Fjármálaráðherra sér fram á „bjartari tíma með lægri vöxtum“
Fréttavakt lokið
Við látum þessari fréttavakt um kynningu fjárlagafrumvarpið 2025 þá lokið. Hér að neðan er stiklað á stóru yfir það helsta sem finna má í frumvarpinu, kynningu Sigurðar Inga fjármálaráðherra og viðbrögðum stjórnarandstöðu.
Fróðlegt verður að sjá hvernig frumvarpinu reiðir af í meðförum Alþingis á komandi vikum og mánuðum.
Þorgils Jónsson þakkar samfylgdina. Njótið dagsins.
Inga Sæland: „Algerlega óhæf ríkisstjórn“
Inga Sæland. formaður Flokks fólksins, segir að fjárlagafrumvarpið sýni „einbeittan brotavilja ríkisstjórnarinnar til að halda áfram að færa alla ábyrgð yfir á aðra“.
Yfirskriftin „Þetta er allt að koma“ sé lýsandi fyrir viðhorf ríkisstjórnarinnar þar sem þetta reddist allt og treyst verði á guð og lukkuna og séð til hvort seðlabankastjóri geti ekki „botnfryst þetta aðeins betur og haldið stýrivöxtunum áfram svona eitthvað inn í næsta kjötrímabil.
Inga segir að enn sé verið að bæta í þenslu í viðkvæmu efnahagsástandi.
„Það liggur alveg á borðinu að þetta er algerlega óhæf ríkisstjórn sem veit ekkert hvort hún er að koma eða fara í þessu fjárlagafrumvarpi.“
Bergþór Ólason: „Þessi fjárlög gætu lengt það tímabil sem við búum við 9,25% stýrivexti“
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segist hræddur um að í fjárlagafrumvarpinu sé ekki að finna þau skilaboð sem ættu að koma frá ríkisstjórninni, í ljósi yfirstandandi baráttu við verðbólgu.
„Miðað við þennan gríðarlega útgjaldavöxt sem verið hefur síðustu ár reiknaði maður með því að eitthvað svigrúm væri til raunverulegs aðhalds, og – þess sem þarf að segja núna – niðurskurðar, í ljósi þess hvernig hefur verið gengið um fjárhirslur ríkisins undanfarin ár.“
Frumvarpið myndi varla hjálpa Seðlabankanum í baráttu við verðbólguna.
„Þessi fjárlög gætu lengt það tímabil sem við búum við 9,25% stýrivexti umfram það sem annars hefði þurft að vera.“
Bergþór segir að aðhald þurfi að vera í ríkisrekstri heilt yfir. Störfum í opinbera geiranum hafi til dæmis fjölgað mikið miðað við einkageirann.
Þetta er bara ekki sjálbært og rímar við athugasemdir Fjármálaráðs við fjármálaáætlunina sem sögð er undirbyggja þessi fjárlög, frá því í vor. Þar er flaggað öllum þeim rauðu flöggum sem hægt er að flagga sem segja að ríkisfjármálin séu ekki sjálfbær í þeim takti sem er viðhafður.“
Þorgerður Katrín: Fyrstu viðbrögð við fjármálafrumvarpi „ákveðin depurð“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að hennar fyrstu viðbrögð við fjárlagafrumvarpinu séu „ákveðin depurð“ þar sem henni finnst vanta upp á veruleikatengingu hjá ríkisstjórninni.
„Ég er ekki að sjá þennan harða raunveruleika sem blasir við íslenskum heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum.“
Í frumvarpinu megi sjá hallarekstur. Ríkisstjórnin hafi skilað 10 ára samfelldum hallarekstri og vaxtagjöld hækki mikið.
„Það sé svolítið eins og keisarinn sé ekki í neinum fötum hjá þessari ríkisstjórn.“
Þorgerður segir að best væri fyrir þjóðina að þessi ríkisstjórn færi frá.
„Það þarf hér ríkisstjórn sem brettir upp ermar og gengur í verkin.“
Henni finnist forsætisráðherra og ríkisstjórnin vera erindislaus eins og er.
Andrés Ingi: „Minnir á kosningabækling frekar en fjárlagafrumvarp“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, segir ljóst af þessu frumvarpi að Framsóknarflokkurinn sé tekinn við fjármálaráðuneytinu og almannatenglar hafi fengið að leika lausum hala. Plaggið minni frekar á kosningabækling en fjárlagafrumvarp.
„Þetta er allt að koma segja þau, en þegar maður skyggnist betur inn í frumvarpið þá er það sem er að koma, von ríkisstjórnarinnar um að Seðlabankinn fari að lækka stýrivexti og ytri aðstæður fari að lagast.“
Frekar en að aðgerðir ríkisstjórnarinnar eigi að laga ástandið eigi aðrir að koma með lausnir.
