Athugið að þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul

Samantekt
Samgöngur

Svandís: „Ekki ákvörðunartökupunktur“ um flugvöll í Hvassahrauni

Innviðaráðuneytið kynnti niðurstöður tveggja starfshópa. Annars vegar um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni og hins vegar um almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar.

  • Í niðurstöðum skýrslu um mögulegan flugvöll í Hvassahrauni kemur fram að ekkert sé því til fyrirstöðu, veðurfarslega, að halda áfram undirbúningi að byggingu vallarins.
  • Flugvöllur í Hvassahrauni myndi búa við sambærileg veðurskilyrði og Reykjavíkurflugvöllur en betri skilyrði en Keflavíkurflugvöllur, fyrir vélar í sjónflugi.
  • Starfshópurinn um almenningssamgöngur kynnti framtíðarsýn þar sem áhersla er lögð á að efla almenningssamgöngur þannig að þær verði samkeppnishæfar við aðra samgöngumáta.
  • Innviðaráðherra segir að nú hefjist rýni til að móta tillögur um hvernig verkefnin eru tekin áfram.
  • Borgastjóri segir að skýrslan um flugvöll í Hvassahrauni sé mikilvægt plagg í þá vinnu að finna innanlandsflugi aðra staðsetningu en í Vatnsmýri.

Vefritstjórn

,

Þessum viðburði er lokið og því hefur streymið verið fjarlægt.

1. október 2024 kl. 13:39

Takk fyrir samfylgdina

Við segjum þessari fréttavakt lokið. Nánar verður fjallað um skýrslurnar á miðlum RÚV næstu daga.

1. október 2024 kl. 13:29

Landeigendur í Hvassahrauni vongóðir um sölu jarðarinnar

„Þetta eru ánægjuleg tíðindi, jákvætt fyrir okkur,“ segir Guðlaugur Jónasson stjórnarformaður Sauðafells, landeiganda Hvassahrauns.

Jörðin var sett í formlegt söluferli í sumar og segir Guðlaugur að það ferli verði ekki stöðvað. Hann segir mikinn áhuga hafa verið á jörðinni en það væri ánægjulegt að heyra frá stjórnvöldum séu þau áhugasöm um kaup á jörðinni.

Um 120 skráðir eigendur eru að félaginu og er jörðin í Hvassahrauni eina eign félagsins. Stærsti hlutinn, um 45%, er í eigu félagsins Fjáreigendafélag Reykjavíkur. Hin 60% skiptast á milli annarra eigenda.

Hvassahraun er 2.200 hektara jörð á norðanverðum Reykjanesskaga.

Bændur í Reykjavík vantaði beitiland og keyptu jörðina á sjötta áratug síðustu aldar. Þeir stofnuðu félagið Sauðafell.

1. október 2024 kl. 11:45 – uppfært

Fundinum er lokið

Fundinum er nú lokið.

Við munum frá viðbrögð og viðtöl frá helstu hagsmunaaðilum og birta hér innan skamms.

1. október 2024 kl. 11:43 – uppfært

Einar segir almenningssamgöngur afar brýnt hagsmunamál

Að mati Einars eru almenningssamgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli afar mikilvægt hagsmunamál. Hann segir að með árangri í þeim samgöngum verði á sama tíma góður árangur í að draga úr umferð einkabíla á höfuðborgarsvæðinu.

1. október 2024 kl. 11:41 – uppfært

Borgarstjóri þakkar starfshópunum fyrir vel unnin störf

Myndir frá blaðamannafundi innviðaráðuneytis vegna flugvallar í Hvassahrauni og almenningssamgangna til Keflavíkurflugvallar. Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
RÚV / Ragnar Visage

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, segir innanlandsflug vera hluta af samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og mikilvægt að tryggja óraskað sjúkraflug.

Hann segir að á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, til 2040, sé að innlandsflugvöllur fari úr Vatnsmýri sé komin önnur staðsetning. Hann segir að skýrslan um flugvöll í Hvassahrauni sé mikilvægt plagg í þá vinnu.

1. október 2024 kl. 11:39 – uppfært

Hvað á að gera við skýrslurnar?

Svandís segir að stjórnvöld hefji nú vinnu við að rýna í niðurstöðurnar og móta tillögur um hvernig verkefnin eru tekin áfram. Ítarlegt samráð er nauðsynlegt um hvernig eigi að varða leiðina fram á við.

Hún segir að nú sé framtíðarsýnin skýrari en áður um hvert er best að halda varðandi uppbyggingu almenningssamgangna.

1. október 2024 kl. 11:37 – uppfært

Svandís þakkar starfhópunum fyrir vel unna vinnu

Myndir frá blaðamannafundi innviðaráðuneytis vegna flugvallar í Hvassahrauni og almenningssamgangna til Keflavíkurflugvallar. Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.
RÚV / Ragnar Visage

Svandís segir að skýrslur starfshópanna verði notaðar til að móta framtíð almenningssamgangna.

Hún segir lykilatriði að Hvassahraun geti verið ágætt flugvallarstæði.

Vinna starfshópsins var að miklu leyti tæknileg vinna en ekki ákvarðanatökupunktur um hvort hafist verði handa við að stefna að uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni.

Hún segir brýnt að tryggja flugöryggi á öllum tímum. Samgöngur með flugi innanlands þurfa að vera öruggar og áreiðanlegar. Innviðir þurfa að þróast í takt við kröfur og tækni til framtíðar.

Hún segir að skýrsla starfshópsins um almenningssamgöngur til Keflavíkurflugvallar muni nýtast vel. Það verði að efla almenningssamgöngur um allt land. Samgöngur eiga að vera öruggar og umhverfisvænn kostur. Tryggja þarf að almenningssamgöngur til Keflavíkur hafi góðar tengingar við aðrar almenningssamgöngur um allt land.

