

Forsíða Morgunblaðsins 4. desember 1979 sem segir frá kosningaúrslitum í Alþingiskosningum.
Forsíða Morgunblaðsins 4. desember 1979.Timarit.is / Morgunblaðið

Síðast var kosið til Alþingis í nóvember árið 1919 eftir þingrof í lok septembermánaðar. Aðeins einu sinni hafa Alþingiskosningar verið haldnar seinna á árinu. Árið 1979 var kosið til Alþingis í desember.

Þá hafði hvassviðri og éljagangur áhrif á kjörsókn víða um landið fram eftir degi. Kjósendum hafði þó flestum tekist að greiða atkvæði sín þegar kjörstöðum var lokað og kosningaþátttaka í lok dags var tæplega níutíu prósent.

14. október 2024 kl. 8:02 – uppfært

Eitthvað til að hlusta á með morgunkaffinu

Morgunþættirnir í útvarpinu fjalla að sjálfsögðu um stjórnarslitin núna í morgunsárið.

Á Rás 1 er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, búinn að ræða stöðuna við Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunni Elísabetu Bogadóttur frá því rétt fyrir 8.

Klukkan 8:30 koma svo til þeirra þau Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Dagbjört Hákonardóttir, þingkona Samfylkingarinnar.

Á Rás 2 eru formenn ungliðahreyfinga stjórnarflokkanna fráfarandi búnir að ræða málin frá klukkan 7:15. Það eru þeir Viktor Pétur Finnsson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, Jósúa Gabríel Davíðsson, formaður UVG, og Gunnar Ásgrímsson, formaður Sambands ungra Framsóknarmanna.

Andrés Jónsson almannatengill rýndi í stöðuna frá 7:30 og Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði setti málin í sögulegt samhengi frá klukkan 7:40.

Kristrún Frostadóttir kemur til þeirra Ingvars Þórs Björnssonar og Hafdísar Helgu Helgadóttur klukkan 8:05. Og svo verða þeir Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG, og Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, í spjalli í lok þáttar klukkan 8:40.

14. október 2024 kl. 7:49 – uppfært

Eldskírn nýs forseta

Halla Tómasdóttir hefur verið forseti í 73 daga og þarf strax að gerast verkstjóri í stjórnmálunum. Hún hefur ýmsa kosti í stöðunni og þarf ekki endilega að ganga að ósk Bjarna um þingrof.

epa11650406 Iceland President Halla Tomasdotti visits State of Green in Copenhagen, Denmark, 09 October 2024. State of Green is a private-public partnership between the Danish government, relevant companies and actors within the energy sector. The Icelandic state visit is the first incoming state visit for the royal couple and the first outgoing state visit for the newly elected Icelandic president. The state visit marks the historical ties and the close relationship between Denmark and Iceland.  EPA-EFE/Bo Amstrup  DENMARK OUT
Halla Tómasdóttir forseti Íslands.EPA-EFE / Bo Amstrup

Hún gæti til dæmis kannað hvort það sé flötur fyrir öðru stjórnarmynstri á Alþingi.

Það verður þó að teljast líklegt að formenn flokkanna mæli allir með því að gengið verði til kosninga og að það verði niðurstaða forsetans.

Forveri Höllu, Guðni Th. Jóhannesson, fékk líka eldskírn árið 2016 þegar kosið var í lok október sama ár og hann var kjörinn í fyrsta sinn. Ekki tókst að mynda ríkisstjórn fyrr en 10. janúar 2017 þegar Bjarni Benediktsson setti saman fyrra ráðuneyti sitt.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tilkynnir stjórnarslit 13. október 2024.
Bjarni kynnti ákvörðun sína um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu í gær.RÚV / Ari Páll Karlsson

Sú ríkisstjórn samanstóð af Sjálfstæðisflokki, Bjartri framtíð og Viðreisn. Hún lifði ekki lengi heldur sprakk hún með hvelli um haustið svo aftur var kosið í lok október.

Bjarni hefur þess vegna þann vafasama heiður að hafa aldrei verið forsætisráðherra yfir áramót, enn sem komið er í það minnsta.

14. október 2024 kl. 7:44 – uppfært

Forsetinn ætlar að ræða við alla formennina

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands hyggst Halla Tómasdóttir forseti Íslands ræða við formenn allra þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi í dag.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á fund með forsetanum klukkan níu og að honum loknum má reikna með því að Halla gefi út yfirlýsingu um næstu skref.

14. október 2024 kl. 7:35

Atburðir gærdagsins annálaðir

Atburðir gærdagsins voru annálaðir í fréttavakt gærdagsins þar sem við sögðum frá tilkynningu Bjarna og viðbrögðum allra hinna í kjölfarið.

Til að súmmera það upp þá er gott að leita til Ólafs Harðarsonar stjórnmálafræðiprófessors

Stjórnarslitin koma ekki endilega á óvart. Það sem hinsvegar hafi komið á óvart var með hvaða hætti stjórnarslitin bar að.

Einhliða ákvörðun Bjarna Benediktssonar um stjórnarslit og þingrof kom auk þess greinilega bæði Svandísi og Sigurði Inga á óvart.

Ólafur segir að það virðist sem svo að Bjarni hafi ekki reynt að framlengja samstarfið, þó ekki nema væri fram yfir áramótin.

Að hans mati heyrist það bæði á Svandísi og Sigurði Inga að þau séu ekki sátt við framgöngu Bjarna.

Ólafur sagði líklegt að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, myndi boða formenn allra flokka á þingi til fundar við sig á næstu dögum. Það væri eðlilegt fyrir hana að ganga úr skugga um að ekki sé hægt að mynda annan meirihluta á þingi.

14. október 2024 kl. 7:29

Ríkisstjórnin sprungin og nú er boltinn hjá forseta Íslands

Góðan dag. Ég heiti Birgir Þór Harðarson og ætla ásamt kollegum mínum Ástu Hlín Magnúsdóttur og Þorgerði Önnu Gunnarsdóttur að fylgjast með framvindunni á vettvangi stjórnmálanna í dag.

Bjarni Benediktsson sleit nefnilega ríkisstjórnarsamstarfinu í gær. Í dag fer hann á fund Höllu Tómasdóttur forseta til að ræða næstu skref.

Bjarni sagði á blaðamannafundi í gær að hann myndi óska eftir að forseti ryfi þing og boðað yrði til kosninga 30. nóvember. Sjálfur segist hann tilbúinn til að fara fyrir starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð.

Stjórnarslitin komu flatt upp á formenn Vinstri grænna og Framsóknarflokksins sem lýstu undrun sinni í viðtölum við RÚV í gær.

Stjórnarandstöðuflokkarnir segjast allir vera tilbúnir í kosningar. Meira að segja nýtt framboð Arnars Þórs Jónssonar, fyrrverandi forsetaframbjóðanda, – Lýðræðisflokkurinn – ætlar að vera tilbúinn í kosningar eftir einn og hálfan mánuð.

Svona standa sem sagt leikar þennan mánudagsmorgun. Boltinn er þess vegna á Bessastöðum hjá forsetanum.