Hann segist ekki sjá neitt nýtt. Hugmyndir um úrbætur í húsnæðismálum séu plástur en ekki nauðsynleg kerfisbreyting.
„Þetta eru jákvæð skref en bara svo lítil.“
Andrés segir enn eitt árið sé fjárlagafrumvarp lagt fram með áætluðum halla. Nú er 41 milljarður sem er stefnt á, samanborið við 54 milljarða á ári í ófjármögnuðum skattalækkunum í tíð ríkisstjórnarinnar.
„Í stað þess að sækja peninga þar sem þá er að sækja virðist ríkisstjórnin vera föst í því að selja Íslandsbanka til að brúa bilið.“
Stólað sé á að selja hluta í bankanum á þessu ári og því næsta, og það séu forsendur fjárlaganna.
„Án þess að selja Íslandsbanka þurfa þau að finna nýjar fjáröflunarleiðir og stjórnarflokkarnir hafa sýnt það ítrekað að það eru þau mál sem þau ná verst saman um. Þau eru í grunninn hjartanlega ósammála um hvernig eigi að afla ríkinu fé.“
Kristrún Frostadóttir: „Þráseta ríkisstjórnarinnar“ farin að valda skaða
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að ríkisstjórnin hafi brugðist í efnahagsmálum og ekkert í þessu frumvarpi breyti því.
„Við erum auðvitað í mikilli verðbólgu og vöxtum og ríkisstjórnin hefur leikið þann leik á undanförnum árum að reyna að skorast undan þeirri ábyrgð.“
Kristrún segir ríkisstjórnina hafa varpað ábyrgð á Seðlabankann, genamengi þjóðarinnar og fleira, „eins og hún hafi ekkert með það að gera“.
Það sé mjög alvarlegt mál og dragi úr trúverðugleika hagstjórnarinnar að gefa til kynna að ekkert sé hægt að gera í ástandinu.
Frumvarpið sýni að „þráseta ríkisstjórnarinnar“ sé farin að valda skaða í efnahagsmálum.
„Við sjáum það til dæmis að vænt afkoma á næsta ári versnar miðað við það sem var spáð í fjármálaáætlun í vor.“
Ekki sé ráðist í neinar sértækar tekjuviðbætur til að vinna gegn þörf á vöxtum.
„Það er auðvitað þannig að þegar ríkið gerir minna þarf Seðlabankinn að gera meira. Það er sú staða sem hefur valdið þessari þrálátu verðbólgu og vöxtum sem hafa verið á undanförnum árum. Þessi fjárlög breyta einfaldlega ekki þeirri stöðu.“
Engin „jólasveinaútgjöld“ í frumvarpinu
Varla hefur farið framhjá neinum að kosningavetur er að renna upp. En telur Sigurður Ingi að fjárlagafrumvarpið beri þess merki?
Vissulega sé markmiðið að ná niður verðbólgu og vöxtum.
„Í hefðbundnum skilningi, að hér séu einhver jólasveinaútgjöld hingað og þangað, þá er það ekki. Þetta er einfaldlega yfirvegað, skynsamt, til að styðja við peningastefnu seðlabankans, að ná í land. Við erum stutt frá því og sýndum fram á það í kynningunni og trúum því ð það sé hægt á næstu mánuðum.“
Hækkun frítekjumarks fyrir aldraða geti skilað verulegum ráðstöfunartekjum
Í málefnum aldraðra og segir Sigurður Ingi að hið almenna frítekjumark fyrir þann hóp verði hækkað úr 25 þúsund krónum á mánuði upp í 36.500, sem ætti að skila fólki „verulegum fjármunum“ í ráðstöfunartekjur á ársgrundvelli.
„Þetta er mikilvægt baráttumál sem Landssamband eldri borgara og fleiri hafa talað fyrir og við teljum einfaldlega skynsamlegt vegna þess að við getum gert það.“
„Einfaldlega ekki þannig að við höfum ekki gert neitt.“
Aðspurður um stöðu ungs fólks og barnafjölskyldna og vaxtabyrði þeirra segir Sigurður Ingi að margt hafi verið gert í málinu.
Þar megi nefna hækkun á barnabótum, fæðingarorlofi og húsnæðisbótum auk gjaldfrálsra skólamáltíða.
40 milljarðar sem hafi verið settir í aukinn stuðning í húsnæðismálum í ár og þeir 44 milljarðar sem gert er ráð fyrir að verja í þau mál á næsta ári séu til marks um að stjórnvöld séu „fullmeðvituð um hvaða hópum við þurfum að hjálpa í gegnum þetta“.