1. október 2024 kl. 11:32 – uppfært

Sjötta markmið

Samstarf hagsmunaaðila um áframhaldandi uppbyggingu og þróun almenningssamganga. Að stuðla að reglulegu samráði hagsmunaaðila um samgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli.

1. október 2024 kl. 11:31 – uppfært

Fimmta markmið

Grænar og umhverfisvænar almenningssamgöngur. Skýr markmið hjá stjórnvöldum og sveitarfélögum að almenningssamgöngur gangi fyrir grænum orkugjöfum.

1. október 2024 kl. 11:30 – uppfært

Fjórða markmið

Að gera almenningssamgöngur samkeppnishæfar við aðra ferðamáta. Ferðatími og fargjöld skipta þar miklu máli.

1. október 2024 kl. 11:30 – uppfært

Þriðja markmið

Að byggja upp fyrirmyndaraðstöðu fyrir farþega.

1. október 2024 kl. 11:29 – uppfært

Annað markmið

Að afla betri ferðagagna um ferðavenjur starfsfólks og farþega. Þannig er betur hægt að mæla árangur aðgerða.

1. október 2024 kl. 11:28 – uppfært

Fyrsta markmið

Að efla almenningssamgöngur svo þær þjóni betur íbúum, starfsfólki og ferðamönnum.

1. október 2024 kl. 11:27 – uppfært

Niðurstöður starfshóps um samgöngur

Leggja fram framtíðarsýn sem tekur tillit til þeirra fjölda markmiða og stefna sem stjórnvöld hafa sett fram um samgöngur til Keflavíkurflugvallar.

Horft er á að starfræktar verði umhverfisvænar og reglulegar almenningssamgöngur.

Til að ná fram framtíðarsýninni leggur starfshópurinn fram sex markmið til ársins 2030.

1. október 2024 kl. 11:23 – uppfært

Vinna starfshópsins

Hópurinn fór í vettvangsferð á Keflavíkurflugvöll og kallaði til sín ýmsa aðila í ferðaþjónustu og innan almenningssamgangna til ráðgjafar.

Daði fer yfir þær almenningssamgöngur sem nú eru í boði til flugvallarins.

1. október 2024 kl. 11:20 – uppfært

Starfshópur um samgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar

Myndir frá blaðamannafundi innviðaráðuneytis vegna flugvallar í Hvassahrauni og almenningssamgangna til Keflavíkurflugvallar. Daði Baldur Ottósson verkefnisstjóri starfshóps um almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar.
RÚV / Ragnar Visage

Daði Baldur Ottósson verkefnisstjóri starfshóps um almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar kynnir niðurstöður hópsins.

Þau setja fram sex leiðir að framtíðarsýn almenningssamgangna á svæðinu.

1. október 2024 kl. 11:18 – uppfært

Leggja til að tekið verði frá landssvæði í Hvassahrauni fyrir uppbyggingu flugvallar

Myndir frá blaðamannafundi innviðaráðuneytis vegna flugvallar í Hvassahrauni og almenningssamgangna til Keflavíkurflugvallar. Eyjólfur Árni Rafnsson formaður starfshóps um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni.
RÚV / Ragnar Visage

Eyjólfur Árni Rafnsson kynnir niðurstöður starfshóps um rannsóknir á uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni.

Hann segir vinnu starfshópsins hafa hafist árið 2020. Þungamiðjan hafi falist í veðurfarsmælingum, náttúruvá og hugsanlegum áhrifum á þjónustustig innanlandsflugs með flutningi úr Vatnsmýrinni.

Í seinni áfanga verður farið í mat á umhverfisáhrifum og mögulegt skipulag, kostnaðarmat og forhönnun flugvallarins. Eyjólfur segir seinni hluta vinnunnar umfangsmeiri en þann fyrri, sem er verið að kynna núna.

Eyjólfur segir ekkert varðandi veðurskilyrði mæla gegn byggingu flugvallar í Hvassahrauni.

Ekki er talið að langtímaáhrif á eftirspurn eftir innanlandsflugi verði mikil með flutningu flugvallarins í Hvassahraun. Áhrifin yrðu meiri ef innlandsflugið yrði flutt til Keflavíkur, líkur eru á að eftirspurn myndi dragast saman um allt að þriðjung.

Flugvallarstæðið yrði að mestu utan skilgreindra eldstöðvarkerfa á Reykjanesskaganum. Svæðið er ekki útsett fyrir hraunflæði lítilla eldgosa. Ólíklegt er talið að hraun myndi flæða yfir Reykjanesbraut á þessu svæði.

Starfshópurinn leggur til að það verði tekið frá svæði í Hvassahrauni fyrir uppbyggingu flugbrauta og flugstöðvarbyggingar.

Áhættumat vegna fjárfestinga fyrir svæðið á að vera klárt árið 2026.

1. október 2024 kl. 10:57 – uppfært

Velkomin á fréttavakt

Góðan daginn og velkomin á þessa fréttavakt. Blaðamannafundur er að hefjast á vegum innanríkisráðuneytisins í Hafnarborg í Hafnarfirði um niðurstöður tveggja starfshópa.

Annars vegar verður fjallað um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni og hins vegar um almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar.

Fundurinn hefst núna klukkan 11.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra opnar fundinn. Næst mun Eyjólfur Árni Rafnsson formaður starfshóps um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni kynna sínar niðurstöður. Þá kemur Daði Baldur Ottósson verkefnisstjóri starfshóps um almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar.

Loks munu Svandís og Einar Þorsteinsson borgarstjóri taka til máls.

Fleiri innlendar fréttir

Aðrir eru að lesa

Annað efni frá RÚV