Þurfti að endurgreiða tvo styrki
Kostnaður við forsetaframboð Baldurs Þórhallssonar var um 20 milljónir króna, segir Valgeir Magnússon, kosningastjóri hans.
Uppgjörið hefur ekki enn verið birt á vef Ríkisendurskoðunar, þar sem hún gerði athugasemd við það. Valgeir segir þær athugasemdir hafa snúið að nokkrum styrkjum sem framboðið fékk. Þeir sem veittu styrkina hafi verið tengdari en lög heimila. Því hafi hvorki starfsmenn kosningabaráttunnar né styrkjendurnir gert sér grein fyrir. Brugðist hafi verið við með því að endurgreiða tvo styrki upp á 400 þúsund krónur.
Valgeir segir að þegar þetta uppgötvaðist hafi verið búið að loka bankareikningum framboðsins, opna hafi þurft nýjan og ganga frá endurgreiðslum. Hann sagði að endanlegt uppgjör verði sent Ríkisendurskoðun í dag eða eftir helgi.