Aðgerðirnar hafi verið unnar í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
„Þannig að það er einfaldlega ekki þannig að við höfum ekki gert neitt.“
Úr þenslu í jafnvægi og jafnvægisvöxt án atvinnuleysis – „þá hefur efnahagsstefnan skilað sínu“
Aðspurður um samdráttinn sem hefur verið í íslensku hagkerfi síðustu tvo ársfjórðunga segir Sigurður Ingi að það sé merki um að jafnvægi sé að nást eftir mikið þenslutímabil.
„Þetta er það sem við erum að sækjast eftir. Það sem er jákvætt í þessu fjárlagafrumvarpi er að við erum við að forðast kollsteypur.“
Þarna sé lögð áhersla á að viðhalda atvinnustigi til að undirbyggja verðmætasköpun og tekjur fyrir heimilin, „til að komast yfir þennan skafl“.
Sigurður Ingi segir að ef markmið frumvarpsins náist horfi Ísland fram á bjartari tíma, þar sem hagvöxtur á næsta ári muni ná 2,6%.
„Ef það tekst að ná hagkerfinu úr mikilli þenslu í jafnvægi og aftur í jafnvægisvöxt án þess að það kalli fram atvinnuleysi, þá hefur efnahagsstefnan skilað sínu.“
Sigurður Ingi: „Okkur hefur tekist að verja þetta í gegnum erfiða tíma.“
Í samtali við fréttastofu eftir kynninguna sagði Sigurður Ingi að stóra myndin úi frumvarpinu væri sú að íslenskt efnahagslíf væri mjög sterkt.
Atvinnuþátttaka sé mikil og kaupmáttur hafi vaxið meira en á öðrum Norðurlöndum.
„Okkur hefur tekist að verja þetta í gegnum erfiða tíma.“
Hann segir frumvarpið munu styðja við verðmætasköpun og hátt atvinnustig.
Ný verkefni verða fjármögnuð með aðhaldi.
Sést loks til lands
Í lok kynningarinnar sagði Sigurður Ingi að eftir þenslutímabil sé loks að sjást í landi í baráttu við verðbólguna.
Fjárlagafrumvarpið eigi að styðja við aðlögun hagkerfisins án þess að það hafi neikvæð áhrif á atvinnuleysi og að forðast verði kollsteypur.
Mörg tækifæri séu til staðar
70 milljarðar í vaxtagreiðslur „allt of há tala“
Stærsti útgjaldaliðurinn er heilbrigðismál, svo félags-, húsnæðis og tryggingamál, og þá mennta- og menningarmál.
Þeir liðir eru samtals um 60% útgjalda ríkissjóðs.
Vaxtagjöld á næsta ári verða um 110 milljarðar króna, en af þeim greiðir ríkissjóður um 70 milljarða.
„En 70 milljarðar eru allt of há tala og það er ein ástæðan fyrir því að heildarjöfnuðurinn er þar sem hann er staddur.“
Frumjöfnuður jákvæður þriðja árið í röð
Frumjöfnuður ríkissjóðs, án fjármagnstekuliða, verður samkvæmt frumvarpinu jákvæður um 0,7%, og það er þriðja árið í röð, en heildarjöfnuður verður neikvæður um 0,8%.
Afkoma ríkissjóðs batnar engu að síður um 16 milljarða króna milli ára.
29 milljarða aðhaldsaðgerðir
Frumvarpið gerir ráð fyrir 29 milljarða aðhaldsaðgerðum til að halda aftur af útgjaldavexti.
Annars vegar er almennt aðhald upp á 2,2 milljarða, sem ekki mun taka til heilbrigðis-, öldrunar- og skólamála eða löggæslu.
Svo eru afkomubætandi ráðstafanir upp á 9 milljarða og loks sértækar aðgerðir upp á 17 í samræmi við fjámálaáætlun, til að hægja á útgjaldavexti.
Útgjaldavöxtur næsta árs 4,1% miðað við 6,7% síðustu ár
„Við erum að sýna framá þennan hóflega raunvöxt útgjalda ríkissjóðs,“ segir Sigurður Ingi. Útgjaldavöxtur næsta árs er áætlaður 4,1% á meðan meðaltal síðustu ára hafi verið 6,7%.
Markmiðið sé að draga úr ríkisumsvifum á meðan staðinn sé vörður um velferðarmál viðkvæmustu hópa.
Svigrúm verði skapað innan útgjaldaramma fjárlaga fyrir brýn verkefni.
