Landris undir Svartsengi heldur áfram með svipuðum hraða og undanfarna daga. Kvikuinnstreymið er áfram meira en fyrir eldgosið 29. maí, samkvæmt aflögunargögnum og GPS-mælingum. Því má búast við öðru kvikuhlaupi eða eldgosi á næstu vikum eða mánuðum.
Uppfært hættumat Veðurstofunnar er að mestu óbreytt, nema minni hætta er metin á hraunflæði enda er síðasta gosi lokið. Um 260 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga í liðinni viku. Flestir þeirra voru í kringum Kleifarvatn. Tuttugu skjálftar urðu yfir kvikuganginum sjálfum. Sá stærsti var 1,3 að stærð og vestan við Grindavík. Það er svipuð virkni og hefur verið frá goslokum síðasta hálfa mánuðinn.