9. júlí 2024 kl. 11:31
Innlendar fréttir
Jarðhræringar á Reykjanesskaga

Kvikuinnstreymið áfram meira en fyrir síðasta eldgos

Landris undir Svartsengi heldur áfram með svipuðum hraða og undanfarna daga. Kvikuinnstreymið er áfram meira en fyrir eldgosið 29. maí, samkvæmt aflögunargögnum og GPS-mælingum. Því má búast við öðru kvikuhlaupi eða eldgosi á næstu vikum eða mánuðum.

Uppfært hættumat Veðurstofunnar er að mestu óbreytt, nema minni hætta er metin á hraunflæði enda er síðasta gosi lokið. Um 260 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga í liðinni viku. Flestir þeirra voru í kringum Kleifarvatn. Tuttugu skjálftar urðu yfir kvikuganginum sjálfum. Sá stærsti var 1,3 að stærð og vestan við Grindavík. Það er svipuð virkni og hefur verið frá goslokum síðasta hálfa mánuðinn.

Svartsengi séð úr lofti
Svartsengi séð úr lofti.RÚV / Ragnar Visage