Í stað almennra aðgerða verði því farið í sértækar aðgerðir til að nýta fjármuni betur.
Krónutölugjöld hækka um 2,5%
Sigurður fór yfir helstu breytingar í tekjuöflun. Þar ber hæst að bensín- og olíugjöld munu falla niður og í staðinn kemur kílómetragjald á öll ökutæki.
Með því verði krónutölugjöld færri, en þau sem hækka munu bara hækka um 2,5% í stað 5,2% til þess að styðja við verðbólgumarkmið.
Svo munu skattekjur 2025 verða hærri vegna tímabundinnar hækkunar á tekjuskatti lögaðila í síðustu fjárlögum.
„Við erum ekki að bæta í“
Varðandi fjármögnun fyrirliggjandi verkefna segir Sigurður Ingi að áherslan verði sett á forgangsröðun og aðhald.
„Við erum ekki að bæta í.“
Mörg ný verkefni væru að koma inn hjá stjórnvöldum, í samræmi við fjármálaáætlun, meðal annars vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins og aðgerðir vegna kjarasamninga.
Áhersla á að verja viðkvæma hópa
Sigurður segir að leggja verði áherslu á að verja barnafjölskyldur og viðkvæma hópa. Ungt fólk á húsnæðismarkaði og tíundaði ýmsar aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í þeim efnum. Meðal annars í tengslum við kjarasamninga.
Sér fram á „bjartari tíma með lægri vöxtum“
Sigurður segir að þrátt fyrir allt séu öll merki um að íslenskt samfélag sé að ná árangri í baráttunni gegn verðbólgu.
„Við sjáum fram á bjartari tíma með lægri vöxtum.“
Vaxtabyrði unga fólksins hækkar umtalsvert
Heilt á litið er vaxytabyrði íslenskra heimila á uppleið, en engu að síður álíka og hún var árið 2017.
Ungt fólk stendur þó höllum fæti hvað þetta varðar og er að verja mun meiri hluta ráðstöfunartekna í vaxtagreiðslur.
„Þetta er áskorunin. Það er unga fólkið sem er á húsnæðismarkaði.“
Undirliggjandi verðbólga sé innan vikmarka
Það kemur sennilega fæstum á óvart að Sigurður Ingi segi að helsta verkefni stjórnvalda sé að ná niður verðbólgu og vöxtum.
Mikilvægur árangur hafi náðst í baráttunni við verðbólguna en hún sé enn allt of mikil.
Undirliggjandi verðbólga sé komin innan vikmarka, en húsnæðismarkaðurinn sé helsta áskorunin.
Segir góðan grunn í íslensku efnahagslífi
Sigurður Ingi fer yfir hagvöxt síðustu ára, sem hefur óvíða verið meiri en hér á landi. Á meðan sé atvinnuástand gott. Þess vegna sé staða heimilanna „eins góð og raun ber vitni“.
Grunnurinn að íslenskum efnahag sé góður og ólíkt öðrum þjóðum sem eru að berjast við að auka vöxt sé Ísland að fást við þenslu.
„Þetta er allt að koma“
Sigurður Ingi hefur hafið fundinn. Yfirskrift kynningarinnar er „Þetta er allt að koma“.
Hann segir stöðuna þannig að það atvinnuleysi sé lítið og öflug verðmætasköpun í landinu. Áhersla sé lögð á aðhald í útgjöldum og auknar tekjur.
Þannig skapist skilyrði fyrir lægri verðbólgu og vöxtum án þess að valda atvinnuleysi.
Verið sé að aðlaga hagkerfið eftir þenslu síðustu ára.
Hvorki skattahækkanir né niðurskurður í kortunum
Sigurður Ingi sagði í samtali við fréttastofu í síðustu viku að ekki verði gripið til niðurskurðar og skattahækkana á næsta ári til að ná fram stöðugleika í ríkisfjármálum.
Fjárlagafrumvarpið myndi byggja á fjármálaáætlun sem var kynnt í vor en þar er gert ráð fyrir að smám saman dragi úr hallarekstri ríkissjóðs á næstu árum. Útgjaldavexti verði haldið skefjum og verkefnum frestað og forgangsraðað.
Fyrsta fjárlagafrumvarp Sigurðar Inga
Góðan daginn og velkomin í þessa fréttavakt.
Þorgils Jónsson heiti ég og mun flytja ykkur helstu tíðindi af kynningarfundi Sigurðar Inga Jóhannessonar fjármálaráðherra vegna fjárlagafrumvarps 2025.
Þetta er fyrsta fjárlagafrumvarp Sigurðar Inga, en hann tók við embætti fjármálaráðherra í vor.