7. september 2024 kl. 18:56
Innlendar fréttir
Leit og björgun

Björg­uðu smala í vanda

Fyrr í dag voru björgunarsveitir í Borgarfirði kallaðar út vegna smala sem hafði hrasað við smalamennsku í Skorradal, í landi sem er afar erfitt yfirferðar. Hann slasaðist lítillega á fæti.

Í dag var smalað víðast hvar í Borgarbyggð og mikið af fólki á fjalli að eltast við fé en björgunarsveitir voru boðaðar út rétt fyrir klukkan eitt í dag þegar ljóst var hvernig fyrir smalanum var komið.

Björgunarsveitarfólk komst að hinum slasaða á fjórhjólum en félagar smalans höfðu beðið með honum eftir aðstoð.

Smalanum var komið fyrir á hjóli björgunarfólks, sem flutti hann niður að sjúkrabíl til aðhlynningar að því er fram kemur í tilkynningu frá björgunarsveit.

Björgunarsveit Borgarfjarðar
Frá vettvangi í dag.RÚV / Landsbjörg