7. september 2024 kl. 10:30
Innlendar fréttir
Reykjanesbær

Tilkynnt um þrjár líkamsárásir á Ljósanótt

Tilkynnt var um þrjár líkamsárásir á Ljósanótt í Reykjanesbæ í gærkvöld, samkvæmt tilkynningu Lögreglunnar á Suðurnesjum. Þá var einn tekinn fyrir ölvunarakstur og afskipti höfð af tveimur ungmennum sem voru ölvuð og undir aldri. Lögreglan var með sýnilega löggæslu við hátíðarsvæðið á meðan formleg dagskrá var í gangi, talsverður fjöldi fólks var á skemmtistöðum bæjarins og þónokkur ölvun fram eftir nóttu að sögn lögreglu.

Stærsta kvöld Ljósanætur er svo í kvöld, en aukin öryggisgæsla er á hátíðinni um helgina og sinna henni lögreglumenn af Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu auk vopnaðra sérsveitarmanna. Er það í takt við aukinn viðbúnað víða annars staðar eftir röð alvarlegra atvika í samfélaginu. Dæmi um það er að ákveðið var að setja upp málmleitartæki á framhaldsskólaböllum á höfuðborgarsvæðinu.

Í aðdraganda Ljósanætur ræddi lögreglan á Suðurnesjum við skólabörn og upplýsti foreldra um að lögreglan hiki ekki við að hafa afskipti af börnum, sýni þau af sér óeðlilega hegðum.

Ljósanótt.
Ljósanótt er fagnað um helgina.Ljósmynd / Ljósanótt